07.08.2021
Í byrjun ágúst barst Byggðasafninu pakki frá Þýskalandi. Sá atburður er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi, nema fyrir þær sakir að innihald pakkans var afar merkilegt. Í pakkanum var rjómakanna úr tini, útskorin smjöraskja og kotrutafla, rennd úr hvalbeini. Pakkanum fylgdi hvorki útskýring né orðsending og starfsfólk safnsins botnaði fyrst um sinn hvorki upp né niður í sendingunni, en svo fór að renna upp fyrir okkur ljós. Rjómakannan, sem er með blómaflúri um belginn, kom kunnuglega fyrir sjónir og uppgötvaðist að hún tilheyrir setti sem safnið varðveitir í gamla bænum í Glaumbæ.