Krummi er skorinn út í linditré. Einar brennir og sker fjaðrir og önnur einkenni í fuglinn og málar í svo náttúrulegum litum að í sólskini bregður fyrir bláma eins og á sprellifandi hrafni. Einar hefur skorið út fjölda fugla frá því 1984 þegar hann stóð á fimmtugu og sá í fyrsta sinn útskorna fugla og áttaði sig á að að þetta langaði hann að kunna. Hann sótti námskeið hjá færustu fuglaútskurðarmönnum vestan hafs og hefur síðan skorið út mörg hundruð fugla, sem hafa dreifst um allan heiminn. Hann hefur haldið fjölda sýninga, heima og á Íslandi, og unnið til margra verðlauna fyrir handbragð sitt.
Skagfirski kammerkórinn söng um krumma í klettagjá þegar Einar og Rósalind afhentu safninu bæjarhrafninn.
Einar er í föðurætt frá Árnanesi í Hornafirði og í móðurætt úr Skagafirði. Móðurforeldrar Einars komu til Kanada 1898 og settust að í Riverton 1901. Þau voru Baldvin Jónsson (f.1871), sonur Sigríðar Jónsdóttur og Jóns Jónatanssonar, og Ingibjörg Pálsdóttir (f.1864) frá Kjartansstöðum, dóttir Páls Pálssonar og Guðbjargar Björnsdóttur (1832-1910). Ingibjörg og Baldvin áttu tvær dætur, Sigurlínu sem var fædd í Glaumbæ og Emilíu Rósu (1905-1997), sem var móðir Einars.
Einar og Rósalind hafa margsinnis komið í Glaumbæ og hafa með þessu sýnt og sannað vinahug í verki. Rósalind, sem ættuð af Reykjarströnd, Óslandshlíð og úr Eyjafirði, hefur kynnt íslenska tónlist fyrir kanadískum ungmennum og kennt þeim íslensku. Fyrir nokkrum árum kom hún með barnakórinn sinn sem söng fyrir okkur íslensk lög á íslensku eins og þau hefðu aldrei gert annað en fæst barnanna skyldu íslensku þá. Sum þeirra hafa lært hana síðan en öll lærðu þau hjá Rósalind og Einari um rætur sínar á Íslandi og íslenska menningu.