Fara í efni

Roðskór

Mikið höfum við nútímafólkið það gott. Við getum bundið fjallgönguskó á fætur okkar og sprangað um öll fjöll nær áhyggjulaus í fjárragi haustins.  

Í gamla daga gengu flestir Skagafirðingar í kúskinns- eða sauðskinnskóm til daglegra nota. Á stöku stað við sjávarsíðuna notaði fólk roð í skó. Best þótti roð af stórum steinbít (úlfasteinbít) til skógerðar. Af honum fékkst skæði í tvenna skó. Fremri hlutinn í skó fyrir fótstóra, sá aftari „dillan" fyrir fótsmáa. Roðið var þvegið og skafið og síðan spýtt á fjöl eða vegg. Það þornaði á einum til tveim dögum og var þá hægt að geyma það lengi á þurrum stað. Roðið var svo sniðið. Ef efnið náði upp á hælinn þurfti ekki að hælsauma skóna. Annars var hællinn saumaður á sama hátt og á öðrum skinnskóm.

Það þótti gott ef roðskór entust allan daginn og þeir vörðu fæturna ekki fyrir vætu, fremur en aðrir skinnskór, en þeir voru léttir og gott að ganga á þeim. Í þurrkum og frosti urðu þeir hálir. Endingin var nokkuð misjöfn, fór það eftir gangfæri og göngulagi, og roðið var mismunandi endingargott. Roð af hertum steinbít þótti endingarbetra en annað roð.

Þegar farið var að sauma var roðið bleytt upp og byrjað á að sauma tásauminn, síðan var skórinn varpaður með leðurþveng eða ullartogi. Roðskór voru þvengjaðir með þveng úr roði eða seymi. Skórinn var svo látinn þorna á fæti þess, sem átti að nota hann. Þegar skór voru ónýtir var þvengurinn tekinn af og notaður aftur, í nýja skó. Þvengjaendar voru hafðir svo langir að hægt væri að binda þá upp á mjóalegginn. Roðskór eru hálir í þurru grasi og á svelli en stamari í blautu grasi. Sumsstaðar þekktist það, að nota grásleppuhvelju (hrognkelsisroð) í skó sjómanna, en körturnar gera það að verkum að skórnir verða ekki hálir. Menn gengu í tvennum og jafnvel þrennum skóm og höfðu íleppa í þeim innstu.

Skólaus maður er vegalaus maður og roðskór voru betri en engir. „Á Vestfjörðum er hver fjallgarður, sem fær er gangandi manni, nefndur heiði, og breidd heiðanna milli fjarða áður fyrr mæld í roðskóm"[1] Þ.e. hve mörg pör þyfti í ferðalagið. Talað var um tveggja, þriggja, fjögurra, fimm og sex roðskóaleiðir. Var þá átt við þá leið sem var farin fram og til baka. Þorska­­fjarðar­heiði var sögð þriggja skóa heiði og Látraheiði var sex roðskóaleiði.

Þessir skór eru úr hlýraroði. Þeir eru þvengjalausir en bryddaðir með hvítu eltiskinni (af lambi). Bryddingin er köstuð og brotin yfir og saum­uð niður að innan. Þeir eru saumaðir á tá og hæl með fínu eingirni úr ull. Þeir eru sniðnir til úr hálfþurru roði. Ílepparnir eru varpaðir. Í báðum pörunum eru lepparnir prjónaðir úr ullarbandi og með garðaprjóni. Skór úr steinbítsroði, saumaðir á hæl og tá með gráu ullarbandi og verptir með seymi. Seymi er einnig í öklaþvengjunum. Ílepparnir eru með áttablaða rós og slyngdir á brúnum. Litlum stúlkum var sagt að vanda sig við fyrstu skóparið, hvort sem saumað var úr roði eða skinni, því hjónabandið myndi draga dám af þeim sauma­­skap.

 

HEIMILDIR: Stuðst hefur verið við heimildir úr bókum og tímaritum, svo sem: Hundrað ár í Þjóðminja­safniGersemar og þarfaþing, Hlutavelta tímans, Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Sandur  eftir Guðmund Daníelsson.