Varðveisla Glaumbæjar
Gamli bærinn í Glaumbæ er friðlýst bygging og tilheyrir húsasafni Þjóðminjasafns Íslands.
Það skipti sköpum fyrir varðveislu Glaumbæjar að breski Íslandsvinurinn Mark Watson (1906-1979) gaf 200 sterlingspund til varðveislu bæjarins árið 1938. Bærinn var friðlýstur árið 1947 og sama ár flutti síðasta fólkið úr bænum.
- Hér má lesa nánar um Mark Watson og hans þátt í varðveislu bæjarins.
Árið 1948 var Byggðasafn Skagfirðinga stofnað og fékk þá afnot af bænum fyrir starfsemi sína, samkvæmt samningi við Þjóðminjasafn Íslands. Megin sýning Byggðasafns Skagfirðinga Mannlíf í torfbæjum á 19. öld var opnuð þann 15. júní 1952 í gamla bænum.
Aldur bæjarins
Sagnir herma að Snorri Þorfinnsson, sonur Þorfinns karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur, hafi byggt fyrstu kirkjuna í Glaumbæ í kringum árið 1000, staðsetning þeirrar kirkju er óþekkt. Árið 2002 fundust leifar húsa frá 11. öld í túninu austur af bæjarhólnum. Hugsanlega er þar um að ræða fyrsta bæjarstæði Glaumbæjar og kannski liggja leifar kirkjunnar í grennd við það.
Húsaskipan og byggingarefni
Glaumbær er gangnabær af stærstu gerð, hann samanstendur af þrettán húsum og er um 730 fermetrar að stærð. Sex húsanna snúa gafli/burstum fram á hlað og hægt er að ganga inn í þau af hlaðinu, þetta eru kölluð framhús. Níu húsanna eru svokölluð bakhús en þau tengjast öll bæjargöngunum sem liggja frá bæjardyrum og í gegnum alla þyrpinguna inn að baðstofunni sem er innst. Bakdyr bæjarins eru á einu bakhúsanna, þar gekk heimilisfólk vanalega um. Skammt suðvestur af bakdyrunum er þónokkur hóll, en það er gamli öskuhaugurinn, þangað setti heimilisfólkið ruslið sem féll til á bænum í nokkur hundruð ár.
Grjót er af skornum skammti í landi Glaumbæjar, en torfrista er góð. Óhætt er að fullyrða að óvíða í veröldinni sé torf notað í jafn miklum mæli í jafn stóra byggingu eins og í Glaumbæ. Veggirnir eru hlaðnir úr klömbrum, sniddu og streng. Rekaviður og innfluttur viður eru í grindum og þiljum.
- Lesa má nánar um byggingarefni og handverk í húsinu hér.