Á teikningu eftir Edwin Sacher frá 1936 sést að gaflhlöð smiðju og syðri skemmu voru um metra styttri til vestur en gaflhlað norðurskemmu. Árið 1939 voru þessi gaflhlöð orðin illa farin og sennilega var gert við þau snemma á fimmta áratugnum. Árið 1955 voru öll þrjú gaflhlöð tveggja skemma og smiðju orðin jafnlöng til vesturs. Miklar viðgerðir fóru fram á bænum á árunum 1939-1941 undir eftirliti Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar. Mögulegt er að menn hafi hlaðið utan á gaflinn á þeim árum. Þá unnu þeir við torfhleðslu á Glaumbæ, Sigurður Ólafsson fræðimaður á Kárastöðum, Stefán Friðriksson trésmiður og torfhleðslumaður í Glæsibæ og Gunnlaugur Jónasson bóndi í Hátúni. Fleiri komu að viðerðum á þeim tíma
|
|
|
Gaflinn á skemmunni reyndist vera tvöfaldur og gamla 19. aldar gaflhlaðið blasti við þegar ytri veggurinn var fjarlægður. |
Suðurveggur skemmunnar er marguppgildaður. Elsti parturinn er strenghlaðinn stubbur sem snýr fram á hlað og er jafngamall gaflinum. |
|
Áhugafólk um torfhleðslu ætti ekki að láta þessa tilhögun fram hjá sér fara. Viðbótin úr klömbru og streng utan á ævagamalli hleðslu úr eintómum streng er athyglisverð. Klömbruhlaðna viðbótin er um metri á þykkt og tvíhlaðin eins og um innvegg sé að ræða. Hlífin sem þarna var sett hefur varðveitt strenghlaðinn gaflinn. Á mynd sem varðveitt er á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga, úr ferð Daniels Brunn árið 1898, stendur séra Hallgrímur við smiðjuna, sem er talsvert breytt nú frá því sem þá var. Nokkrir heybaggar eru á hlaðinu framan við syðri skemmuna og á myndinni sést að syðri veggur hennar er strenghlaðinn. Smá bútur er enn eftir af þeim vegg og sést hann enn af bæjarhlaði. Það er samskonar strengur og er í gaflhlaðinu. Þegar séra Jakob Benediktsson, sá mikil hestamaður, tók við Glaumbæ árið 1890 endurbyggði hann suðurskemmuna[1] og hefur sennilega haft hana fyrir hesthús. Tóftardyrnar á gaflhlaðinu vísa til þess að húsið hafi verið notað sem búpeningshús, jafnvel fyrir hans daga því að á Glaumbæjarmyndinni frá 1898 er suðurveggskampurinn talsvert framsiginn og virðist eldri en átta ára. Séra Jakob Benediktsson, sem bjó í Glaumbæ til 1894, hýsti hesta sína í þessu húsi og séra Hallgrímur á eftir honum alla tíð til 1935.
Hluti af mynd sem Daniel Bruun tók í Glaumbæ 1898/HSk. Við smiðjuna stendur séra Hallgrímur Thorlacius sem bjó í Glaumbæ 1894-1935. Miðað við útlit húsanna nú hefur margt breyst frá því myndin var tekin. Eitt hefur þó ekki breyst, strenghlaðinn suðurveggur skemmunnar, sem árið 1898 og gengdi hlutverki hesthúss, er hinn sami og enn er að hluta til. Gamla strenghlaðna gaflhlaðið sem enn stendur er jafngamalt þeim veggstubb.
[1] HSk. Kirkjustóll Glaumbæjar 1892-1951. No. 454. Úttekt 1894.
|