Fara í efni

Verkefni skólans

Tyrfingsstaðir á Kjálka, Skagafirði.

Tyrfingsstaðir

Vettvangur kennslu á langflestum námskeiðum Fornverkaskólans hefur verið á Tyrfingsstöðum á Kjálka í Skagafirði. Árið 2006 var gerður samningur við ábúendur Tyrfingsstaða, Kristínu Jóhannsdóttur og Sigurð Marz Björnsson, um að samþætta kennslu í gömlu handverki og uppbyggingu og endurreisn torfhúsanna sem stóðu á bænum. Með verkefninu skapaðist vettvangur þar sem varðveisla menningararfsins, kennsla handverks og viðhald menningarminja hefur farið hönd í hönd.

Tyrfingsstaðaverkefnið, fellur undir stefnu Byggðasafns Skagfirðinga að rannsaka og varðveita torfminjaarf Skagfirðinga. Tyrfingsstaðaverkefnið og Fornverkaskólinn eru í raun sjálfsstæðar einingar sem hafa notið góðs hvor af annarri. Með aðstöðunni á Tyrfingsstöðum fékk Fornverkaskólinn vettvang fyrir kennslu í torf- og grjóthleðslu og grindarsmíði, og á sama tíma var hægt að rannsaka, læra af og varðveita heildstæða bæjarmynd á Tyrfingsstöðum.

Þegar viðgerðir hófust á Tyrfingsstöðum árið 2007 voru öll húsin, nema fjósið, gamli bærinn, kofinn fram á hlaði og yngsta hesthúsið orðin að tóftum. Við viðgerðir var lagt upp með að halda í uppruna húsanna eins og fremst var kostur. Þeirri aðferðafræði sem frá upphafi hefur verið beitt er að skrá og mynda ferlið í heild sinni, niðurrif og hreinsun úr tóftum, ferli viðgerða og lokaútkomu við endurbyggingu.

Nánar má lesa um torfhúsin á Tyrfingsstöðum hér.

Syðsta-Grund

Árin 2023 og 2024 var unnið að viðgerðum gömlu útihúsanna á Syðstu-Grund í fyrrum Akrahreppi. Útihúsin voru áður notuð sem fjós, en nýtt undir hross í seinni tíð. Á námskeiði fornverkaskólans árið 2023 voru veggir húsanna hlaðnir upp, en um undirbúning og kennslu á námskeiði sá Helgi Sigurðsson, hleðslumaður og eigandi Fornverks ehf. Hann sá einnig um lagfæringar á grind sumarið 2024 en þá var jafnframt haldinn opinn dagur og öllum áhugasömum boðið að koma og taka þátt í að tyrfa yfir húsin, spjalla og fræðast um torfhleðslu.