Byggðasafnið hefur í gegnum tíðina tekið þátt í fjölmörgum samstarfssýningum, ýmist til lengri eða skemmri tíma en sem stendur eru nokkrar fastasýningar sem safnið á þátt í, annars vegar í Sögusetri íslenska hestsins á Hólum og hins vegar í Vesturfarasetrinu á Hofsósi.
Sögusetur íslenska hestsins
Gamla hesthúsið í hjarta Hólastaðar hýsir Sögusetur íslenska hestsins. Sýningar þess eru byggðar upp með leikmyndum, kvikmyndum, myndskeiðum og munum.
Sögusetrið var stofnað að Hólum í Hjaltadal 9. júní 2001 af Hestamiðstöð Íslands, Byggðasafni Skagfirðinga og Hólaskóla og gert að sjálfseignarstofnun árið 2006. Nánari upplýsingar um sýningar og opnunartíma má finna á heimasíðu Sögusetursins hér.
Framlag Byggðasafnsins í sýningum setursins:
- 2010- : Lán muna í sýninguna Íslenski hesturinn.
- 2007- : Lán muna og aðstoð við textagerð fyrir sýninguna Theodorsstofa.
Vesturfarasetrið
Vesturfarasetrið býður upp á fjórar sýningar í þremur húsum á Hofsósi, auk ættfræðiþjónustu, bókasafns, og íbúðar fyrir fræðimenn. Markmið Vesturfarasetursins er að segja sögu fólksins sem fór til Vesturheims og efla tengslin milli afkomenda þeirra og frændfólksins á Íslandi.
Setrið var stofnað árið 1995 af fyrirtækinu Snorri Þorfinnsson h.f. Árið 2006 var Vesturfarasetrinu breytt í sjálfseignastofnun. Nánari upplýsingar um sýningar og opnunartíma má finna á heimasíðu Vesturfarasetursins hér.
Framlag Byggðasafnsins í sýningum setursins:
- 2004- : Íslenskur texti fyrir sýninguna Þögul leiftur í Frændgarði sem fjallar um ljósmyndun í Vesturheimi.
- 2002- : Verkstjórn, hönnun, myndir og texti fyrir sýninguna Æfi og störf Stephans G. Stephanssonar í Stephansstofu.
- 2002- : Íslenskur texti fyrir sýningu um landnám í Norður-Dakóta, Akranna skínandi skart, í Konungsverslunarhúsinu.
- 1996- : Sýningin Annað land, annað líf sem fjallar um líf þeirra þúsunda Íslendinga sem fluttust til „nýja heimsins“ var unnin fyrir Vesturfarasetrið af Byggðasafni Skagfirðinga og er í eigu safnsins.