Fara í efni

Fornverkaskólinn

Handverk sem tengist hverfandi hefðum er hluti af dýrmætum menningararfi, sem mikilvægt er að standa vörð um. Dæmi um það er vinnsla og meðferð torfs, grjóts og timburs. Sú handverksþekking er forsenda þess að hægt sé að varðveita og viðhalda stórum hluta menningarminja þjóðarinnar. Allir þeir sem kynni hafa af varðveislu, t.d. á byggingararfi okkar, hafa jafnframt orðið þess áskynja að hann glatast á skömmum tíma án fólks með reynslu og þekkingu á þeim handverksaðferðum sem byggingararfurinn er sprottinn af.

Fornverkaskólinn hefur frá 2007 boðið upp á námskeið í gömlu byggingahandverki og hefur áherslan verið á torfhleðslu, grindarsmíði/timburviðgerðir og grjóthleðslu. Þó hafa einnig verið haldin námskeið í gluggasmíði í samstarfi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, vinnslu rekaviðar og vefnaði á kljásteinavefstað með Byggðasafni Skagfirðinga. 

Fornverkaskólinn er samstarfsverkefni Byggðasafns Skagfirðinga, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Háskólans á Hólum. Verkefnisstjóri Fornverkaskólans er Inga Katrín D. Magnúsdóttir, starfsmaður Byggðasafns Skagfirðinga. Vettvangur kennslunnar hefur verið Tyrfingsstaðabærinn á Kjálka í Skagafirði. Samningur var gerður við ábúendur Tyrfingsstaða, Kristínu Jóhannsdóttur og Sigurð Marz Björnsson, um að samþætta kennslu í gömlu handverki og uppbyggingu og endurreisn torfhúsanna sem stóðu á bænum. Með verkefninu skapaðist vettvangur þar sem varðveisla menningararfsins, kennsla handverks og viðhald menningarminja hefur farið hönd í hönd. 

Fornverkaskólinn hlaut sérstaka viðurkenningu i Minjastofnunar Íslands 2023 fyrir framlag þeirra til varðveislu á fornu byggingarhandverki. Meðal þess sem kemur fram í umsögn Minjastofnunar: "Með námskeiðum sínum hefur skólinn miðlað þekkingu til áhugafólks og fagfólks innan minjavörslu á gömlu handverki og um leið stuðlað að varðveislu handverkshefða sem hafa verið á undanhaldi. Þekking á gömlum byggingaraðferðum er forsenda þess að hægt sé að halda við torfhúsaarfi þjóðarinnar." Og eins og Guðlaugur Þór umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sagði "[...]ekki bara þjóðarinnar heldur bara heimsins."
 

Smárit um torf og gamla byggingarhætti má finna í gagnabanka á heimasíðu Byggðasafns Skagfirðinga.

Námskeiðin

Torfhleðsla

Námskeiðslýsing
Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa áhuga á að læra að byggja úr torfi og megináhersla verður á verklega kennslu. Kennd verða meginatriði í efnisvali, torfstungu og torfskurði og helstu hleðsluaðferðir með streng og klömbruhnausum. Nemendum verða útveguð helstu verkfæri á staðnum, s.s. stunguskóflu og torfljá.

Helstu markmið námskeiðsins eru að nemendur:
- Þjálfist í torfhleðslu og skurði, tileinki sér góðar vinnureglur við viðgerðir og umgengni fornra og friðaðra mannvirkja
- Þekki helstu hugtök, verkfæri og hleðslugerðir er tíðkast í torfhleðslu
- Geti hlaðið og gengið frá torfvegg með klömbruhnaus og/eða streng

Kennari: Helgi Sigurðsson hjá Fornverki ehf.

Verð: 65.000 kr. Innifalið; efni, áhöld, kaffiveitingar og léttur hádegisverður. Fornverkaskólinn minnir á fræðslusjóði stéttarfélaganna og niðurgreiðslu þeirra vegna þátttöku á námskeiðum. Kynntu þér réttinn hjá þínu stéttarfélagi. *Athugið að nemendur þurfa sjálfir að sjá um gistingu og mat utan námskeiðs.

Hvað þarf að hafa með: Hlýjan fatnað, hlífðarföt (pollagalla), vinnuhanska og stígvél/góða skó. Torftakan fer m.a. fram í votlendi og því viðbúið að þátttakendur verði moldugir og blautir.

Fjöldi þátttakenda: Lágmark 6

*Þeim er sækja námskeið Fornverkaskólans er bent á að huga að eigin tryggingum, en Fornverkaskólinn er ekki ábyrgur gagnvart slysum.

NÁMSKEIÐ VERÐUR HALDIÐ 28. - 30. ÁGÚST 2024 AÐ TYRFINGSSTÖÐUM 

NÁMSKEIÐ VERÐUR HALDIÐ 31. ÁGÚST - 2. SEPTEMBER 2024 AÐ MINNI-ÖKRUM Í BLÖNDUHLÍÐ, SKAGAFIRÐI 

Smellið hér fyrir skráningu á námskeið!

Grjóthleðslunámskeið

Grjót er byggingarefnis sem, eins og torfið, tilheyrir fremur fortíð en nútíð. Grundvallaratriði við grjóthleðslu er að velja efni samkvæmt fyrirhuguðu hlutverki. Grjót er notað bæði tilhöggvið og náttúrulegt og því mikilvægt að kunna skil á góðu hleðslugrjóti og get hlaðið upp og gengið frá grjótvegg.

Ekkert grjóthleðslunámskeið er á dagskrá. Nánari upplýsingar fást hjá Ingu Katrínu: ingakatrin@skagafjordur.is

Námskeiðslýsing
Á námskeiðinu verða hlaðnir frístandandi og fljótandi veggir úr náttúrlegu grjóti. Tvöfaldir veggir. Kennd verða öll grundvallar­atriði grjóthleðslu. Nemendur kunni að hlaða horn og boga í lok námskeiðs og kunni að „toppa“ grjótvegg.

Helstu markmið námskeiðsins eru að nemendur:

  • þjálfist í hefðbundnum vinnubrögðum við íslenskt byggingarhandverk; í þessu til­felli grjóthleðslu úr náttúrlegu grjóti
  • þekki helstu hugtök, verkfæri og hleðslugerðir er tíðkast í grjóthleðslu
  • kunni skil á góðu hleðslugrjóti og geti hlaðið og gengið frá grjótvegg úr náttúrlegu grjóti
    geti hlaðið horn og boga

Efnisatriði / kjarnahugtök m.a:
Grjótnám (hleðslugrjót), einstakar bergtegundir, grjót klofið, höggvið, flutningur, árstími, grjóthleðsla, undirstöðusteinar, smásteinar, hellubrot (klípa), stæði steins (sæti), möl á milli laga, moldarfylling, þjöppun, veggjagrjót jafnað, þykkt grjótveggja, hæð, ending.

Viðfangsefni: Sýnd nokkur afbrigði í grjóthleðslu og kennt að hlaða tvöfaldan grjótvegg úr náttúrulegu grjóti.

Undanfari / forkunnátta: Enginn, en til gagns að hafa tekið námskeiðið í torfhleðslu

Kennari: Helgi Sigurðsson, Fornverki ehf.

Mögulegir þáttakendur: Allir áhugasamir.

Fjöldi þáttakenda: 8

Tímafjöldi á námskeiðum: 32 klst. Að jafnaði er kennt frá kl 8-16.

*Þeim er sækja námskeið Fornverkaskólans er bent á að huga að eigin tryggingum þar sem Fornverkaskólinn er ekki ábyrgur gagnvart slysum.

Kljásteinavefstaðsvefnaður

Námskeið er ekki á dagskrá. Nánari upplýsingar fást hjá Ingu Katrínu: ingakatrin@skagafjordur.is

Forfeður okkar notuðu s.k. kljásteinavefstað til að vefa og hér á landi var hann notaður fram á 19. öld, eða í tæp 1000 ár. Í honum var ofinn röggvarfeldur, vaðmál, einskefta, salún, íslenskt glit, krossvefnaður og fleira. Kljásteinavefstaðurinn er í raun afar einfaldur í smíð og handhægur hvar sem er og auðveldur í samsetningu, þó þungur sé. Hægt er að leysa vefinn og uppistöðuna niður úr vefstaðnum áður en voðin er kláruð og koma henni fyrir í öðrum vefstað eða nota síðar, eftir þörfum. Þetta er mögulegt vegna þess að uppistöðuþræðirnir eru saumaðið upp á
slöngurifinn með sérstökum hætti.

Námskeiðslýsing:
Á námskeiðinu verður farið í gegnum rakningu og uppsetningu á vef í kljásteinavefstað og kennd helstu handbrögðin við að vinna voð á þennan forna hátt. Í upphafi námskeiðsins verður farið yfir helstu tæki og tól sem tilheyra kljásteinavefstaðinum og síðan farið í gegnum uppsetningarferlið lið fyrir lið með sýnikennslu og þátttöku nemenda.

1. Efnisnotkun
2. Slöngugerð
3. Slöngu komið fyrir í vefstað, saumað uppá
4. Kljáð
5. Fitjað
6. Haföld bundin
7. Kljáð aftur þar sem við á
8. Ofið í vefstað
9. Vefurinn felldur
10. Afrakstur námskeiðsins

Inn á milli verða flutt stutt erindi um sögu vefstaðarins og vefnðarins.

Innifalið í námskeiðsgjaldi er allt efni. Nemendur verða sjálfir að kosta gistingu og fæði.

Námskeið sem eru í boði eru auglýst hér á síðunni en frekari upplýsingar veitir Inga Katrín í gegnum netfangið ingakatrin@skagafjordur.is, eða í síma 453 6173.