Hestasteinn í Glaumbæ. Á miðju bæjarhlaðinu í Glaumbæ er merkilegur úthöggvinn steinn. Þar voru heimahestar og hestar ferðamanna bundnir við ef viðdvöl var stutt. Gat er höggvið í gegn um steininn sem beislistaumar voru dregnir í. Hnapphelda var stundum dregin í gegnum gatið og hnýtt að og bundið á hana. Tvö þrep eru höggvin í steininn sem hægt er að stíga í og upp á hann. Þegar konur riðu í söðli var nauðsynlegt fyrir þær að hafa háa „bakþúfu" eða fá einhvern til að lyfta sér í söðulinn. Hestasteinninn leysti úr því. Konur gátu sveiflað sér í söðulinn hjálparlaust af steininum ef hestur þeirra stóð við hann. Enginn veit hve lengi steinninn hefur staðið þar á hlaðinu eða hver hjó hann í öndverðu en meiri en minni líkur eru á að hann hafi verið í notkun í nokkur árhundruð.
|
|
Gat er höggvið í steininn til að binda beislistauma í, eða hnappheldu. |
|
Þrepin tvö sem höggvin eru í steinninn auðvelduðu fólki að nota hann fyrir bakþúfu. |
|
Heimildir: Jón Sigurðsson, Reynistað (1960). Glaumbær og Byggðasafn Skagfirðinga. Útg. Byggðasafn Skagfirðinga. Reykjavík.
Gunnlaugur Jónasson (1917-2009) bóndi í Hátúni.