Fara í efni

Fréttir

27.07.2013

Kirkjugarðsrannsókn á Stóru-Seylu

Nú fer fram, annað sumarið í röð, fornleifauppgröftur á 11. aldar kirkjugarði á Stóru-Seylu á Langholti, Skagafirði. Rannsóknin mun taka þrjár vikur og að henni koma 10 manns, sérfræðingar og nemar bæði innlendir og erlendir. Verkefnið er á vegum Fornleifadeildar Byggðasafnsins í samstarfi við bandarískan rannsóknarhóp sem hefur undanfarin 10 ár stundað fornleifa- og jarðsjárrannsóknir í héraðinu.
Röggvarfeldur í vinnslu
12.07.2013

Röggvarfeldur

Í fyrra var smíðaður vefstóll, oftast kallaður vefstaður, fyrir byggðasafnið. Fyrirmyndin að vefstólnum er í safninu á Austurey í Noregi, þaðan sem smiður var sendur til að aðstoða okkur við smíðina. Stólnum var komið fyrir í Auðnarstofu á Hólum. Í framhaldinu var haldið námskeið í vefnaði og þótti tilvalið að vefa fyrst röggvarfeld.
10.07.2013

Eldgamlir torfveggir

Þegar rífa átti vestur­gafl syðri skemmunnar í Glaumbæ kom í ljós að gaflhlaðið var tvíhlaðið. Innan við klömburhleðslu frá miðri 20. öld var strenghlaðinn gafl þess húss sem stóð á undan skemmunni en það var hesthús séra Hallgríms Thorlaciusar, sem bjó í Glaumbæ frá 1894 til 1935. Á miðjum gaflinum eru tóftardyrnar, samfallnar. Þessar tóftardyr og elsti hluti gaflsins sjást vel innan úr skemmunni. Ljúka átti viðgerðum sem hófust á skemmunni í maí með því að hlaða upp vesturgafl hússins og gilda upp í norðurvegginn.