Í Byggðasafni Skagfirðinga eru margir merkisgripir sem gaman er að fræðast um. Upplýsingar um stærsta hluta safnkostsins eru nú aðgengilegar almenningi í menningarlega gagnagrunninum sarpur.is. Hér má skoða úrval merkisgripa sem varðveittir eru hjá safninu.
Ef þú hefur áhuga á einhverjum sérstökum gripum í fórum safnsins geturðu sent okkur fyrirspurn á byggdasafn@skagafjordur.
Gamli kertahjálmurinn
Kertahjálmur þessi hefur prýtt margar Glaumbæjarkirkjur og er nú orðinn safngripur. Hann er talinn vera frá 15. eða 16. öld. Ljónið, efst á hjálminum, sem er tákn Markúsar guðspjallamanns, er þekkt helgitákn og táknar styrkleika, kraft og konungstign. Hjálmurinn er úr kopar og hefur nokkrum sinnum verið lagfærður, einkum dropskálarnar undir kertapípunum. Hann hangir yfir skrifborði séra Hallgríms Thorlacíusar sem bjó í gamla bænum í Glaumbæ síðastur Glaumbæjarpresta. Skrifborðið er í Suðurstofunni og gegnir nú hlutverki afgreiðsluborðs þar. Kertahjálmurinn hangir yfir skrifborði sér Hallgríms í Suðurstofunni í gamla bænum í Glaumbæ.
Hestasteinninn í Glaumbæ
Hestasteinn í Glaumbæ. Á miðju bæjarhlaðinu í Glaumbæ er merkilegur úthöggvinn steinn. Þar voru heimahestar og hestar ferðamanna bundnir við ef viðdvöl var stutt. Gat er höggvið í gegn um steininn sem beislistaumar voru dregnir í. Hnapphelda var stundum dregin í gegnum gatið og hnýtt að og bundið á hana. Tvö þrep eru höggvin í steininn sem hægt er að stíga í og upp á hann. Þegar konur riðu í söðli var nauðsynlegt fyrir þær að hafa háa „bakþúfu" eða fá einhvern til að lyfta sér í söðulinn. Hestasteinninn leysti úr því. Konur gátu sveiflað sér í söðulinn hjálparlaust af steininum ef hestur þeirra stóð við hann. Enginn veit hve lengi steinninn hefur staðið þar á hlaðinu eða hver hjó hann í öndverðu en meiri en minni líkur eru á að hann hafi verið í notkun í nokkur árhundruð.
Hrosshársmottan
Þessi fallega gólfmotta (BSk.1991:47-1172) er til sýnis og prýði á lofti Áshússins við Glaumbæ. Hún er hekluð úr hrosshári, 77 x 54 cm að stærð. Jóna Kristín Guðmundsdóttir (1899-2004), sem lengi bjó í Berghyl í Fljótum, heklaði hana og gaf vinkonum sínum í Litlu-Brekku á Höfðaströnd árið 1945. Jóna var fædd og uppalin á Minni-Brekku í Austur-Fljótum. Hún lærði fatasaum áður en hún hóf búskap sem kom sér vel, bæði fyrir hana sjálfa og nágrannana en þessi fallega unna hrosshársmotta ber þess vitni að konan kunni meira fyrir sér en fatasaum.
Kristbjörg S. Bjarnadóttir (f.1935) í Litlu-Brekku gaf mottuna til byggðasafnsins, en það voru hún og móðir hennar sem fengu mottuna að gjöf frá Jónu 1945. Þær Jóna og hún voru sveitungar, báðar úr Fljótunum.
Pétur Jónasson (1877-1957), Minni-Brekku í Fljótum, spann hrosshárið í mottuna. Hann þótti flinkur við spunann.
Jólabjöllur
Löngu áður en jólatré urðu algeng á heimilum yfir jólin voru hengdar upp jólabjöllur og -kransar. Þessar jólabjöllur (BSk.1869/1995:145) eru með elsta jólaskrauti í eigu Byggðasafns Skagfirðinga. Herfríður Valdimarsdóttir, í Brekku, keypti þær í Reykjavík árið 1947. Þær voru hengdar upp á heimili hennar hver einustu jól í 50 ár.
Bjöllurnar eru tvær. Þær eru úr gifsi, rauðlitaðar og með smá glimmeri. Þeim fylgir kóngablár silkiborði, lauf og blómsturblöð úr pappa. Þær eru ótrúlega fallegar miðað við háan aldur og mörg jól.
Herfríður og Valdís dóttir hennar gáfu bjöllurnar til Byggðasafnsins árið 1995. Þær voru hengdar upp í Áshúsinu fyrir hver jól frá 1996-2012.
Karfa Fjalla-Eyvindar
Á skáphillu inni í Gusu í gamla bænum í Glaumbæ er þessi tágakarfa (BSk. 342) sem riðin er úr víðitágum (rótum).
Hún tekur um 1,5 ltr. Hún er 10,9 cm há og er 13-13,3 cm að þvermáli. Eftir það dregst hún jafnt að sér til botns, sem er um 10,5 cm í þvm. Lokið vantar og upprunalegur botn er farinn, en negldur hefur verið í kringlóttur furubotn. Þegar karfan kom á safnið fylgdi henni svohljóðandi greinargerð: „Karfa þessi er fundin - um 1880 - í kofarústum Fjalla-Eyvindar á Hveravöllum af Margréti Jónsdóttur á Stóru-Seylu (Holtskoti) en hún var þar í grasaferð. Lok körfunnar var þá ónýtt. Margrét gaf Birni Gíslasyni - þá í Glaumbæ, 10 ára, körfuna (1910) og hefur hann átt hana síðan, en gefur hana nú til Glaumbæjar 8.4. 1954. Frá Birni Gíslasyni í Reykjahlíð við Varmahlíð". Í Þjóðminjasafni (Þjms. 1627) er karfa nokkru stærri en þessi en með svipuðu lagi og heil, og er hún talin eftir Eyvind. Er mjög svipað eða sama handbragð á báðum körfunum, og mætti af því einu ætla þær riðnar af saman manni. Eyvindur kvað hafa verið snillingur að ríða körfur (karfir) og þær vatnsheldar.
Mykjukláfurinn
Mykjukláfur (BSk.312) úr furu. Hann er um 40 cm breiður og um 57 cm langur. Kláfurinn er stuðlakassi. Stuðlarnir eru um 61 cm háir. Fjalir í hliðum og göflum eru grópaðar inn í stuðlana og trénegldar. Botninn er á tréhjörum. Kláfurinn er allur liðaður og slitinn, annar gafl og botn eru viðgert af Hirti Kr. Benediktssyni, safnverði á sjötta áratug 20. aldar. Kláfurinn er tallinn kominn frá Hofi í Hjaltadal.
Mykjukláfar voru notaður undir kúamykju, og aðra mykju, eins og nafnið bendir til, þegar mykjan var borin á tún á vorin. Tveir kláfar voru hengdir á klakka á klyfbera, sinn hvoru megin. Klyfberinn var girtur á reiðing (torfdýnu), á hest. Mykjunni var mokað í kláfana þar til þeir voru fullir og hesturinn teymdur þangað sem mykju var vant. Botninn var eins og hleri á hjörum. Splitti var á botninum (niðurhleypunni) á móti hjörunum sem kippt var úr þannig að botninn (hlerinn) féll niður og innihaldið úr kláfnum þar með. Mykjan var sett í hrúgum sem svo var hreitt úr og dreift um túnið (völlinn).
Mykjukláfurinn er uppi á hillu í Norðari skemmunni í gamla bænum í Glaumbæ.
Myndin hennar Moniku
Monika S. Helgadóttir (1901-1988) settist að á Merkigili í Austurdal í Skagafirði ásamt manni sínum Jóhannesi Bjarnasyni árið 1932. Jóhannes lést árið 1944 og eftir andlát hans stóð hún ein eftir með átta börn, sjö dætur og einn son. Þrjár elstu dæturnar voru fermdar en yngsta barnið, sem var nokkurra vikna gamalt, var skírt við kistu föður síns. Getur hver sett sig í hennar spor með barnahópinn en enginn í þær aðstæður sem hún bjó við innan húss sem utan. Árið 1949 réðst hún í það stórvirki að byggja nýtt hús úr steinsteypu, sem enn stendur. Var það sannkallað kraftaverk þar sem öll aðföng í húsið voru flutt á hestum, hvort sem það var möl, sement, bárujárn eða hvað annað sem til þess þurfti. Monika varð þjóðkunn þegar hún var sæmd Fálkaorðunni þann 17. júní 1953 fyrir búskaparafrek við erfiðar aðstæður og enn fremur ári seinna þegar út kom bók Guðmundar G. Hagalín, Konan í dalnum og dæturnar sjö, þar sem hann fjallaði um lífshlaup Moniku.
Monika S. Helgadóttir. Myndina málaði þýskur listamaður af japönskum ættum. Sá var gestur á Merkigili um það leyti sem Monika var að sauma myndina sem hér um ræðir. Oft var gestkvæmt á Merkigili og mörg sumur dvöldu þar kunnugir og ókunnugir ferðalangar um lengri eða skemmri tíma.
Myndina til hægri (BSk.1995:90) saumaði Monika á sjötta áratug síðustu aldar. Hún er saumuð með mislöngu spori og blómstursaumi með ullarþræði í dökkbrúnan ullardúk (java). Stærð myndar í ramma er 151x63. Myndefnið er Ólafur liljurós þar sem hann þiggur góðgjörðir af álfkonunni. Ólafur er í blárri treyju og með bláan hatt sem í er tilkomumikil fjöður. Hann er í grænbláum buxum og girtur háum mórauðum reiðsokkum upp að hnjám. Reiðskórnir eru fínir enda gullístað á reiðverinu. Yfir sér hefur hann rauða herðaslá. Hann ríður vel tygjuðum gráum, glæsilegum gæðingi. Svokallað undirdekk er lagt undir hnakk og oddabrugðin brjóstreim og taumur eru í stíl. Álfkonan, sem er klædd síðum bláum kjól með gullband um sig miðja, réttir Ólafi gullhorn að bergja af. Gras vefst um fætur og blóm skarta sínu fegursta. Tveir ókunnuglegir gráir fuglar trítla um. Á bakvið Ólaf sér inn í laufskóginn og þar sitja kunnuglegri fuglar. Þeir líkjast rjúpum. Grasið, blómin og fuglana sauð Monika saman úr ýmsum munstrum og fríhendis og fyllti í eftir smekk. Fyrirmyndir frjálslega útfærðra laufblaða í skóginum gætu verið runnar jafnt af blöðum pottablóma eins og af túninu.
Monika saumaði út sér til ánægju ef hún átti stund á kvöldin eftir annir dagsins. Efnið og munstrið í myndina keypti hún hjá ónafngreindri konu í Reykjavík. Sú góða kona kom og aðstoðaði hana (notaði það sem sumarfrí) við að sauma upphleypt drykkjarhornið og handlegg álfkonunnar. Sagt er að Monika hafi verið sjö ár að fullgera myndina.
Þegar Bændahöllin við Hagatorg reis langaði Moniku að gefa myndina þangað en úr því varð ekki. Myndin hékk lengst af í suðvesturstofunni á Merkigili eða til vors 1995 þegar hún var afhent Byggðarsafni Skagfirðinga. Myndin er til sýnis á lofti Áshússins, sem stendur við Glaumbæ. Þar hefur verið sett upp herbergi með húsgögnum og munum frá Merkigili og víðar að, til að minnast Moniku á Merkigili og annarra kvenna sem stunduðu bústörf á miklum breytingatímum, utandyra sem innan, um miðja 20. öld.
Myndin er til sýnis í Áshúsinu við Glaumbæ þar sem fleiri munir frá Moniku á Merkigili hafa verið lagðir fram.
Brúðan hennar Sissu
Brúðu (BSk.1993-3/1523) þessa gaf Sigríður Hjálmarsdóttir (f. 1918) frá Tungu í Stíflu safninu. Sigríður eða Sissa eins og hún var alltaf kölluð bjó í Viðvík, á Sauðárkróki og víðar. Brúðan sem er um 40 cm há er einstaklega falleg og búningurinn vel unninn. Hann er saumaður um 1970 af Sigríði Jónsdóttur systurdóttur Sissu. Sigríður var hannyrðakennari og mikil saumakona. Um skeið var hún þekkt sem konan sem saumaði prestakragana.
Búningurinn samanstendur af: svörtum prjónuðum hnésokkum, svörtum hvítbrydduðum spariskóm úr sauðskinni. Svörtu pilsi úr glansandi efni. Svuntan er köflótt, blá, svört og rauð úr bómullarefni, hneppt að aftan með skrautlegum hnappi. Treyjan er svört úr „jersey"-efni, hneppt með litlum tölum. Hyrnan er prjónuð með garðaprjóni úr grárri og hvítri ull. Skotthúfan er úr ullarefni og skúfurinn úr glansandi svörtu bómullargarni. Hólkurinn er afar lítill um 2,2 cm langur og miklu eldri en búningurinn. Hann er úr silfri og var áður í eigu Sigríðar Guðvarðardóttur, Móafelli í Stíflu (d. 1955). Brúðan er til sýnis í Áshúsi.
Með brúðunni á myndinni er jólasveinn sem keyptur var í kaupfélaginu í kring um 1970.
Rúmfjöl frá Bólu-Hjálmari
Rúmfjöl (BSk.75) frá 1829. Á hana er skráð með höfðaletri: hialmar arnason a arid 1829 a. Síðasti stafurinn er ráðgáta. Hjálmar Árnason þessi átti heima í Bakkakoti í Vesturdal. Rúmfjalir voru hafðar framn við rúmföt og fólk í rúmum baðstofunnar á nóttunni. Yfir daginn var rúmfjölin upp við þil nema ef þurfti að nota hana (bakhliðina) til að vinna á eða borða af og var hún þá höfð á hnjánum. Hjálmar í Bakkakoti dó árið 1868. Bólu-Hjálmar, sem kenndur var við Bólu í Blönduhlíð og skar út þessa rúmfjöl minntist þessa nafna síns svo:
Burt er Hjálmar frá Bakkakoti
bóndi reyndur af sannri dyggð
með hreinlynda sál í hyggju sloti
hann mér staðfasta sýndi tryggð
og hélt henni fram til dauðadags,
dró mér þá sorga ský upp strax.
Hjálmar var einn af þeim sjálflærðu hagleiksmönnum, sem gaf þjóðinni handverk sitt í arf. Hjálmar fæddist á Hallandi á Svalbarðsströnd við Eyjafjörð árið 1796. Hann var óskilgetið barn vinnuhjúa og var komið í fóstur hjá góðri konu í sömu sveit, sem hann dvaldi hjá til 14 ára aldurs. Þá var hann sendur til að vinna fyrir sér og hrakningasagan hófst. Hann fór í vinnumennsku bæ af bæ og endaði vestur í Skagafirði, þar sem hann giftist frænku sinni Guðnýju Ólafsdóttur árið 1822. Þau hófu búskap á Bakka í Öxnadal sama ár en fluttu þaðan 1824 að Nýabæ í Austurdal, góðri jörð og búnaðist þeim vel, þrátt fyrir ofríki nágrannanna. Árið 1829 hröktust þau burtu úr Austurdal í Uppsali í Blönduhlíð, þar sem þau bjuggu til 1835. Þá byggðu þau upp eyðibýlið Bólu í landi Uppsala. Þar hokruðu þau til 1843 er þau fluttu að Minni-Ökrum. Árið 1845 dó Guðný, en Hjálmar bjó þar til 1871. Frá 1871-1873 bjó hann í Grundargerði ásamt Guðrúnu dóttur sinni, en gafst upp er honum var boðið að flytja úr Akrahreppi yfir að Starrastöðum í Lýtingsstaðahreppi þar sem hann dvaldi til vors 1875. Þá fékk hann inni í beitarhúsum frá Brekku. Þar andaðist hann 25. júlí 1875. Hjálmar var jarðaður að Miklabæ í Akrahreppi. Saga Hjálmars er saga hins snauða íslenska kotbónda, sem háði ævilangt návígi við fátækt og skort. Það sem skilur hann frá öðrum kotbændum eru óvenjulegar gáfur, sem öfluðu honum bæði vona og óvildarmanna. Þær færðu honum oft björg í bú og hér eru nokkrar fallega útskornar fjalir til vitnis um hagleik hans. Hjálmar var einn síðasti skurðlistamaðurinn sem skar út að íslenskri hefð. Honum var margt fleira til lista lagt. Hann var listaskrifari, fróður og minnugur, góður kvæðamaður og þótti hafa merkilega frásagnargáfu og var því eftirsóttur á mannamótum. Hann hafði afburða vald á íslenskri tungu, en fjölyrti hvorki um það né annað. Þó tæpir hann á því í vísunni:
Handverki venst ég helst ónýtu
horfi í blöð og tálga spýtu
rispa með penna og raula stef.
Í Syrpu frá 1852 er kvæði sem hann kallaði Raupsaldurinn, sem hann ætlaði að hafa „til gamans í ellinni til að hlæja að". Þar segir hann í stuttu máli í hvað tími hans hefur mest farið í tilvistinni:
Tegldi ég forðum tré með egg
teygði járn og skírði.
Fjölnis brúðar skóf af skegg
skeið í vatni skýrði.
Tætti ég ull og bjó úr band
beitti hjörð um vetur
heitum kopar hellti í sand
hjó á fjalir letur.
Hjálmar dó bláfátækur þrátt fyrir hagleik sinn en hann gaf þjóðinni ómetanlegan arf eftir sig. Rúmfjölin er til sýnis á Áshúsloftinu.
Skápur Hjálmars og Hjálmars
Á miðloftinu í Áshúsinu er útskorinn skápur frá 1843. Á hurðina er grafið með höfðaletri: Huar s/em stoc/kin audg/rund a i e/igu sini l/ista bes/ta lanid f/ anno /1843, sem útleggst þannig: Hver sem stokk-inn auðgrund á / í eigu sinni / lista besta lánið finni. Vísan er gamall húsgangur. Skápinn skar Hjálmar Jónssonar (1796-1875) skáld frá Bólu í Blönduhlíð fyrir Hjálmar vin sinn Árnason í Bakkakoti.
Hjálmar Jónsson í Bólu var einn af mörgum sjálflærðum hagleiksmönnum, sem gaf þjóðinni í arf glæsilegt handverk og kveðskap sem hefur framlengt dvöl hans, ef svo má segja, í hérvistinni um ókomna tíð.
Hjálmar fæddist á Hallandi á Svalbarðsströnd við Eyjafjörð árið 1796. Hann var barn vinnuhjúa þar og var komið í fóstur hjá góðri konu í sömu sveit, sem hann dvaldi hjá til 14 ára aldurs. Þá var hann sendur til að vinna fyrir sér. Hann fór í vinnumennsku bæ af bæ og endaði vestur í Skagafirði. Hann giftist Guðnýju Ólafsdóttur árið 1822. Þau hófu búskap á Bakka í Öxnadal sama ár en fluttu þaðan 1824 að Nýabæ í Austurdal, góðri jörð þar sem þeim búnaðist vel þrátt fyrir ofríki nágrannanna. Árið 1829 hröktust þau burtu úr Austurdal í Uppsali í Blönduhlíð, þar sem þau bjuggu til 1835. Þaðan fóru þau að Bólu þar sem þau hokruðu til 1843. Þá fluttu þau að Minni-Ökrum. Árið 1845 dó Guðný, en Hjálmar bjó á Minni-Ökrum til 1871, ásamt Guðrúnu dóttur sinni. Árin 1871-1873 bjó hann í Grundargerði, en gafst upp þegar honum var boðið að flytja úr Akrahreppi yfir að Starrastöðum í Lýtingsstaðahreppi þar sem hann dvaldi til vors 1875. Þá fékk hann inni í beitarhúsum frá Brekku í Seyuhreppi. Þar andaðist hann 25. júlí 1875.
Hjálmar er jarðaður í kirkjugarðinum á Miklabæ í Akrahreppi þar sem honum hefur verið reistur minnisvarði. Saga Hjálmars er saga hins snauða íslenska kotbónda sem háði ævilanga baráttu við fátækt og strit. Það sem skilur hann frá öðrum kotbændum voru óvenjulegar gáfur, sem öfluðu honum bæði vina og óvina. Kveðskapur oftar óvina en útskurður vina, en í honum var hann afar fær, eins og margir fallega útskornir munir eru til vitnis um. Hjálmar skar út að fornri íslenskri hefð. Hann mun langmest hafa skorið út á yngri búskaparárum sínum. Kom tvennt til. Eftirspurn eftir útskornum munum fór minnkandi þegar leið á 19. öldina og fingur Hjálmars krepptust upp úr miðjum aldri og hann átti óhægara með að beita skurðarjárninu. En orðgnægðin og bragfræðin yfirgaf hann ekki. Honum var margt fleira til lista lagt. Hann var listaskrifari, fróður og minnugur, þjóðfræðasafnari, góður kvæðamaður og þótti hafa merkilega frásagnargáfu og var því eftirsóttur til ræðuhalda á mannamótum. Hann hafði afburða vald á íslenskri tungu, en fjölyrti hvorki um það né annað. Þó tæpir hann á því í þessum vísum:
Handverki venst ég helst ónýtu
horfi í blöð og tálga spýtu
rispa með penna og raula stef.
Í Syrpu frá 1852 er kvæði sem hann kallaði Raupsaldurinn, sem hann ætlaði að hafa „til gamans í ellinni til að hlæja að". Þar segir hann í stuttu máli í hvað tími hans hefur mest farið í tilvistinni:
Tegldi ég forðum tré með egg
teygði járn og skírði.
Fjölnis brúðar skóf af skegg
skeið í vatni skýrði.
Tætti ég ull og bjó úr band
beitti hjörð um vetur
heitum kopar hellti í sand
hjó á fjalir letur.
Heimild: Kristján Eldjárn, 1975. Hagleiksverk Hjálmars í Bólu. Reykjavík.
Skúfhólkurinn með fjallkonunni
Skúfhólkar eru eitt af sérkennum íslenskra þjóðbúninga. Þeir voru settir á samskeyti skotts og skúfs á skotthúfum sem konur gengu með við peysuföt og upphlut. Fallegur skúfhólkur var mikil höfuðprýði. Þeir voru til úr ýmsum málmtegundum og efni. Stundum var fagurlega útsaumaður flauelshólkur í stað málmhólks eða fallega snúrað band fyrir hólkinn.
Fjallkonan sem persónugerfingur fyrir Ísland mun fyrst hafa komið fyrir í ljóðum Eggerts Ólafssonar (1726-1768). Fyrirmyndin að þessari konumynd er hins vegar greinlega sú sem Benedikt Gröndal teiknaði á minningarspjald í tilefni þjóðhátíðarinnar 1874 og náði mikilli útbreiðslu.
Þessi fallegi skúfhólkur er til sýnis í Áshúsinu í Glaumbæ. Hann er af skotthúfu sem Sigurjón Sveinsson frá Byrgisskarði gaf safninu. Hólkurinn er úr silfri, 5,4 cm langur og 1,7-2 cm í þvermál. Helga Hjálmarsdóttir (1847-1916), í Bakkakoti, Lýtingsstaðahreppi, amma Sigurjóns, átti gripinn.
Stígandastafurinn
Göngustafur (BSk.1996:2-1882) feðganna Jóns Péturssonar (1867-1946) og Pálma Hannesar Jónssonar (1902-1992) er merkilegur gripur. Á handfangið, sem er úr rostungstönn, er útskorin hestmynd. Á haldinu eru stafirnir JP og á gylltum málmhólk stendur: Jón Pálmason 1867, 3. júlí 1937. Frá dætrunum fimm og sonunum sjö. Aftan á handfangi stendur: 1937 og RJ, sem stendur fyrir listamanninn Ríkharð Jónsson, sem skar handfangið.
Stafurinn var upphaflega í eigu Jóns Péturssonar (1867-1946) bónda á Nautabúi. Kona Jóns var Sólveig Eggertsdóttir (1869-1946). Stafinn fékk Jón á sjötugsafmælinu. Hestmyndin er af glæsihestinum og gæðingnum Stíganda sem ógleymanlegur öllum sem höfðu orðið á vegi hans. Stígandi var undan grárri hryssu á Hofsstöðum, árið 1911. Hann var taminn fimm vetra og var rólegur fyrsta árið en sjö vetra gamall var hann orðinn svo viljugur að hann var aðeins fyrir fullvana reiðmenn. Hann var sjálfráður en þegar „saman fór vilji hans og húsbóndans lagði hann fram meiri kosti en flestir hestar samtíða“ (Stígandi (1995), bls. 163). Um Stíganda orti Jón:
Úr Stíganda togar taum
tökum handar læstum,
er á landi og í straum,
óstöðvandi næstum.
Tölt og brokkið tekur nett
trauðla í vatni sekkur.
Skeiðar bæði skarpt og létt
skilar þegar stekkur.
Pálmi Jónsson var fæddur á Nautabúi í Skagafirði og kenndi sig gjarnan við þann bæ. Hann hafði Stíganda um tíma hjá sér í Reykjavík og keppti á honum á skeiðkappreiðum hestamannafélagsins Fák. Um Stíganda orti Pálmi:
Þegar Gráni gljána flaug
gleðin leysti dróma -
ég var sæll frá innstu taug
út í fingurgóma.
Stígandi var felldur 21 vetra gamall á Skiphóli og heygður þar. Skiphóll er skammt fyrir norðan Vindheimamela. Hestamannafélagið Stígandi sem stofnað var árið 1945 er nefnt eftir þessum eftirminnilega hvíta hesti og hófatökin hans. Flestir Skagfirðingar, sem einu sinni höfðu séð hann, geymdu hann í minni sínu löngu eftir að hann var felldur.
Systurnar Sólveig, Elín og Helga Pálmadætur og gáfu stafinn til Byggðasafns Skagfirðinga. Stafurinn er til sýnis í Gusu, sem er ein af húsunum í gamla bænum í Glaumbæ.
Söðulsessan sem breyttist í mynd
Í sparistofunni í Áshúsinu í Glaumbæ er útsaumuð mynd (BSk.1993:2) með blómamunstri á vegg. Myndin er eftir Kristínu Símonardóttur (1866-1956) frá Brimnesi. Upphaflega var myndin hluti af söðulsessu eins og konur notuðu til að smeyja undir sig í söðulinn, til að mýkja sætið. Kristín gaf hana vinkonu sinni Sigríði Pétursdóttur (1858-1930) í Utanverðunesi, þegar hún gifti sig 1880. Sú umsögn fylgdi myndinni að Kristín hefði byrjað á henni 1876 en það ártal er saumað í myndina. Þá var hún tíu ára gömul. Sagt er að hún hafi klárað verkið á fermingarári sínu. Hún hefur saumað myndina með mislöngu spori.
Kristín var fædd í Brimnesi. Móðir hennar var Sigurlaug dóttir Rannveigar og Þorkels á Svaðastöðum. Kristín nam hannyrðir hjá móður sinni á unga aldri og fór svo sem unglingur í vist til Sigurlaugar Gunnarsdóttur (1828-1905) í Ási í Hegranesi (sem stóð að byggingu Áshússins á sínum tíma). Þar kynntust Kristín og Sigríður í Utnaverðunesi. Seinna fór Kristín til Reykjavíkur og hélt áfram að sinna hannyrðum. Þar kynnti hún sér ýmsar nýjungar og koma heim með prjónavél. Maður Kristínar var Hartmann Ásgrímsson (1874-1948). Þau bjuggu í Kolkuósi þar sem þau ráku stórbú og verslun. Kristín var, eins og margar frænkur hennar, áhugasöm um nýjungar sem gátu aukið framleiðni og létt undir á heimilinu. Er ekki að efa að Kristín hafi átt sinn þátt í því að panta inn og selja hringprjónavélar þegar þær komu á markað.
Lesa má um Kristínu í bók eftir Ingu Arnar, sem ber heitið Lífsins blómasystur, Hannyrðakonur af Svaðastaðaætt og kom út í janúar síðast liðnum. Í bókinni fjallar hún um handverk afkomenda Rannveigar á Svaðastöðum, í kvenlegg. Útgefandi bókarinnar er Byggðasafn Skagfirðinga.
Sigríður Hjálmarsdóttir (1918-2012) húsfreyja í Viðvík og gaf safninu myndina um leið og hún gaf brúðuna hennar Sissu, sem einnig má lesa um hér á síðunni.
Taflmenn og töflur
Kotra og manntafl (BSk.35). Töflurnar eru renndar úr hvalbeini og birki. Skákborð er á öðrum botni, kotra á hinum. Taflmenn eru úr birki en töflurnar renndar úr hvalbeini. Kotra er teningaspil, eins konar myndþraut, þar sem á að setja saman heillega mynd úr töflunum.
Gjöf frá Fririki Árnasyni frá Kálfsstöðum. Sagt komið úr Fnjóskadal á 19. öld. Enginn veit um nákvæman aldur tafla eða taflmanna.
Taflborðið / kotruborðið, töflur og taflmenn eru til sýnis í baðstofunni í gamla bænum í Glaumbæ.
Verk Myllu-Kobba
Á Áshúshlaðinu eru tveir úthöggnir steinar. Stefán Benediktsson á Minni-Brekku kom með þess tvo steina í Glaumbæ sumarið 2005 og afhenti safninu. Hann sagði þá hafa verið á Minni-Brekku frá því að Jakob Jónsson (Myllu-Kobbi) var þar til heimilis um tíma á 19. öld. Kobbi hefði ætlað annan hvorn steininn á leiði sitt. Af því varð þó ekki.
Annar steinninn er ferhyrndur og fallega höggvin strik á brúnir hans. Hinn er sá sem myndin er af. Á hann er höggvin áletrun, í bak og fyrir. Að framan er: DROTTENN / LATI MIG DR / EIMA VEL S / EM DIGGVN I / AKOPI SREL Þ / EGAR A STEIN / SETT HANN SV / AF SÆL VÆRÐ. Sem útleggst sennilega þannig: Drottinn láti mig dreyma vel sem dyggun(m) Jakopi srel (sæll?) þegar á stein sett hann svaf sæl værð. Að aftan: HO / NUM AD ÞIN / GAF. Eða: Honum (n)áð þín gaf.
Jakob Jónsson (Myllu-Kobbi) fæddist árið 1823, sennilega í Fremri-Svartárdal.[1] Sonur Jóns Guðmundssonar frá Skatastöðum og víðar og Ragnhildar Jónsdóttur, sem fædd var í Flatatungukoti. Árið 1833, fluttu þau að Skíðastöðum á Neðribyggð með 3 börn sín, Svein, Jakob og Rannveigu. Jón dó árið 1839, og var þá lausamaður á Reykjavöllum. Ragnhildur fluttist þá frá Skíðastöðum að Fagranesi á Reykjaströnd. Jakob var fermdur árið 1838 og fékk þann vitnisburð að hann væri „sæmilega að sjer og skikkanlegur".[2] Sama ár varð hann vinnumaður á Kimbastöðum. Þaðan fluttist hann 1843 að Grímsstöðum í Goðdalasókn. Líklegt er talið að hann hafi verið fluttur þaðan fyrir 1850.[3]
Jakob var sjálflærður steinhöggvari og reyndi sig einnig við útskurð. Á fullorðinsárum var hann í lausamennsku og fór um byggðir og setti upp vatnsmyllur fyrir menn. Hann gaf sig einnig í að höggva upp hvannir fyrir fólk. Hann átti geitur og hafði með sér. Hann þótti sérstakur í háttum, hafði m.a. alltaf þrjá hatta á höfði, hvern upp af öðrum. Ólafur á Hellulandi mundi „eftir honum í steikjandi hita, þá tók hann ofan efsta hattinn og skömmu síðar þann næsta. Þá stóðu hárin á honum út um götin á þriðja hattinum".[4] Kobbi kom víða við sem kaupamaður. Einhvern tíma var hann hjá séra Benedikt á Hólum. „Einu sinni var búið að skammta presti og þá komst Kobbi i matinn hjá presti og at hann allan. Þegar prestur komst að því, ávarpar hann Kobba og segir: „Jakob minn, þér hafið borðað matinn minn." Karl lét sér hvergi bregða og svarar: „Eg held að matnum sé sama hver étur hann." Myllu-Kobbi var góður járnsmiður. Smiðja stóð gegnt kirkjudyrum á Hólum. Eitt sinn ætlaði prófastur að messa og hugði á ferðalag að lokinni messu. Það vantaði skeifur undir reiðhestinn og hann bað Kobba að smíða 24 hóffjaðrir fyrir sig. Þegar prófastur gekk út úr kirkjudyrum. búinn að messa, þá stendur þar Myllu-Kobbi og laumar í lófa hans nöglunum. Þeir voru glóðheitir úr smiðjunni og hrutu úr hendi prests út um alla stétt. Þetta gerði Kobbi af skömmum sínum til þess að minna prófastinn á að hann hefði látið sig vinna um messutímann. Í annað sinn var verið að heyja á engjum og áin í foráttuvexti. Þá kemur fólkið sér saman um að gefa Kobba sinn bitann hvert, ef hann vildi vinna það til að komast yfir ána. Kobbi tekur því vel fyllir alla vasa sína af grjóti og stingur sér í ána þar sem hún er dýpst. Það sést ekki af honum tangur né tetur fyrr en hann kom upp við hinn bakkann. Svo fór hann sömu leið til baka og fólkið varð að sjá á eftir matnum ofan í hann".[5]
Margar skemmtisögur eru til um Myllu-Kobba og fjöldi myllusteina eru eignaðir honum en óvíst er hve marga hann hjó sjálfur en marga setti hann niður fyrir menn.
[1] Samanber grein Þormóðs Sveinssonar í Lesbók Morgunblaðsins, 5. tbl., 8.2.1948. Bls. 75-76.
[2] Sama heimild.
[3] Í greininni segir Þormóður að heimildir um bernsku og ungdómsár Kobba hafa hann að mestu úr prestsþjónustubók Goðdalaprestakalls. Lesbók Morgunblaðsins, 5. tbl., 8.2.1948. Bls. 75-76.
[4] Viðtal við Ólaf Sigurðsson, óðalsbónda á Hellulandi í Skagafirði í Tímanum, 246. tbl., 44. árgangur,
þriðjudagur 1. nóvember 1960. Bls. 9.
[5] Sama heimild.
Byggðamerki nr. 1
Lilja Sigurðardóttir í Ásgarði (Víðivöllum) saumaði þennan fána fyrir Alþingishátíðina árið 1930. Sýslunefndin fól henni að skreyta tjaldbúð Skagfirðinga á hátíðinni. „Þau skilyrði setti jeg, að fá að hafa óbundnar hendur með tilhögun skreytingarinnar ... og var að því gengið“ (Lilja Sigurðardóttir í Hlín 41.tbl.1959,bls. 95). Tilmæli höfðu komið um það frá stjórnvöldum að hver sýsla bæri sitt eigið merki í skrúðgöngu við upphaf hátíðarinnar. Hugmyndasmiður þess var Lilja. Á því eru táknmyndir fyrir Skagafjörð. Drangey og kerlingin minna á þjóðsöguna um nátttröllið sem dagaði uppi og á „vorbæruna“ sem alltaf gaf fugl, egg og fisk í bú á hverju vori. Sverðið og biskupsbagallinn tákna söguleg átök þegar menn börðust gegn vaxandi veldi kirkjunnar á miðöldum. Það að bagallinn liggur yfir sverðinu táknar að orðið sigraði vopnið. Hugmyndin var send Tryggva Gunnarssyni listmálara sem gaf góða ábendingar. Dúkinn óf Sigrún Jónsdóttir á Flugumýri en Lilja vann fánann að öðru leyti. Hann var tákn Skagafjarðarsýslu til 1989. Söfnin, sem sýslan setti á fót, notuðu það til ársins 2020.