Markmið Byggðasafns Skagfirðinga er að safna, skrá, varðveita og rannsaka muni og minjar sem hafa sögulegt gildi fyrir íbúa Skagafjarðar og miðla upplýsingum um þau. Safnið starfar eftir eftirfarandi stefnum:
Safnstefna
Lögð er áhersla á að safna og varðveita heildir um mannlíf, heimilishald, landnýtingu og horfna starfshætti og á það sem kalla má einkenna daglegt líf, híbýli, matargerð í torfbæjum og hreinlæti, torfvinnu og torfhleðslu, félags- og menningarsögu.
Á liðnum árum hefur safnið átt gott samstarf við ýmsar stofnanir, félög og einstaklinga, sem eflir og auðgar starfsemi safnsins á margvíslegan hátt. Í gildandi safnstefnu 2019-2023 er lögð sérstök áhersla mikilvægi þess að leggja rækt við og efla tengsl safnsins við nærsamfélagið með markvissum hætti. Það er m.a. gert með því að ná til barna, ungmenna og fjölskyldufólks t.d. með því að standa fyrir viðburðum og vera sýnilegri á samfélagsmiðlum.
Fjöldi nemenda af öllum skólastigum sækir fræðslu til safnsins, sem tekur á móti fróðleiksfúsum hópum og einstaklingum allan ársins hring eftir því sem aðstæður leyfa. Ef leitað er eftir sérstöku efni, öðru en því sem felast í sýningum safnsins, eða útgefnu efni, þá má senda fyrirspurn hér.
Safnstefnuna í heild sinni má nálgast hér.
Stofnskrá safnsins má lesa hér.
Söfnunarstefna
Safnið tekur við munum samkvæmt framsettri safnstefnu. Hver gripur, hver minning, hvert merki um mannlíf er fjársjóður fyrir framtíðina ef vel er varðveitt. Allt hefur þó sín takmörk. Ekki er endalaust hægt að taka við munum og rannsóknir, miðlun og varðveislu þarf að sníða að möguleikum hverju sinni.
Helstu muna- og heimildasöfnunarflokkar safnsins eru:
Atvinnuhættir
- Landbúnaður: Safnað er munum sem varpa ljósi á búskaparhætti, með áherslu á notkun hestsins. Landbúnaðarvélum er ekki safnað nema í einstaka undantekningartilfellum.
- Sjávar- og vatnanytjar: Einstaka gripir sem tengjast hlunnindum eru teknir í safnið, s.s. veiðarfæri úr ám og vötnum, við dýra- og fuglaveiði, s.s. flekaveiði við Drangey. Hvorki er safnað bátum né veiðarfærum sem tengjast sjávarútvegi. Bjóðist safninu sjósóknarminjar er bent á Síldarminjasafnið á Siglufirði eða önnur sjóminjasöfn.
- Verslun og viðskipti: Munir sem varpa ljósi á verslunarhætti smáverslana eru gildir. Öðrum verslunarminjum er vísað til nálægra verslunarminja-safna eða til sérsýninga í samvinnu við aðra.
- Iðnaður: Safnað er munum af 20. aldar verkstæðum sem sýna þróunina á 20. öld og brúa bilið milli eldsmiðja og verksmiðja, frá heimilisiðnaði til fjöldaframleiðslu. Engu er safnað sem flokkast undir verksmiðjuvinnu eða fjöldaframleiðslu. Þannig munum verður beint til Síldarminjasafnsins á Siglufirði og Iðnaðarminjasafnsins á Akureyri.
- Heimilisiðnaður: Einkum er safnað munum sem tengjast tóvinnu, útskurði, einnig verkfæri gull-, silfur- og járnsmiða.
- Torf og notkun þess: Safnið stendur að heimildaöflun um torfbyggingar á starfssvæði sínu, efni og tækni og miðla til almennings.
Heimilishættir
Lögð er áhersla á að safna munum og öðrum heimildum um aðbúnað í torfbæjum, hreinlæti og persónulega hagi, einkum sem tengjast breytingatímum undir lok 20. aldar þegar heimilisbragur umbyltist á skömmum tíma.
- Textíll: Safnað er munum sem tengjast sérstökum viðfangsefnum og tísku og dæmum um klæðaburð við hin ýmsu tækifæri, þó ekki í stórum stíl.
- Ljós: Safnað er ljósfærum og hitunartækjum.
- Húsgögn: Lögð er áhersla á innanstokksmuni úr torfbæjum og 20. aldar húsbúnað.
- Fjölskylduhættir: Safnað er leikföngum og öðrum heimildum um fjölskylduhætti á seinni hluta 20. aldar. Áhersla er þó frekar á söfnun munnlegra heimilda og ljósmynda fremur en muna í þessum flokki.
- Skólar: Safnað er munum sem tengjast farskólum og kvennaskólahaldi á Löngumýri.
Samgöngur
Safnað er munum sem tengjast ferðalögum og búferlaflutningum á milli byggða/landa, fótgangandi og á hestum. Engin áform eru um að safna bílum, flugvélum, skipum eða póst- og símaminjum.
Stjórnsýsla
Örfáir munir eru til af stjórnsýslusviði, svo sem innsigli. Þeim er ekki safnað markvisst en tekið er við munum af því tagi.
Safnið tekur ekki við
- Fornleifar: Jarðfundnir gripir 100 ára og eldri eru ekki vistaðir á safninu nema með samþykki Þjóðminjasafns Íslands.
- Ljós- og prentmyndir: Safnið á safn mannamynda, eftirtökur, til sýningahalds. Ljósmyndir sem safnast tengjast uppsetningu sýninga og rannsóknum. Ljósmyndir sem berast safninu eru afhentar Héraðsskjalasafni Skagfirðinga til varðveislu.
- Myndlist: Einungis er tekið við mynd- eða listaverkum sem tengjast húsbúnaði eða öðru sem telst sérlega áhugavert til sýningahalds. Listaverkum er beint til Listasafns Skagfirðinga.
- Flokkar utan söfnunarstefnu safnsins: Ekki er tekið við munum sem tengjast heilsugæslu eða náttúru og ekki er tekið við skjölum og handritum nema í algjörum undantekningartilfellum. Verði safninu boðið þesskonar efni er bent t.d á:
- Þjóðminjasafn Íslands
- Náttúruminjasafn Íslands
- Héraðsskjalasafn Skagfirðinga
Rannsóknarstefna
Rannsóknir skapa nýja þekkingu og eru forsendur fræðslu og miðlunar. Stefna Byggðasafns Skagfirðinga er að stunda þverfaglegar rannsóknir á menningararfi Skagfirðinga í þeim tilgangi að byggja upp héraðsbundna þekkingu, efla áhuga og vitund um sögu og umhverfi og fjölga möguleikum á nýtingu menningarminja, t.d. í ferðaþjónustu.
Einnig er áhersla lögð á samstarf um rannsóknir við ýmsa aðila, bæði innan héraðs og utan, innlenda sem erlenda. Niðurstöðum rannsókna er miðlað í formi sýninga, rita, skýrsla, greina, í fjölmiðlum og öðru formi miðlunar. s.s. heimasíðu eða samfélagsmiðlum. Helstu rannsóknarflokkar eru:
- Rannsóknir á safngripum og þjóðháttum þeim tengdum.
Markmiðið er að stunda rannsóknir á safngripum og þjóðháttum þeim tengdum. Rannsóknir safngripa beinast sérstaklega að safngripum tengdum húsbúnaði, þrifum, torfbyggingum og búnaði manna og hesta til ferðalaga.
- Rannsóknir á torfhúsaarfinum.
Markmiðið er að stunda heimildaöflun og rannsóknir á torfbyggingum og þeim óáþreifanlegum menningararfi sem felst í handverksþekkingunni við torf- og grjóthleðslu, s.s. efni og tækni. Safnið miðlar þekkingunni til almennings í formi erinda, rita og námskeiða.
- Fornleifarannsóknir.
Fornleifarannsóknir beinast að byggðasögu og byggðaþróun á menningararfi Skagfirðinga.
Rannsóknir eru forsendur gagnvirkra vinnubragða við söfnun, fræðslu, miðlun og nýsköpun þekkingar.
- Rannsóknir má nýta við uppbyggingu og eflingu á fræðslu og í menningartengdri ferðaþjónustu.
- Rannsóknir leiða til miðlunar nýrrar þekkingar, fróðleiks, og stuðla að vitneskju um minjar og menningarumhverfinu, sem er forsenda minjaverndar.
- Vinna við sýningu er auðveldlega hægt að setja upp sem rannsóknarferli, þar sem sýningin er markmiðið, afurðin. Sýningar hafa ekki hlotið jafn viðurkenndan sess sem rannsóknaniðurstöður, eins og rannsóknaskýrslur. Samkvæmt orðanna hljóðan bera það með sér hvers afurð þær eru, þar sem aðferðin að baki sýningarvinnunni er yfirleitt ekki augljós. Áhorfandi skynjar sýningu sjaldnast sem rannsóknarniðurstöðu, nema hún sé sett í það samhengi, enda gildir þetta ekki um allar sýningar.