Monika S. Helgadóttir (1901-1988) settist að á Merkigili í Austurdal í Skagafirði ásamt manni sínum Jóhannesi Bjarnasyni árið 1932. Jóhannes lést árið 1944 og eftir andlát hans stóð hún ein eftir með átta börn, sjö dætur og einn son. Þrjár elstu dæturnar voru fermdar en yngsta barnið, sem var nokkurra vikna gamalt, var skírt við kistu föður síns. Getur hver sett sig í hennar spor með barnahópinn en enginn í þær aðstæður sem hún bjó við innan húss sem utan. Árið 1949 réðst hún í það stórvirki að byggja nýtt hús úr steinsteypu, sem enn stendur. Var það sannkallað kraftaverk þar sem öll aðföng í húsið voru flutt á hestum, hvort sem það var möl, sement, bárujárn eða hvað annað sem til þess þurfti. Monika varð þjóðkunn þegar hún var sæmd Fálkaorðunni þann 17. júní 1953 fyrir búskaparafrek við erfiðar aðstæður og enn fremur ári seinna þegar út kom bók Guðmundar G. Hagalín, Konan í dalnum og dæturnar sjö, þar sem hann fjallaði um lífshlaup Moniku.
Monika S. Helgadóttir. Myndina málaði þýskur listamaður af japönskum ættum. Sá var gestur á Merkigili um það leyti sem Monika var að sauma myndina sem hér um ræðir. Oft var gestkvæmt á Merkigili og mörg sumur dvöldu þar kunnugir og ókunnugir ferðalangar um lengri eða skemmri tíma.
Myndina til hægri (BSk.1995:90) saumaði Monika á sjötta áratug síðustu aldar. Hún er saumuð með mislöngu spori og blómstursaumi með ullarþræði í dökkbrúnan ullardúk (java). Stærð myndar í ramma er 151x63. Myndefnið er Ólafur liljurós þar sem hann þiggur góðgjörðir af álfkonunni. Ólafur er í blárri treyju og með bláan hatt sem í er tilkomumikil fjöður. Hann er í grænbláum buxum og girtur háum mórauðum reiðsokkum upp að hnjám. Reiðskórnir eru fínir enda gullístað á reiðverinu. Yfir sér hefur hann rauða herðaslá. Hann ríður vel tygjuðum gráum, glæsilegum gæðingi. Svokallað undirdekk er lagt undir hnakk og oddabrugðin brjóstreim og taumur eru í stíl. Álfkonan, sem er klædd síðum bláum kjól með gullband um sig miðja, réttir Ólafi gullhorn að bergja af. Gras vefst um fætur og blóm skarta sínu fegursta. Tveir ókunnuglegir gráir fuglar trítla um. Á bakvið Ólaf sér inn í laufskóginn og þar sitja kunnuglegri fuglar. Þeir líkjast rjúpum. Grasið, blómin og fuglana sauð Monika saman úr ýmsum munstrum og fríhendis og fyllti í eftir smekk. Fyrirmyndir frjálslega útfærðra laufblaða í skóginum gætu verið runnar jafnt af blöðum pottablóma eins og af túninu.
Monika saumaði út sér til ánægju ef hún átti stund á kvöldin eftir annir dagsins. Efnið og munstrið í myndina keypti hún hjá ónafngreindri konu í Reykjavík. Sú góða kona kom og aðstoðaði hana (notaði það sem sumarfrí) við að sauma upphleypt drykkjarhornið og handlegg álfkonunnar. Sagt er að Monika hafi verið sjö ár að fullgera myndina.
Þegar Bændahöllin við Hagatorg reis langaði Moniku að gefa myndina þangað en úr því varð ekki. Myndin hékk lengst af í suðvesturstofunni á Merkigili eða til vors 1995 þegar hún var afhent Byggðarsafni Skagfirðinga. Myndin er til sýnis á lofti Áshússins, sem stendur við Glaumbæ. Þar hefur verið sett upp herbergi með húsgögnum og munum frá Merkigili og víðar að, til að minnast Moniku á Merkigili og annarra kvenna sem stunduðu bústörf á miklum breytingatímum, utandyra sem innan, um miðja 20. öld.