Sumardagur í Glaumbæ er söguleg skáldsaga sem veitir börnum sem fullorðnum innsýn í líf og störf barna á Íslandi á seinni hluta 19. aldar. Þrátt fyrir að einungis séu um 140 ár frá því sagan á að hafa átt sér stað hefur daglegt líf fólks tekið gríðarlegum breytingum og er fátt sambærilegt í lífi fólks þá og nú. Sumt breytist þó ekki í tímans rás – eins og fjölskyldubönd, þörf fyrir öryggi, vinskap, gæðastundir og hlátur, og ekki síst ánægjan við að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Bókin er gefin út á íslensku, ensku, frönsku og þýsku.
Í þessari sögu fylgjum við ungum dreng, vinkonu hans og heimilishundinum einn dag í lífi þeirra. Sögusviðið er Glaumbær, prestsetur í Skagafirði, sem taldist til efnameiri bæja með tilheyrandi umsvifum. Sagan er að mestu byggð á raunverulegu fólki sem bjó í Glaumbæ og Skagafirði á 19. öld. Upplýsingar um heimilisfólkið byggja á lýsingum í Skagfirzkum æviskrám og lýsingar á förufólkinu Myllu-Kobba, Rönku og Ropa-Katrínu eru ýmist fengnar úr hljóðskrám af ísmús.is eða ævisögunni Tvennir tímar, endurminningum Hólmfríðar Hjaltason eftir Elínborgu Lárusdóttur.
Í sögunni er leitast við að draga fram raunverulegar frásagnir og lýsingar út frá heimildum og gæða þær lífi. Ýmis þjóðlegur fróðleikur og atburðir, t.d. frásögnin um skapstyggu próventukerlinguna í Gusu, eru byggðir á smáritum Byggðasafns Skagfirðinga eftir Sigríði Sigurðardóttur. Bókin endar á nokkrum erindum úr Kvöldhugvekju eftir Sigurð Breiðfjörð (1798–1846), eins afkastamesta ljóða- og rímnaskálds 19. aldar.
Hér er hægt að kaupa eintak af bókinni og fá senda í pósti. Vinsamlegast tilgreinið á hvaða tungumáli óskað er eftir í athugasemdum.
Endursöluaðilum og skólum er bent á að hafa samband við safnið í síma 453 6173 eða byggdasafn@skagafjordur.is.