Aðgangseyrir á sýningu safnsins í gamla bænum í Glaumbæ verður 1200 kr. fyrir hópa árið 2017. Frítt verður fyrir börn að 17 ára aldri og 1600 kr. fyrir einstaklinga 18 ára og eldri.
Í vetur verður Kathryn Catlin, Kat, hjá okkur á Byggðasafninu að stunda rannsóknir sínar á skagfirskum fornleifum. Hún er fyrsti doktorsneminn sem fær aðstöðu til fræðistarfa á safninu og bjóðum við hana hér með velkomna í hópinn.
Í dag minnumst við Marks Watsons, sem fæddist þennan dag 18. júlí árið 1906. Watson var mikill áhugamaður um íslenska fjárhundinn og hóf ræktun á honum á sjötta áratug 20. aldar. Afmælisdagur hans hefur verið tileinkaður íslenska fjárhundinum. Sá hinn sami Mark Watson gaf 200 sterlingspund árið 1938 til að hægt væri að viðhalda gamla torfbænum í Glaumbæ.
Nokkur undanfarin ár hafa skoskir starfsmenn ýmissa menningar- og minjastofnana og áhugasamir einstaklingar heimsótt Skagafjörð í þeim tilgangi að læra af okkur hvernig við nýtum og notum menningararf okkar. Á móti miðla þeir sínum aðferðum til okkar. Þannig felst gagnkvæmur ávinningur fyrir báða aðila í heimsókn þeirra. Í hópnum eru tíu manns og þau dvelja hjá okkur í viku.
Byggðasafn Skagfirðinga hefur verið tilnefnt til íslensku safnaverðlaunanna árið 2016, ásamt Listasafni Reykjavíkur - Ásmundarsafni og sýningunni Sjónarhorni í Safnahúsinu við Hverfisgötu, Reykjavík.
Miðvikudagurinn 18. maí er alþjóðlegi safnadagurinn og í tilefni dagsins verður enginn aðgangseyrir tekinn af gestum í gamla bænum í Glaumbæ. Opið 9-17.