Fara í efni

Fréttir

14.09.2013

Trésmíðanám á Tyrfingsstöðum

Í dag fékk fyrsti hópur nemenda í húsasmíðum í FNV að kynnast hvernig best er að haga timburviðgerðum á gömlum húsum. Framhúsið á Tyrfingsstöðum er kjörinn vettvangur fyrir slíka kennslu. Kennari þeirra er Björn Björnsson, trésmíðameistari. Byggðasafnið, Fornverkaskólinn ogTyrfingsstaðabændur útvega farartæki, fæði, efni og aðstöðu.
20.08.2013

Evrópustyrkur til rannsókna á málmbræðslu til forna

Fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga, ásamt samstarfsaðilum, hlaut nýverið Evrópustyrk til greininga á íslenskum deiglum. Deiglur eru ílát til að bræða málma, einkum eir eða kopar og ýmsar samsetningar af kopar, tini og blýi og hafa verið notaðar á Íslandi frá landnámi til okkar daga. Í elstu tíð hafa þær verið smáar, á stærð við kaffibolla og jafnvel smærri, og gerðar úr leir, en á seinni öldum einnig úr málmum og steinefnum af ýmsu tagi.
02.08.2013

Seyla kvödd – í bili!

Nú er lokið uppgreftri 11. aldar kirkjugarðsins að Stóru-Seylu, Langholti. Frumniðurstöður rannsóknarinnar benda til að garðurinn hafi verið fremur stutt í notkun þar sem í honum fundust einungis 23 grafir. Þar af voru áætlaðar grafir 13 fullorðinna einstaklinga, tvær grafir stálpaðra barna, gröf unglings auk 7 ungbarnagrafa. Ekki er hægt að fullyrða um aldur og kyn allra sem í gröfunum lágu þar sem að 13 þeirra höfðu verið tæmdar að fullu eða að mestu. Þó var hægt að áætla aldurinn gróflega út frá þeim beinaleifum sem enn voru til staðar í graffyllingum sem og stærð grafanna.
27.07.2013

Kirkjugarðsrannsókn á Stóru-Seylu

Nú fer fram, annað sumarið í röð, fornleifauppgröftur á 11. aldar kirkjugarði á Stóru-Seylu á Langholti, Skagafirði. Rannsóknin mun taka þrjár vikur og að henni koma 10 manns, sérfræðingar og nemar bæði innlendir og erlendir. Verkefnið er á vegum Fornleifadeildar Byggðasafnsins í samstarfi við bandarískan rannsóknarhóp sem hefur undanfarin 10 ár stundað fornleifa- og jarðsjárrannsóknir í héraðinu.
Röggvarfeldur í vinnslu
12.07.2013

Röggvarfeldur

Í fyrra var smíðaður vefstóll, oftast kallaður vefstaður, fyrir byggðasafnið. Fyrirmyndin að vefstólnum er í safninu á Austurey í Noregi, þaðan sem smiður var sendur til að aðstoða okkur við smíðina. Stólnum var komið fyrir í Auðnarstofu á Hólum. Í framhaldinu var haldið námskeið í vefnaði og þótti tilvalið að vefa fyrst röggvarfeld.
10.07.2013

Eldgamlir torfveggir

Þegar rífa átti vestur­gafl syðri skemmunnar í Glaumbæ kom í ljós að gaflhlaðið var tvíhlaðið. Innan við klömburhleðslu frá miðri 20. öld var strenghlaðinn gafl þess húss sem stóð á undan skemmunni en það var hesthús séra Hallgríms Thorlaciusar, sem bjó í Glaumbæ frá 1894 til 1935. Á miðjum gaflinum eru tóftardyrnar, samfallnar. Þessar tóftardyr og elsti hluti gaflsins sjást vel innan úr skemmunni. Ljúka átti viðgerðum sem hófust á skemmunni í maí með því að hlaða upp vesturgafl hússins og gilda upp í norðurvegginn.