Fornverkaskólinn er verkefni á vegum Byggðasafns Skagfirðinga sem hefur það að markmiði að miðla fróðleik og halda utan um námskeið í hefðbundnu byggingarhandverki. Megin áhersla hefur verið á torf- og grjóthleðslu og grindarsmíði, en einnig hafa verið haldin námskeið í gluggasmíði í samstarfi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, vinnslu rekaviðar og vefnaði á kljásteinavefstað í samstarfi við Byggðasafn Skagfirðinga. Þátttakendur á námskeiðum skólans, bæði innlendir og erlendir, áhuga- og fagfólk í minjavörslu, eru komnir á fjórða hundrað.
Námskeið Fornverkaskólans eru rekin á styrkjum m.a. frá Húsafriðunarsjóði og Safnasjóði. Fjöldi námskeiða á hverju ári veltur á því fjármagni sem fæst. Nánari upplýsingar um námskeiðin má finna hér.
Verkefnisstjóri Fornverkaskólans er Inga Katrín D. Magnúsdóttir.
- Smárit um torf og gamla byggingarhætti ásamt fleiru má finna hér.
Saga fornverkaskólans
Byggðasafn Skagfirðinga setti það markmið í safnstefnunni árið 1999 að rannsaka sérstaklega torfmannvirki og -handverk og var þá hafist handa við rannsókn á torfhleðsluleifum í Skagafirði. Fornverkaskólaverkefnið á sér rætur að rekja til ársins 2006, en þá var undirritað samkomulag við eigendur á Tyrfingsstöðum á Kjálka í Skagafirði um notkun staðarins sem námskeiðsvettvang í gömlu byggingarhandverki. Á staðnum eru ýmsar byggingar úr torfi og grjóti; híbýli ásamt nokkrum útihúsum og hlöðum. Námskeiðshald á staðnum hófst árið 2007 og síðan hafa flest námskeið Fornverkaskólans verið haldin þar. Tyrfingsstaðaverkefnið og Fornverkaskólinn eru í raun sjálfsstæðar einingar sem hafa notið góðs hvor af annarri. Sjá nánari upplýsingar hér.
Með stofnun Fornverkaskólans var ætlunin að tengja handverk og byggingararf nánari böndum og þar með stuðla að varðveislu hins forna handverks sem felst í torf- og timburbyggingum. Meðal markmiða Fornverkaskólans frá upphafi var að útskrifa nemendur með hagnýta þekkingu og færni í vinnubrögðum í íslensku byggingarhandverki, einkum torfskurði og torf- og grjóthleðslu, tré- og málmsmíði.
Fram til 2024 var Fornverkaskólinn samstarfsverkefni Byggðasafns Skagfirðinga, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Háskólans á Hólum. Í lok árs 2024 var ákveðið að láta staðar numið í samstarfi aðildastofnanna og tók Byggðasafn Skagfirðinga alfarið við Fornverkaskólaverkefninu.
Mikilvægi handverksþekkingar
Hefðbundið byggingahandverk, til dæmis torf- og grjóthleðsla er hluti af dýrmætum menningararfi Íslendinga sem er ört að falla í gleymsku. Handverksþekking í öflun, meðferð og nýtingu timburs, torfs og grjóts er forsenda þess að hægt sé að viðhalda og varðveita menningarminjar þjóðarinnar sem felast í hefðbundnum húsakynnum og byggingararfleifð frá fornu fari. Án viðhalds handverksþekkingarinnar glatast hún á skömmum tíma.
Minjaverndarviðurkenning Minjastofnunar Íslands
Fornverkaskólinn hlaut sérstaka viðurkenningu Minjastofnunar Íslands árið 2023 fyrir framlag sitt til varðveislu á fornu byggingarhandverki. Í umsögn Minjastofnunar segir m.a.:
„Með námskeiðum sínum hefur skólinn miðlað þekkingu til áhugafólks og fagfólks innan minjavörslu á gömlu handverki og um leið stuðlað að varðveislu handverkshefða sem hafa verið á undanhaldi. Þekking á gömlum byggingaraðferðum er forsenda þess að hægt sé að halda við torfhúsaarfi þjóðarinnar."
Guðlaugur Þór Þórðarson, þáverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra bætti við að ekki væri aðeins um arf þjóðarinnar að ræða, heldur heimsins. Torfarfurinn er ekki séríslenskt fyrirbæri, handverkinu hefur verið haldið við á Íslandi en er að mestu horfið annarsstaðar.