1. Bæjardyr og göng
Göngin frá bæjardyrum til baðstofu eru 22 metra löng. Gengið er inn í bæjarhúsin til beggja handa. Fremst í göngum er hurð til varnar því að kulda leggi inn til húsanna og innst í göngunum, framan við baðstofuna, er önnur hurð, til að verjast súgi. Hurð og dyraumbúnaður eru trénegld og smíðuð eftir ævafornri hefð úr rekaviði. Í gangnaveggi er stungið ljósfærum til að sýna hvernig þeim var komið fyrir, en yfirleitt var fátt um ljós í göngunum og þar voru engir gluggar fyrir 1939.
2. Bláastofa
Stofa þessi var byggð árið 1841. Í ágúst það ár gisti Jónas Hallgrímsson skáld í bænum og svaf í lokrekkjunni í stofunni. Sagt er að Jónas hafi frétt andlát vinar síns Bjarna amtmanns Thorarensen í Glaumbæ og hafi lagst í hlaðvarpann og ort erfiljóð, sem hefst svo: ,,Skjótt hefur sól brugðið sumri“. Yfir stofunni er geymsluloft. Þar er gamall vefstóll, spólurokkur og fleira til sýnis. Stofan var notuð sem séríbúð frá 1919-1945.
3. Eldhúsið
Þetta hús telst að grunni og gerð hið elsta í bænum, byggt um 1760. Hlóðabálkurinn hefur verið óbreyttur frá þeim tíma, en grind og veggir endurnýjuð. Eftir 1930 var eldhúsið mest notað til sláturs- og þvottasuðu, og sem reykhús. Kjöt var hengt upp í rjáfrið, þar sem það þornaði og reyktist. Aðaleldsneytið var mór og sauðatað, sem stungið var út úr fjárhúsunum á vorin í hnausum, sem voru klofnir sundur og þurrkaðir. Taði og mó hefur verið hlaðið upp við austurvegg eldhússins og í taðtrogi við hlóðirnar eru lurkar úr mörg þúsund ára mólaginu.
4. Norðurbúr
Í Norðurbúrinu skammtaði húsfreyja matinn og á sumum bæjum var talað um skömmtunarbúr. Suða úr eldhúsi var borin í búrið, súrmatur, skyr, harðfiskur og þess háttar úr Langabúri og mjólk og smjör úr Litlabúri. Hver maður á heimilinu átti sinn eigin ask eða spilkomu (leirskál) til að eta úr. Húsfreyja setti skammtinn í askinn og bar inn í baðstofu og lagði á askhilluna eða næsta koffort, væri askeigandi ekki við.
5. Gusa
Þetta herbergi var ýmist notað sem svefnstaður, íbúð eða kennslustofa. Hér bjó einu sinni skapstygg kerling sem átti bágt með að þola hávaða og gauragang sem fylgdi skólapiltum sem stunduðu nám hjá prestinum. Eitt sinn er þeir ærsluðust fram göngin stóð hún í dyrum hússins einnig á leið fram, til að losa innihald koppsins í keytukaggann sem þá var í eldhúsinu. Hún fór ekki lengra í það skiptið og gusaði úr næturgagninu yfir þá. Sennilega hefur sljákkað í strákunum en nafnið Gusa festist við húsið. Í Gusu eru ýmsir smáhlutir undir gleri, ásamt hempu- og hökulklæddum „prestum“, með kraga eins og prestar hafa notað við guðsþjónustur allt frá á 17. öld, en kraginn og hempan eiga ættir að rekja til yfirhafnar hefðarfólks á þeim tíma. Fyrirmynd „rómanska“ hökulsins er mun eldri.
6. - 8. Baðstofa
Baðstofan er byggð á árunum 1876-1879. Hún er hólfuð í þrennt: Norðurhús, Miðbaðstofu og Prestshús eða Suðurhús, sem var hvort tveggja í senn, skrifstofa prestsins og íbúð. Baðstofan var vinnustofa, matstofa og svefnhús. Þar var kembt og spunnið, prjónað og þæft, ofið og saumað, skorið og skrafað, borðað og sofið. Hver sat á sínu rúmi við vinnuna. Að loknu dagsverki lögðust piltar til svefns uppgöngumegin en stúlkurnar gluggamegin. Á löngum vetrarkvöldum, er fólk sat við sína iðju var notað ljós af litlum lýsiskolum; einhver las sögu eða kvað rímur. Sagna- og kvæðamenn sem gengu á milli bæja og kváðu fyrir fólkið á vökunni eða sögðu sögur voru auðfúsugestir og fengu mat og húsaskjól, en heimafólk fékk að heyra hvað á daga þeirra hafði drifið og hvað væri að gerast á bæjunum í kring og næstu byggðalögum. Slíkur fréttaflutningur var í hávegum hafður og valdur að vangaveltum um lífið og tilveruna.
Baðstofulífið laut sínum lögmálum. Í fjölmennum hópi má komast hjá sundurlyndi og árekstrum með einföldum reglum og gagnkvæmri tillitssemi. Fæstir áttu eigin hirslur, eins og kistur eða kistla, en það sem maður geymdi undir koddanum var jafn vel varið og væri það í læstum kistli. Sumir söfnuðu svo miklu undir koddann að þeir sátu hálfvegis uppi, sátu upp við dogg sem kallað var, og var þá sagt að þeir ættu mikið undir sér.
9. Suðurdyr (Brandahús) Inni var yfirleitt vel hlýtt þótt engin upphitun væri í baðstofunni, önnur en ylurinn frá fólkinu. Allir voru klæddir í ull yst sem innst og torfveggirnir veittu einstaklega góða einangrun. Oft sváfu líka tveir og tveir í rúmi. Það var hlýrra. Fram eftir allri 19. öld lögðust flestir berir til svefns undir þykkum rekkjuvoðum, en um aldamótin 1900 var orðið til siðs að fólk gekk til náða í nær- eða náttfötum, og breiddi yfir sig ullarteppi eða hlýja fiðursæng. Rúmfjöl var í hverju rúmi, oft fagurlega útskorin, með fyrirbæn, trúarlegu versi eða upphafsstöfum eiganda. Á daginn var fjölin sett upp við vegg, en á nóttunni var hún höfð fyrir framan, svo að rúmfötin dyttu ekki ofan á gólf. Á matmáls- og vinnutímum mátti leggja fjölina á kné sér og nota sem borð. Algengara var þó að menn spændu í sig matinn með hornspón, með askinn á hnjánum. Askarnir hurfu úr notkun á seinni hluta 19. aldar og leirtau og hnífapör tóku við. Þeirri breytingu fylgdu borð til að sitja við og í framhaldinu breytt herbergjaskipan. Í tíð séra Jóns Hallssonar, sem byggði baðstofuna upp og lengdi hana 1879, átti norðurhúsið að vera aðsetur heimasætanna. Til að komast upp í háa rúmið var stigið upp á kistu milli lokrekkjanna og þaðan upp á þrep á rekkjuþilinu. Í baðstofunni eru til sýnis ýmsir munir sem notaðir voru við vinnuna: rokkar, snældur, hesputré, ullarlárar, reislur, brák, kambar, sokka- og vettlingatré, saumavél og leikföng, bókbandsáhöld, dragkistur og kistlar og fleira.
Um Suðurdyr var gengið til gegninga, farið út með ösku og sótt vatn. Þetta voru bakdyrnar og neyðarútgangur ef kviknaði í frambænum. Þarna hefur verið komið fyrir kornkvörnum. Skíði og skautar (ísleggir) hanga á vegg. Einnig eru þar klafar úr stórgripaleggjum, til að binda kýr á bása og herðablað sem notað var til að moka flórinn liggur á fiskasteini, en á honum var barinn harðfiskur og sleggjan sem notuð til að berja fiskinn liggur þar á steininum.
10. Langabúr
Þetta er megin forðageymsla bæjarins. Hér var geymt slátur, skyr og saltkjöt. Búrgólfið er nokkuð niðurgrafið og því er hitastig hússins lágt og jafnt allt árið. Búrið er kjörin geymsla fyrir súrmat, kartöflur o.fl. Á hillum í búrinu eru ýmis ílát, s.s. kollur, kvartel, kútar, legill, ljósberi, o.fl.
11. Litlabúr
Þetta er mjólkurhús heimilisins. Áður en skilvindur komu til sögunnar um og eftir 1900, varð að ,,setja“ alla mjólk. Nýmjólk var borin úr fjósi, kvíum eða af stöðli í mjólkurfötum inn í Litlabúr. Þar var henni hellt í trog eða byttur. Mjólkin var látin standa í sólarhring og „setjast til“. Þegar komin var þykk rjómaskán ofan á hana var henni „rennt“ sem kallað var, þ.e. undanrennan var látin renna undan rjómanum. Rjóminn var settur í strokkinn og strokkaður til smjörs. Undanrennan var flóuð til skyrgerðar. Mysan var notuð til drykkjar og til að súrsa slátur og annan súrmat. Trog og fötur voru þvegin vel og vandlega með hrosshársþvögu.
12. Suðurstofa, gestaherbergi
Stofa þessi var byggð árið 1878. Myndir á veggjum eru af ýmsu embættisfólki í Skagafirði frá 1880 til 1960. Stóra kistan er sögð skjalakista Reynistaðarklausturs-umboðs, frá 18. öld. Kertahjálmurinn er sennilega frá 15. öld, en orgelið frá þeirri 19. Það var elsta orgel Glaumbæjarkirkju og kom í timburkirkju þá er stóð frá 1876–1925 á bæjarhlaði. Kirkjan sem nú stendur norðan bæjar var byggð 1926 og er aðeins vestar en kirkjur sem þar stóðu fyrr á öldum, en kirkju í Glaumbæ er fyrst getið um miðja 11. öld. Yfir Suðurstofu er loft sem gengið er upp á úr göngunum. Þar eru kornkistur, spunavél o.fl.
13. - 14. Skemmur
Í Norðurskemmu eru meisar, kláfar, hrip, krókar og klyfberar til flutninga. Ýmis jarðvinnslutæki, stungupálar, heyvinnutæki, matfangakista og fleira.
Í Suðurskemmu er taðkvörn eins og farið var að nota undir lok 19. aldar, við að mala tað á tún og er uppfinning frá því um 1870. Þar eru einnig vögur, tvö tré sem hengd voru á klakka og dregin á hestum, til að flytja hey eða nýslegið gras (votaband) á þurrkvöll.
15. Smiðja
Á miðju gólfi er grjóthlaðinn afl þar sem eldur logaði til járnbræðslu. Gott var að geta dengt ljái og gert við amboð, smíðað hestajárn (skeifur) og fleira til heimilisþarfa. Fýsibelgurinn, sem dreginn var til súrefnisgjafar í eldinn, er aftan við aflinn. Margir Glaumbæjarprestar voru ágætir járnsmiðir.