22.04.2014
Dagana 19.-20. mars 2013 var Evrópuverkefninu LoCloud Best Practice Network formlega hleypt af stokkunum á Þjóðskjalasafni Noregs í Ósló. Á fundinn mættu 32 samstarfsaðilar frá 28 mismunandi löndum til að kynna, skipuleggja og ræða starfsemi verkefnisins sem er til þriggja ára.
Efni frá litlum og meðalstórum stofnunum í Evrópu, svo sem söfnum og skjalasöfnum, er að miklu leyti óaðgengilegt á stafrænu formi. Tækni sem byggir á notkun hinna svokölluðu tölvuskýja gæti boðið upp á ódýra og notandavæna lausn til að gera efni þessara aðila aðgengilegt á netinu.
LoCloud verkefnið miðar að því að þróa tölvuský og þjónustumiðstöðvar (e. help center) til að hjálpa litlum og meðalstórum stofnunum við að safna saman stafrænum gögnum og gera þau aðgengileg á netinu í gegnum Europeana.eu, European Library, Museum and Archive.
Minjastofnun Íslands er samstarfsaðili í LoCloud verkefninu og óskaði eftir þátttöku Byggðasafnsins sem mun leggja til efni úr rannsóknum og taka þátt í að prófa og meta notkunarmöguleika tölvuskýsins. Það efni sem verður notað í verkefninu eru stafræn gögn úr byggðasögurannsóknum sem nefndar hafa verið Eyðibyggð og afdalir Skagafjarðar en starfsmenn Byggðasafnsins hafa unnið að þeim á undanförnum árum ásamt riturum Byggðasögu Skagafjarðar. LoCloud verkefninu lýkur í árslok 2015 og er ætlunin að þá verði aðgangur að þessum rannsóknum aðgengilegur almenningi á netinu.