Fara í efni

Fréttir

22.11.2013

Næst síðasti lestur

Á sunnudaginn kemur, þann 24. nóv. er komið að næstsíðasta lestri Sturlungaslóðarhópsins, sem hefur verið í Áskaffi síðstu þrjá sunnudaga. Lesin verður Sturlusaga. Lestur þessa sunnudags hefst á 12. kafla. Síðasti lestur Sturlusögu verður sunnudagur 1. desember og þá ljúkum við sögunni. Allir velkomnir.
16.10.2013

Opið á sunnudögum fram að jólum!

Áshúsið verður opið almenningi alla sunnudaga fram að jólum frá 12 til 17 og hægt er að fá að skoða gamla bæinn í Glaumbæ á sama tíma. Áskaffi er opið á sama tíma.
09.10.2013

Söguleg safnahelgi framundan!

Næsta sunnudag, þann 13. október verða sýningarnar í Minjahúsinu, gamla bænum í Glaumbæ og í Áshúsinu opnar frá 13 til 17 og það kostar ekkert inn. Áskaffi opnar kl. 12 þennan daginn og í matinn er sunnudagssteik að hætti ömmu og mömmu. Laugardaginn 12. okt. verða flest söfn og setur í Húnavatnssýslum með sýningar sínar opnar frá 13 til 17. Aðgangur ókeypis.
07.10.2013

Kirkjugarður fundinn í Keflavík í Hegranesi

Í síðustu viku grófu Rarik-menn skurð austan við gamla bæjarhólinn í Keflavík í Hegranesi. Í skurðinum sá Þórey bóndi í Keflavík hleðslusteina sem hún lét vita af. Þegar þeir voru kannaðir í morgun komu í ljós gamlar hleðslur undir ljósu öskulagi frá Heklugosi 1104. Sömuleiðis fundust fótabein tveggja einstaklinga sem hafa verið lagðir þar til greftrunar.
30.09.2013

Það verður kennt að vefa á kljásteinavefstað

Dagana 18-20. október er fyrirhugað að halda námskeið í kljásteinavefnað í Auðunarstofu, á Hólum í Hjaltadal. Upplýsingar gefur Bryndís Zoëga, bryndisz@skagafjordur.is eða í síma 453 5097.
14.09.2013

Trésmíðanám á Tyrfingsstöðum

Í dag fékk fyrsti hópur nemenda í húsasmíðum í FNV að kynnast hvernig best er að haga timburviðgerðum á gömlum húsum. Framhúsið á Tyrfingsstöðum er kjörinn vettvangur fyrir slíka kennslu. Kennari þeirra er Björn Björnsson, trésmíðameistari. Byggðasafnið, Fornverkaskólinn ogTyrfingsstaðabændur útvega farartæki, fæði, efni og aðstöðu.
20.08.2013

Evrópustyrkur til rannsókna á málmbræðslu til forna

Fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga, ásamt samstarfsaðilum, hlaut nýverið Evrópustyrk til greininga á íslenskum deiglum. Deiglur eru ílát til að bræða málma, einkum eir eða kopar og ýmsar samsetningar af kopar, tini og blýi og hafa verið notaðar á Íslandi frá landnámi til okkar daga. Í elstu tíð hafa þær verið smáar, á stærð við kaffibolla og jafnvel smærri, og gerðar úr leir, en á seinni öldum einnig úr málmum og steinefnum af ýmsu tagi.
02.08.2013

Seyla kvödd – í bili!

Nú er lokið uppgreftri 11. aldar kirkjugarðsins að Stóru-Seylu, Langholti. Frumniðurstöður rannsóknarinnar benda til að garðurinn hafi verið fremur stutt í notkun þar sem í honum fundust einungis 23 grafir. Þar af voru áætlaðar grafir 13 fullorðinna einstaklinga, tvær grafir stálpaðra barna, gröf unglings auk 7 ungbarnagrafa. Ekki er hægt að fullyrða um aldur og kyn allra sem í gröfunum lágu þar sem að 13 þeirra höfðu verið tæmdar að fullu eða að mestu. Þó var hægt að áætla aldurinn gróflega út frá þeim beinaleifum sem enn voru til staðar í graffyllingum sem og stærð grafanna.
27.07.2013

Kirkjugarðsrannsókn á Stóru-Seylu

Nú fer fram, annað sumarið í röð, fornleifauppgröftur á 11. aldar kirkjugarði á Stóru-Seylu á Langholti, Skagafirði. Rannsóknin mun taka þrjár vikur og að henni koma 10 manns, sérfræðingar og nemar bæði innlendir og erlendir. Verkefnið er á vegum Fornleifadeildar Byggðasafnsins í samstarfi við bandarískan rannsóknarhóp sem hefur undanfarin 10 ár stundað fornleifa- og jarðsjárrannsóknir í héraðinu.
Röggvarfeldur í vinnslu
12.07.2013

Röggvarfeldur

Í fyrra var smíðaður vefstóll, oftast kallaður vefstaður, fyrir byggðasafnið. Fyrirmyndin að vefstólnum er í safninu á Austurey í Noregi, þaðan sem smiður var sendur til að aðstoða okkur við smíðina. Stólnum var komið fyrir í Auðnarstofu á Hólum. Í framhaldinu var haldið námskeið í vefnaði og þótti tilvalið að vefa fyrst röggvarfeld.