Saga hússins
Áshúsið var byggt á árunum 1883-1886 í Ási í Hegranesi. Hjónin Sigurlaug Gunnarsdóttir (1828-1905) og Ólafur Sigurðsson (1822-1908), sem byggðu húsið, stóðu oft fyrir námsskeiðum í Ási, bæði fyrir stúlkur og drengi og héldu skagfirska kvennaskólann á heimili sínu 1877, fyrsta árið sem hann starfaði. Markmiðið með byggingu hússins var einmitt að hýsa skólann þar, en af því varð þó ekki. Búið var í húsinu til 1977. Þá höfðu fjórar kynslóðir sömu fjölskyldu búið þar. Áshúsið var síðan flutt í heilu lagi á bíl að Glaumbæ árið 1991.
Frumkvöðlafólkið í Ási
Á tímabilinu 1870-1900 mátti rekja margs konar búbætur, sem menn höfðu ekki séð áður, til heimilisins í Ási. Sumt var innflutt og annað endurbætt eða fundið upp á staðnum.
Meðal þess sem fyrst var innleitt í Ási:
- Fyrsta fótstigna saumavélin 1870
- Fyrsta prjónavélin 1874
- Fyrsta eldavélin
- Fyrsta spunavélin 1882
Í Ási var hraðskyttuvefstóll og ýmsar nýjar vélar notaðar við vefnað og ullarvinnu. Þá var þar vindmylla til að mala korn og fótstiginn hverfisteinn til að brýna á ljái og önnur eggjárn. Sigurður Ólafsson fann einnig upp handtöng til að klippa tennur í ullarkamba en sú töng sparaði mörg dagsverk.
Mörg komu í Ás til að læra á nýju tækin og fá gagnlegar leiðbeiningar, svo sem um:
- Notkun aktygja í stað reiðtygja til dráttar
- Notkun trékjálka í staða dráttartauga á ísasleða
- Notkun rakstrarkonu, vírgrind sem fest var á ljái þannig að rakaðist úr ljáfarinu jafnóðum og slegið var
Margt fleira mætti telja.