Fornverkaskólinn hefur verið þátttakandi í evrópsku samstarfsverkefni sem nefnist CHIST (Cultural Heritage Interpretation and Sustainable Tourism) frá árinu 2012. Verkefnið er styrkt af Menntaáætlun Evrópusambandsins. Samstarfsaðili Fornverkaskólans í verkefninu eru skosk samtök sem nefnast Arch Network. Nú eru í heimsókn hjá okkur sex Skotar sem vilja kynna sér okkar aðferðir í menningarafsþjónustu, -rannsóknum og -fræðslu. Þetta er í þriðja sinn til okkar kemur hópur frá Skotlandi en áætlun gerir ráð fyrir að verkefninu ljúki í lok þessa árs. Bryndís Zoëga, verkefnisstjóri Fornverkaskólans, annast hópinn á meðan hann er hér og sér um að þau hafi nóg að gera. Hún er búin að taka á móti tveimur öðrum sex manna hópum frá Skotlandi, á jafn mörgum árum. Þátttakendurnir koma frá ýmsum stofnunum, fyrirtækjum og félagasamtökum og eiga það sameiginlegt að starfa við minjavörslu eða menningarferðaþjónustu.
Hópurinn dvelur hér frá 18.-25. maí. Á meðan á dvölinni stendur reyna þau á eigin skinni hvernig er að skera torf og hlaða úr því, þau skoða ýmis hús og heyra um og ræða minjatengd mál.
Dagskráin er sem hér segir:
Sunnudagur 18. Hópurinn kemur til Varmahlíðar þar sem hann dvelur í sumarhúsi.
Mánudagur 19. - þriðjudagur 20. Torfnámskeið á Tyrfingsstöðum. Kennari: Helgi Sigurðsson.
Miðvikudagur 21. Fyrirlestrar í Auðunarstofu. Sigríður Sigurðardóttir og Guðný Zoëga fjalla um starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga, rannsóknir og minjavörslu. Heimsókn í Hóladómkirkju, Minjahúsið og Gestastofu sútarans – Loðskinn og gengið um Krókinn.
Fimmtudagur 22. Skoðunarferð um Skagafjörð. Komið við á Hegranesþingi, í Grafarkirkju og Hofsós skoðað í krók og kring, gengið í björg og dáðst að Drangey úr sundlauginni á Hofsósi.
Föstudagur 23. Skoðunarferð um Skagafjörð. Ferðin hefst í bæjardyrahúsinu á Reynistað, þaðan verður farið í gamla bæinn í Glaumbæ og svo í Víðimýrarkirkju. Að ending liggur leiðin að grjóthernum fyrir norðan Haugsnesið.
Laugardagur 24. Ekið suður á bóginn og stoppað við Deildartunguhver, Hraunfossar skoðaðir og að lokum Þingvellir.
Sunnudagur 25. Landnámssýningin í Aðalstræti skoðuð áður en ekið er á flugvöllinn.
Skýrslur frá fyrri heimsóknum má lesa á vef verkefnisins.