Síðustu tvo áratugi hafa verið haldin fjölmörg torf- og grjóthleðslunámskeið, auk námskeiða í grindarsmíði, vinnslu rekaviðar og vefnaði á kljásteinavefstað. Þátttakendur, bæði innlendir og erlendir, áhuga- og fagfólk í minjavörslu, eru komnir á fjórða hundrað.
Fyrirhuguð námskeið eru auglýst á vorin á heimasíðunni og Facebook-síðu Fornverkaskólans.
Frekari upplýsingar veitir verkefnastjóri Fornverkaskólans, Inga Katrín D. Magnúsdóttir í gegnum netfangið ingakatrin@skagafjordur.is, eða í síma 453 6173.
Námskeið í torfhleðslu eru yfirleitt kennd yfir þrjá daga og er megináhersla lögð á verklega kennslu. Farið er yfir meginatriði í efnisvali og aðferðir við torfstungu og torfristu og kenndar helstu hleðsluaðferðir með streng og klömbruhnausum. Helstu markmið námskeiðanna er að þátttakendur hljóti þjálfun í torfhleðslu og efnistöku, læri að þekkja helstu hugtök, verkfæri og hleðslugerðir og tileinki sér góðar vinnureglur við viðgerðir og umgengni fornra og friðaðra mannvirkja.
Grjót er byggingarefnis sem, eins og torfið, tilheyrir fremur fortíð en nútíð. Kennd eru grundvallaratriði grjóthleðslu, s.s. val á efni. Grjót er notað bæði tilhöggvið og náttúrulegt og því mikilvægt að kunna skil á góðu hleðslugrjóti og geta hlaðið upp og gengið frá grjótvegg. Á námskeiðum eru jafnan hlaðnir tvöfaldir frístandandi veggir úr náttúrulegu grjóti. Þátttakendur læra að hlaða horn og boga og að „toppa“ grjótvegg og kennd eru grundvallarhugtök í grjóthleðslu.
Kljásteinavefstaður var notaður á Íslandi frá landnámi og fram á 19. öld, eða þar til vefstólar tóku yfir sem aðalverkfæri við vefnað. Í honum var ofinn röggvarfeldur, vaðmál, einskefta, salún, íslenskt glit, krossvefnaður og fleira. Á námskeiðinu er farið í gegnum rakningu og uppsetningu á vef í kljásteinavefstað og kennd helstu handbrögðin við að vinna voð á þennan forna hátt. Farið er yfir helstu tæki og tól sem tilheyra kljásteinavefstaðnum og í gegnum uppsetningarferlið lið fyrir lið með sýnikennslu og þátttöku nemenda.