Ljóst er að töluverður fjöldi minja hefur nú þegar horfið í hafið og ef þróunin verður svipuð á næstu árum og áratugum mun verulegur fjöldi verða sjónum að bráð. Niðurstöður rannsókna árin 2012 og 2013 sýna að um 40% fornleifa á svæðinu eru í mikilli hættu sökum landbrots. Meðal þeirra staða sem skráðir voru 2013 voru Bæjarklettar en þaðan hefur verið útræði fyrr á tímum og nokkur útgerð fram á 20. öld. Þá var búið þar á nokkrum litlum býlum eða kotum. Nú hefur sjórinn umbylt lendingunni svo hún er ekki nýtileg í dag. Bæjarklettaminjar voru skráðar. Einnig var skráð á Þönglaskála (Nú Vogum) en þar þótti lending vera afbragðsgóð og þar voru naust og sjóbúðir sem nú eru horfnar í sjó eða í hættu vegna landbrots. Þar var og býli fram á sjávarbakkanum en minjar þess eru óðum að hverfa.
27.02.2014
Rannsóknin undirstrikar hve mikilvægt það er að fá sem heildstæðasta mynd af þeim fornleifum sem kunna að vera í hættu. Þannig má forgangsraða frekari rannsóknum og mögulega mótvægisaðgerðum til verndar minjunum. Vonast er til að hægt verði að ljúka skráningunni sumarið 2015 en þá er ætlunin að skrá minjar í Fljótum. Rannsóknin var styrkt af Fornleifasjóði.