Fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga var sett á fót árið 2003 og stendur fyrir og stuðlar að rannsóknum á menningarminjum í Skagafirði og víðar. Helstu verkefni deildarinnar utan rannsóknarverkefna er fornleifaskráning vegna skipulags og framkvæmda.
Rannsóknarstarfsemi deildarinnar innan Skagafjarðar markast af rannsóknastefnu safnsins. Lögð er áhersla á:
- Að skapa þekkingu á skagfirsku minjaumhverfi, bæði með frumrannsóknum og úrvinnslu og samþættingu rannsókna sem farið hafa fram í héraðinu
- Byggja upp héraðsbundna þekkingu, efla áhuga og vitund um sögu og umhverfi
- Fjölga möguleikum til að nýta menningarminjar, t.d. í fræðslu og ferðaþjónustu
- Rannsóknarsamstarf við ýmsa aðila, bæði innan héraðs og utan sem og við erlenda aðila.
Starfsemi deildarinnar skiptir verulegu máli fyrir fagleg störf safnsins og ímynd þess ásamt því að efla það til fjölbreyttari rannsókna, faglegrar úrvinnslu og betri minjaverndar. Rannsóknir skapa nýja þekkingu og eru forsendur fræðslu og miðlunar en rannsóknum deildarinnar er miðlað áfram:
- Á heimasíðu og samfélagsmiðlum safnsins
- Með umfjöllun í fjölmiðlum
- Á formi fyrirlestra
- Með rannsóknaskýrslum og greinaskrifum, bæði í fræðileg rit og rit almenns eðlis
- Með sýningagerð og viðburðum
Rekstur deildarinnar
Vegna samkeppnisumhverfis fornleifarannsókna á Íslandi er rekstur deildarinnar fjárhagslega aðskilinn frá safninu og fjárumsýsla hennar ekki tengd annarri starfsemi þess. Fornleifadeildin er ekki, fremur en safnið, rekin í hagnaðarskyni.
Rannsóknir og starfsfólk
Hér má nálgast yfirlit yfir rannsóknarskýrslur deildarinnar.
Hér má nálgast upplýsingar um starfsfólk deildarinnar.