Byggðasafnið hefur í gegnum tíðina tekið þátt í fjölmörgum samstarfssýningum, ýmist til lengri eða skemmri tíma. Safnið á þátt í nokkrum virkum sýningum, annars vegar í Sögusetri íslenska hestsins á Hólum og hins vegar í Vesturfarasetrinu á Hofsósi.
Samkvæmt samningi við Vesturfarasetrið og Sögusetrið tekur safnið við munum sem Setrunum berast til skráningar og varðveislu, samræmist þeir stefnu safnsins um söfnun muna sem tengjast búferlaflutningum og notkun hestsins.
Sögusetur íslenska hestsins
Gamla hesthúsið í hjarta Hólastaðar hýsir Sögusetur íslenska hestsins. Sýningar þess eru byggðar upp með leikmyndum, kvikmyndum, myndskeiðum og munum.
Sögusetrið var stofnað að Hólum í Hjaltadal 9. júní 2001 af Hestamiðstöð Íslands, Byggðasafni Skagfirðinga og Hólaskóla og gert að sjálfseignarstofnun árið 2006. Nánari upplýsingar um sýningar og opnunartíma má finna á heimasíðu Sögusetursins hér.
Framlag Byggðasafnsins í sýningum setursins:
- 2010- : Lán muna í sýninguna Íslenski hesturinn.
- 2007- : Lán muna og aðstoð við textagerð fyrir sýninguna Theodorsstofa.
Vesturfarasetrið
Vesturfarasetrið býður upp á fjórar sýningar í þremur húsum á Hofsósi, auk ættfræðiþjónustu, bókasafns, og íbúðar fyrir fræðimenn. Markmið Vesturfarasetursins er að segja sögu fólksins sem fór til Vesturheims og efla tengslin milli afkomenda þeirra og frændfólksins á Íslandi.
Setrið var stofnað árið 1995 af fyrirtækinu Snorri Þorfinnsson h.f. Árið 2006 var Vesturfarasetrinu breytt í sjálfseignastofnun. Nánari upplýsingar um sýningar og opnunartíma má finna á heimasíðu Vesturfarasetursins hér.
Framlag Byggðasafnsins í sýningum setursins:
- 2004- : Íslenskur texti fyrir sýninguna Þögul leiftur í Frændgarði sem fjallar um ljósmyndun í Vesturheimi.
- 2002- : Verkstjórn, hönnun, myndir og texti fyrir sýninguna Æfi og störf Stephans G. Stephanssonar í Stephansstofu.
- 2002- : Íslenskur texti fyrir sýningu um landnám í Norður-Dakóta, Akranna skínandi skart, í Konungsverslunarhúsinu.
- 1996- : Sýningin Annað land, annað líf sem fjallar um líf þeirra þúsunda Íslendinga sem fluttust til „nýja heimsins“ var unnin fyrir Vesturfarasetrið af Byggðasafni Skagfirðinga og er í eigu safnsins.