Síðustu tvo áratugi hafa verið haldin fjölmörg torf- og grjóthleðslunámskeið, auk námskeiða í grindarsmíði, vinnslu rekaviðar og vefnaði á kljásteinavefstað. Þátttakendur, bæði innlendir og erlendir, áhuga- og fagfólk í minjavörslu, eru komnir á fjórða hundrað.
Fyrirhuguð námskeið 2025
Tvö námskeið eru fyrirhuguð árið 2025, náist næg þátttaka. Námskeiðin eru í grindarsmíði og torfhleðslu.
Grindarsmíðanámskeið á Tyrfingsstöðum
Námskeið í grindarsmíði verður haldið á Tyrfingsstöðum í Skagafirði dagana 27.-29. ágúst næstkomandi. Á Tyrfingsstöðum hafa verið endurreist og viðgerð nokkur torfhús, torfbær, útihús og hlöður, sem saman mynda einstaka minjaheild. Á námskeiðinu stendur til að reisa húsgrind í hesthúsið, sem áfast er gömlu híbýlunum á staðnum.
Skráðu þig á námskeiðið hér. Athugið að 20.000 kr. skráningargjald fæst ekki endurgreitt.
Námskeiðslýsing
Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa áhuga á að læra að smíða einfalda húsgrind. Hluti af námskeiðinu er í formi kynningar og vettvangsskoðunar, en megináhersla verður á verklega kennslu, m.a. rif á rekaviði. Helstu verkfæri verða á staðnum.
Helstu markmið námskeiðsins eru að nemendur þekki helstu hugtök í grindarsmíði og heiti verkfæra, læri að byggja einfalda húsgrind úr tilsniðnu timbri og rekaviði og tileinki sér góðar vinnureglur við viðgerðir og umgengni fornra og friðaðra mannvirkja.
Fjöldi þátttakenda: 6 – 12.
Hvænær: 27. - 29. ágúst 2025, kl. 9-16.
Hvar: Tyrfingsstaðir í Skagafirði
Kennari: Snædís Traustadóttir, húsasmíðameistari
Verð: 70.000 kr. Innifalið; efni, áhöld, kaffiveitingar og léttur hádegisverður.
Athugið að nemendur þurfa sjálfir að sjá um gistingu og mat utan námskeiðs.
Fornverkaskólinn minnir á fræðslusjóði stéttarfélaganna og niðurgreiðslu þeirra vegna þátttöku á námskeiðum. Kynntu þér réttinn hjá þínu stéttarfélagi.
Hvað þarf að hafa með: Hlýjan fatnað, hlífðarföt (pollagalla), vinnuhanska og stígvél/góða skó.
Þeim er sækja námskeið Fornverkaskólans er bent á að huga að eigin tryggingum, en Fornverkaskólinn er ekki ábyrgur gagnvart slysum.
Torfhleðslunámskeið á Minni-Ökrum
Námskeið í torfhleðslu verður haldið á Minni-Ökrum í Skagafirði dagana 30. ágúst-1. september næstkomandi. Til stendur að halda áfram að hlaða upp torfvegg í gamla fjósinu á staðnum, en hafist var handa við verkið á námskeiði Fornverkaskólans sumarið 2024.
Skráðu þig á námskeiðið hér. Athugið að 20.000 kr. skráningargjald fæst ekki endurgreitt.
Námskeiðslýsing
Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa áhuga á að læra að byggja úr torfi. Hluti af námskeiðinu er í formi kynningar og vettvangsskoðunar, en megináhersla verður á verklega kennslu. Kennd verða meginatriði í efnisvali, torfstungu og torfskurði og helstu hleðsluaðferðir með streng og klömbruhnausum. Helstu verkfæri verða á staðnum, s.s. stunguskóflur og torfljár.
Helstu markmið námskeiðsins eru að nemendur þekki helstu hugtök, verkfæri og hleðslugerðir er tíðkast í torfhleðslu, þjálfist í torfhleðslu og -efnistöku, geti hlaðið og gengið frá torfvegg með klömbruhnaus og/eða streng, og tileinki sér góðar vinnureglur við viðgerðir og umgengni fornra og friðaðra mannvirkja
Fjöldi þátttakenda: 6 – 12.
Hvænær: 30. ágúst - 1. september 2025, kl. 9-16.
Hvar: Minni-Akrar í Skagafirði.
Kennari: Helgi Sigurðsson hjá Fornverki ehf.
Verð: 70.000 kr. Innifalið; efni, áhöld, kaffiveitingar og léttur hádegisverður.
Athugið að nemendur þurfa sjálfir að sjá um gistingu og mat utan námskeiðs.
Fornverkaskólinn minnir á fræðslusjóði stéttarfélaganna og niðurgreiðslu þeirra vegna þátttöku á námskeiðum. Kynntu þér réttinn hjá þínu stéttarfélagi.
Hvað þarf að hafa með: Hlýjan fatnað, hlífðarföt (pollagalla), vinnuhanska og stígvél/góða skó. Torftakan fer m.a. fram í votlendi og því viðbúið að þátttakendur verði moldugir og blautir.
Þeim er sækja námskeið Fornverkaskólans er bent á að huga að eigin tryggingum, en Fornverkaskólinn er ekki ábyrgur gagnvart slysum.
Almennar upplýsingar um námskeið skólans
Torfhleðsla
Námskeið í torfhleðslu eru yfirleitt kennd yfir þrjá daga og er megináhersla lögð á verklega kennslu. Farið er yfir meginatriði í efnisvali og aðferðir við torfstungu og torfristu og kenndar helstu hleðsluaðferðir með streng og klömbruhnausum. Helstu markmið námskeiðanna er að þátttakendur hljóti þjálfun í torfhleðslu og efnistöku, læri að þekkja helstu hugtök, verkfæri og hleðslugerðir og tileinki sér góðar vinnureglur við viðgerðir og umgengni fornra og friðaðra mannvirkja.
Grjóthleðslunámskeið
Grjót er byggingarefnis sem, eins og torfið, tilheyrir fremur fortíð en nútíð. Kennd eru grundvallaratriði grjóthleðslu, s.s. val á efni. Grjót er notað bæði tilhöggvið og náttúrulegt og því mikilvægt að kunna skil á góðu hleðslugrjóti og geta hlaðið upp og gengið frá grjótvegg. Á námskeiðum eru jafnan hlaðnir tvöfaldir frístandandi veggir úr náttúrulegu grjóti. Þátttakendur læra að hlaða horn og boga og að „toppa“ grjótvegg og kennd eru grundvallarhugtök í grjóthleðslu.
Kljásteinavefstaðsvefnaður
Kljásteinavefstaður var notaður á Íslandi frá landnámi og fram á 19. öld, eða þar til vefstólar tóku yfir sem aðalverkfæri við vefnað. Í honum var ofinn röggvarfeldur, vaðmál, einskefta, salún, íslenskt glit, krossvefnaður og fleira. Á námskeiðinu er farið í gegnum rakningu og uppsetningu á vef í kljásteinavefstað og kennd helstu handbrögðin við að vinna voð á þennan forna hátt. Farið er yfir helstu tæki og tól sem tilheyra kljásteinavefstaðnum og í gegnum uppsetningarferlið lið fyrir lið með sýnikennslu og þátttöku nemenda.