2023: Byggðasafn Skagfirðinga í 75 ár var afmælissýning í Áshúsi sem opnuð var þann 29. maí 2023 í tilefni þess að 75 ár voru liðin frá stofnun safnsins. Á sýningunni, sem stóð fram á haustið 2023, var farið yfir víðan völl í sögu safnsins síðustu 75 ár.
2022: Eyþór og Lindin var samstarfsverkefni í tilefni af 120 ára afmæli Eyþórs Stefánssonar árið 2021 sem frestaðist vegna heimsfaraldurs og fram í Frímúrarahúsinu 13. nóvember 2022 en hann var einmitt borinn til grafar þann dag árið 1999. Um var að ræða söngdagskrá með ævisöguívafi byggðu á höfundarverki Eyþórs Stefánssonar og ævisögu hans eftir Sölva Sveinsson. Til sýnis voru munir Eyþórs sem eru í vörslu Byggðasafnsins og þjónuðu einnig tilgangi sviðsmyndar. Gissur Páll Gissurarson tenór, Helga Rós Indriðadóttir sópran, Jóel Agnarsson tenór, Ragnheiður Petra Óladóttir sópran, Sindri Rögnvaldsson bassi og Skagfirski Kammerkórinn sem sáu um söng. Guðrún Dalía Salómonsdóttir sá um píanóleik. Sögumaður var Eyþór Árnason en hann sá einnig um samantekt og umsjón ásamt Helgu Rós Indriðadóttur.
2022: Íslenskir þjóðbúningar og Pilsaþytur samstarfsverkefni Byggðasafnsins og Pilsaþyts þar sem fróðleikur, búningahlutar og skart var til sýnis ásamt kyrtli Pilsaþyts sem vígður var í Miðgarði þann 22. apríl 2022 en sýningin opnaði 19. júní og stóð fram á haust 2022. Af þessu tilefni var einnig afhjúpaður sýningaskápur í Norðurstofu þar sem fimm glæsilegir þjóðbúningar verða til sýnis.
2022: Torfbærinn: Heimili og vinnustaður var sýning sem opnuð var í Gilsstofunni 19. júní 2022 og stóð fram á haustið. Sýningin var frá Skottu kvikmyndafjelagi og var unnin í samstarfi við Byggðasafnið. Þar var hægt að ferðast aftur í tímann með 360° gleraugum.
2022: Villtar erfðalindir nytjaplantna fjallaði um villtar plöntur náskyldum landbúnaðarplöntum og möguleikunum sem felast í þeim, sérstaklega í sambandi við lofslagsvána, líffræðilegan erfðafjölbreytileika og fæðuöryggi. Sýningin var sett upp í samstarfi við Náttúrustofu Norðurlands Vestra og fengin að láni frá Grasagarðinum í Reykjavík og stóð í Glaumbæ í júní 2022.
2021: Sumardagur í Glaumbæ var listsýning í Áshúsi þar sem sýndar voru myndirnar sem prýða samnefnda barnabók. Sýningin var opnuð 18. september 2021, eða um sama leiti og bókin kom út, og stóð til 20. október. Myndirnar voru málaðar af franska listamanninum Jérémy Pailler en barnabókin er samstarfsverkefni Byggðasafns Skagfirðinga og Jérémy. Sögusvið bókarinnar er Glaumbær á seinni hluta 19. aldar og er sagan að mestu byggð á frásögnum af fólki sem bjó í Glaumbæ og Skagafirði á þeim tíma. Lesendur fá að vera með Sigga litla, Jóhönnu vinkonu hans og hundinum Ysju einn dag í lífi þeirra. Bókinni er ætlað að veita innsýn í daglegt líf Íslendinga á árum áður út frá sjónarhóli barns.
2002-2017: Gömlu verkstæðin, voru til sýnis í Minjahúsinu á Sauðárkróki frá 2002-2017. Verkstæðin sýndu aðbúnað manna á litlu 20. aldar smáverkstæðunum sem brúuðu bilið frá handverkfærum og eldsmiðju gamla bændasamfélagsins til tæknivæddra verksmiðja nútímans. Sýningarskrá má nálgast hér. Auk verkstæðanna var sýnd glæsilega uppgerð Ford A bifreið, árgerð 1930, sem Björn Sverrisson, þúsundþjalasmiður gerði við og lánaði safninu til sýningar. Verkstæðin voru:
- Járnsmíðaverkstæði Jóns Nikodeumssonar sem hann reisti 1937 á Lindargötu 7. Verkstæðið var flutt inn í Minjahúsið í heilu lagi og opnuð sýning á því árið 1998. Samvinnuverkefni Byggðasafns og Muna - og minjanefndar Sauðárkróks sem voru sameinuð ári seinna og Byggðasafninu falinn rekstur hússins. Hin verkstæðin bættust síðan við árið 2002.
- Trésmíðaverkstæði Ingólfs Nikodemussonar, sem hann vann í frá 1944 og fram á 9. áratug 20. aldar. Þeir bræður voru þúsundþjalasmiðir sem smíðuðu flest sín tæki sjálfir. Jón vann allt sem þurfti til vatnsveitulagna og Ingólfur var líkkistusmiður í hjáverkum.
- Úrsmíðaverkstæði Jörgens Franks Michelsens sem starfaði á Króknum frá 1909-1935. Verkstæðið er sett upp í hans stíl og með hans tækjum, en auk þess að gera við og flytja inn úr, seldi Michelsen reiðhjól fyrstur manna á Króknum.
- Söðlasmíðaverkstæðið er samsett úr munum sem sýna þróun reiðvera og handverkfæra þeim tengdum frá 1850-1950.
2011-2016: Hitt og þetta úr geymslunni sýning í Minjahúsinu.
2011-2016: Gersemar og gleðigjafar, merkilegir safnmunir og kynntir voru til leiks þrír skagfirskir listamenn, þau Guðrún frá Lundi, Eyþór Stefánsson, tónskáld og Jóhannes Geir, listmálari. Sýning í Minjahúsinu.
2005-2011: Á árunum 2005-2011 var hluti af steinasafns Árna H. Árnasonar (1923-2001) á Kálfsstöðum í Hjaltadal til sýnis og vakti talsverða athygli.
2006-2010: Margt býr í moldinni - Fornleifarannsóknir í Skagafirði í Minjahúsinu Sauðárkróki. Á sýningunni var einkum fjallað um fornleifarannsóknir sem fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga og Hólarannsóknin stóðu fyrir í Skagafirði á árabilinu 2000-2005. Einnig var fjallað um rannsóknir á torf- og grjóthleðsluleifum. Hægt er að nálgast upplýsingar um rannsóknirnar hér.
2007: 100 ár í hjúkrun – stiklur. Sýningarstjórn, textaskrif, val muna og mynda, uppsetning. Staður: Safnaðarheimilið á Sauðárkróki (Gamli spítali), 2007.
2006: Saga Hólabiskupa. Sýningargerð og -texti um sögu 34 biskupa á Hólum. Staður: Hólaskóli, frá 2006.
2005-2006: Fyrirheitna landið. Uppsetning sýningar um Mormóna í Utah. Staður: Þjóðmenningarhúsið, Reykjavík, 2005-2006.
2005: Glöggt er gests augað var sýning í Minjahúsinu á Sauðárkróki á ljósmyndum frá Bruno Schweitzer, Páli Jónssyni, Daniel Bruun og fleirum. Unnið með Héraðsskjalsafni Skagfirðinga.
2000-2005: Fyrirheitna landið. Ferðir íslenskra mormóna til Utah. Textaþýðing og staðfærsla. Staður: Frændgarður, Vesturfarasetrið á Hofsósi, 2000-2005.
2004: Heimastjórn 1904. Val muna, mynda og textaskrif fyrir muni og ljósmyndir. Staður: Þjóðmenningarhúsið, Reykjavík, 2004.
1996-2004: Sýning á munum úr einkasafni Kristjáns Runólfssonar, sem hýst var í húsinu frá 1997 til ársloka 2004.
2003: Minjahúsið fékk nýtt útlit sumarið 2003 þegar það var skrautmálað á allar hliðar. Tilgangurinn er að vekja athygli á húsinu og hlutverki þess á meðan ekki er hægt að ráðast í viðgerðir á ytra byrði þess sem orðnar eru mjög aðkallandi þar sem múrhúð á öllu húsinu og flestir gluggar á efri hæðinni voru ónýt. Á austurhlið hússins var nafn þess og lína sem markaði útlínur Skagafjarðar. Á suður- og norðurhliðar voru sett tákn tímans, sól og máni. Gömlum munum ásamt skagfirsku táknunum sverðinu og biskupsbaglinum hafði verið stungið í jörðina, sem máluð var á allar hliðar nema vesturhlið. Allt hverfur til moldar með tímanum og allt er sprottið úr þeim sama jarðvegi. Verkfærin sem voru máluð á húsið voru einskonar tákn um það sem hinn skagfirski jarðvegur hefur gefið af sér. Jafnframt voru þau tákn um það sem sjá mátti inni í húsinu. Hönnuður verksins var Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson myndmenntakennari á Sauðárkróki. Liðsmenn við verkið með honum voru skólaliðar Vinnuskólans.
2002: Skagfirski barokmeistarinn var opnuð í Auðunarstofu, 30. júní 2002 um leið og stofan var formlega opnuð almenningi. Þar voru sýnd nokkur 17. aldar útskurðaverk Guðmundar Guðmundssonar frá Bjarnastaðahlíð, í eigu Þjóðminjasafns Íslands. Sýningin var óður til glæsts sköpunarverks nútímans með verklagi miðalda. Sýningin var samstarfsverkefni Byggðasafnsins, Hólaskóla, Þjóðminjasafns Íslands og Minjavarðar Norðurlands vestra.
2002: Sýningin Staf og lavt - um norskan byggingararf frá miðöldum var samstarfsverkefni Hólaskóla, Hardanger Folkemuseum, Handverksregisteret Maihaugen í Noregi og Byggðasafnsins. Kveikjan var bygging tilgátuhússins Auðunnarstofu hinnar nýju á Hólum sumarið 2001 og í Safnahúsinu á Sauðárkróki sumarið 2002 og var þá nefnd: Stafur og stokkur - norsk húsagerð á miðöldum.
2001: Á Hólum í Hjaltadal var lítil sýning Ríðum heim til Hóla um reiðtygi og klyfjareiðskap, einskonar myndverk, á vegg í anddyri skólans. Sýningin stóð frá júlí 1997 til nóvember 2001.
2001: Skín við sólu. Tónlist í Skagafirði í 1000 ár í Safnahúsinu á Sauðárkróki, sumarsýning 2001.
2001: Í tilefni hátíðahalda sumarið 2000 voru sett tjöld með textum og myndum úr handritum, í Glaumbæjarkirkju. Þar var skoðað hvernig handrit greina frá fyrstu húsbændum í Glaumbæ og öðrum þekktum sögupersónum, sem koma þar við sögu. Gluggað í handrit, en svo heitir sýningin var einnig uppi sumarið 2001.
2000: Sýningin Um kirkjur á Gilsstofuloftinu, yfir sumarið. Þar var fjallað um fyrstu kirkjur í Skagafirði. Nemendur 8. bekkjar Varmahlíðarskóla unnu sýninguna, bæði texta og teikningar, undir leiðsögn kennara síns og í samvinnnu við safnstjóra.
2000: Við fugl og fisk. Sumarsýningar 1993-2000. Þar var fjallað um útveg við Drangey, fuglaveiðar á flekum, bjargsig og fiskveiðar.
1999: Heyr himna smiður hét sýning sem Byggðasafnið setti upp fyrir Skagafjarðarprófastsdæmi sumarið 1999, í tilefni kristnihátíðar. Þar voru sýnishorn varðveittra kirkjumuna úr prófastsdæminu, frá Byggðasafni, Þjóðminjasafni Íslands og skagfirskum og siglfirskum kirkjum.
1999: Sturlunga öld á Gilsstofulofti, sumarsýning 1999. Fjallaði um áhrif blóðugra átaka í Skagafirði á 13. öld.
1995-1999: Á Vindheimamelum var lítil sumarsýning, Hesturinn og þjóðin. Svipmyndir, sem Hestasport sf notaði sem ítarefni með hestasýningum sumurin 1995-1999.
1998: Sýningin Bara húsmóðir á Gilsstofuloftinu, yfir sumarið. Þar var stiklað á viðburðaríkum 60 árum í ævi húsmóður í sveit og skoðuð aðstaða við vinnu, vinnuferlið, heilishaldið og hugrenningar um það.
1996-1998: Sýning á völdum gripum úr minjasafni Andrésar H. Valberg, sem gaf Sauðárkróksbæ allt minjasafn sitt árið 1988, en flestir munanna voru af Króknum.
1995: Í Áshúsi hafa verið sýningar tengdar jólahaldi fyrr á tíð frá 1995. Fjallað hefur verið um ýmis efni teng jólum.
1994: Heyvinna og handverk - viðburðir á safnadegi var í nokkur sumur í senn upp úr 1994.