Jakob var sjálflærður steinhöggvari og reyndi sig einnig við útskurð. Á fullorðinsárum var hann í lausamennsku og fór um byggðir og setti upp vatnsmyllur fyrir menn. Hann gaf sig einnig í að höggva upp hvannir fyrir fólk. Hann átti geitur og hafði með sér. Hann þótti sérstakur í háttum, hafði m.a. alltaf þrjá hatta á höfði, hvern upp af öðrum. Ólafur á Hellulandi mundi „eftir honum í steikjandi hita, þá tók hann ofan efsta hattinn og skömmu síðar þann næsta. Þá stóðu hárin á honum út um götin á þriðja hattinum".[4] Kobbi kom víða við sem kaupamaður. Einhvern tíma var hann hjá séra Benedikt á Hólum. „Einu sinni var búið að skammta presti og þá komst Kobbi i matinn hjá presti og at hann allan. Þegar prestur komst að því, ávarpar hann Kobba og segir: „Jakob minn, þér hafið borðað matinn minn." Karl lét sér hvergi bregða og svarar: „Eg held að matnum sé sama hver étur hann." Myllu-Kobbi var góður járnsmiður. Smiðja stóð gegnt kirkjudyrum á Hólum. Eitt sinn ætlaði prófastur að messa og hugði á ferðalag að lokinni messu. Það vantaði skeifur undir reiðhestinn og hann bað Kobba að smíða 24 hóffjaðrir fyrir sig. Þegar prófastur gekk út úr kirkjudyrum. búinn að messa, þá stendur þar Myllu-Kobbi og laumar í lófa hans nöglunum. Þeir voru glóðheitir úr smiðjunni og hrutu úr hendi prests út um alla stétt. Þetta gerði Kobbi af skömmum sínum til þess að minna prófastinn á að hann hefði látið sig vinna um messutímann. Í annað sinn var verið að heyja á engjum og áin í foráttuvexti. Þá kemur fólkið sér saman um að gefa Kobba sinn bitann hvert, ef hann vildi vinna það til að komast yfir ána. Kobbi tekur því vel fyllir alla vasa sína af grjóti og stingur sér í ána þar sem hún er dýpst. Það sést ekki af honum tangur né tetur fyrr en hann kom upp við hinn bakkann. Svo fór hann sömu leið til baka og fólkið varð að sjá á eftir matnum ofan í hann".[5]
Margar skemmtisögur eru til um Myllu-Kobba og fjöldi myllusteina eru eignaðir honum en óvíst er hve marga hann hjó sjálfur en marga setti hann niður fyrir menn.
[1] Samanber grein Þormóðs Sveinssonar í Lesbók Morgunblaðsins, 5. tbl., 8.2.1948. Bls. 75-76.
[3] Í greininni segir Þormóður að heimildir um bernsku og ungdómsár Kobba hafa hann að mestu úr prestsþjónustubók Goðdalaprestakalls. Lesbók Morgunblaðsins, 5. tbl., 8.2.1948. Bls. 75-76.
[4] Viðtal við Ólaf Sigurðsson, óðalsbónda á Hellulandi í Skagafirði í Tímanum, 246. tbl., 44. árgangur,
þriðjudagur 1. nóvember 1960. Bls. 9.