- Við vorum þrettán sem unnum við safnið á árinu. Nítján einstaklingar til viðbótar tóku þátt í verkefnum á vegum þess eða tengdum því og sex sjálfboðaliðar.
- Við skráðum 199 nýja safngripi í aðfangabækur og 4994 í Sarp.
- Við skoðuðum ellefu staði í Deildardal, Unadal og í Hofshreppi hinum forna með starfsmönnum Byggðasögu Skagafjarðar og höfum nú rannsakað á sjötta tug staða með þeim í tengslum við útgáfu ritsins.
- Við lukum uppgreftri á 11. aldar kirkjugarði á Stóru-Seylu með bandarískum samstarfsmönnum - SASS sem hafa unnið að jarðsjár- og fornleifarannsóknum í Skagafirði undanfarinn áratug.
- Við fengum SASS til að jarðsjármæla nokkrar jarðir með okkur í leit að fornum jarðlægum kirkjugörðum og varð vel ágengt.
- Við könnuðum 11. aldar kirkjugarð sem kom í ljós við lagnaframkvæmdir í Keflavík í Hegranesi.
- Við stóðum að merkilegri deiglurannsókn með fjölda innlendra og erlendra aðila.
- Við skráðum strandminjar.
- Við söfnuðum upplýsingum um álagabletti.
- Við gáfum út tólf rannsóknaskýrslur, skrifuðum greinar, sömdum smárit og héldum fyrirlestra.
- Við héldum áfram viðgerðum og kennslu á Tyrfingsstöðum með Fornverkaskólanum.
- Við leystum staðarhaldara á Víðimýri af við gæslu á kirkjunni í sumar.
- Við höfðum eftirlit með safngripum á sex sýningarstöðum, sem samtals 45 334 gestir skoðuðu.
- Við tókum þátt í Sögulegri safnahelgi sunnudaginn 13. október og opnuðum sýningarnar í Minjahúsinu, gamla bænum í Glaumbæ og í Áshúsinu.
- Við vorum með gamla bæinn í Glaumbæ og Áshúsið opið um leið og Áskaffi allar helgar til jóla.
- Við fórum sjö sinnum í rökkurgöngur í gamla bæinn í Glaumbæ, á jólaföstunni.
- Við gerðum ýmislegt fleira, bæði innan héraðs og utan, sem við munum tíunda í ársskýrslunni.
08.01.2014