Fara í efni

Kirkjugarðsrannsókn á Stóru-Seylu

   
Uppgraftrarsvæðið á Stóru-Seylu. Myndin var tekin í síðustu viku. Bein smábarns sem fundust í dag. Þau eru frá 11. öld.  Enn má sjá rekuför frá því bein voru flutt úr garðinum.

Fyrri rannsóknir höfðu sýnt fram á umfangsmiklar mannvistarleifar, skála og önnur mannvirki á fornu bæjarstæði Seylu, þar á meðal kirkjugarð úr frumkristni. Allar minjarnar fundust með jarðsjármælingatækjum en engin ummerki voru um þær á yfirborði. Á 11. öld hefur svo bærinn og þar með talin kirkjan og kirkjugarður verið flutt ofar í landið þar sem bærinn stóð allt fram á miðja 20. öld.

Sumarið 2012 var ákveðið að ráðast í frekari rannsóknir á kirkjugarðinum í tengslum við Skagfirsku kirkjurannsóknina. Einhverjar áhugaverðustu niðurstöður uppgraftarins eru að þegar bæjarstæðið og kirkjan voru flutt hafa þeir sem lágu í gröfum eldri kirkjugarðsins einnig verið fluttir til nýrra heimkynna. Líklega í kirkjugarð við kirkjuna sem reist var eftir flutning bæjarstæðisins.

Alls höfðu við lok uppgraftar 2012 fundist fjórar óskemmdar grafir í garðinum en þrjár til viðbótar höfðu að mestu verið tæmdar af beinum á 11. öld. Það sem af er rannsókninni í sumar hafa 11 grafir til viðbótar fundist. Þrjár þeirra hafa augljóslega verið tæmdar en tvær hafa farið framhjá hinum skeleggu beinaflutningamönnum fortíðar en þar innihéldu grafirnar ágætlega varðveittar beinagrindur. Nú er unnið að uppgreftri þeirra sem og annarra grafa í gaðrinum.   

Rannsóknir sumarsins miða að því að ljúka uppgreftri á kirkjugarðinum og kirkjunni en ekki verður grafið frekar í eldri mannvistarleifar sem liggja undir þeim. Vonast er til að rannsókninni ljúki um miðja næstu viku.