Tilkynnt var um tilnefningar til Safnaverðlaunanna 2016 í tilefni af Alþjóðlega safnadeginum á Íslandi, 18. maí í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Íslensku safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Sem fyrr gátu almenningur, stofnanir og félagasamtök sent inn ábendingar um safn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar.
Valnefnd hefur tilnefnt eftirfarandi þrjú söfn og hlýtur eitt þeirra viðurkenninguna Safnaverðlaun 2016 og 1.000.000 króna að auki. Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn þann 13. júlí á Bessastöðum. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhendir verðlaunin. Valnefnd skipa þau Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, formaður, Hlynur Hallsson, Unnur Birna Karlsdóttir, Sigurður Trausti Traustason, og María Karen Sigurðardóttir sem tók við af Lilju Árnadóttur.
TILNEFNINGAR DÓMNEFNDAR Í STAFRÓFSRÖÐ:
Byggðasafn Skagfirðinga.
Starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga er fjölþætt og metnaðarfull. Þar er fagmannlega að verki staðið og hver þáttur faglegs safnastarfs unninn í samræmi við staðfesta stefnu og starfsáætlanir.
Í safninu er ríkulegur safnkostur sem safnast hefur allt frá stofnun þess árið 1952 og um þessar mundir beita starfsmenn aðferðum við söfnun, skráningu, rannsóknir og miðlun sem mæta kröfum samtímans um safnstörf. Byggðasafnið leggur áherslu á að rækta samstarf við stofnanir og fyrirtæki heima og heiman. Sú samvinna og samþætting skipar safninu í flokk með fremstu safna á Íslandi í dag.
Öflugar og sérhæfðar rannsóknir safnsins varpa ljósi á mannauð sem það býr yfir og sýna fram á hvers byggðasöfn eru megnug þegar þau hafa náð viðurkenndum sessi. Í safninu fara fram rannsóknir á safnkostinum auk víðtækra fornleifarannsókna í héraðinu, oft í alþjóðlegu samstarfi. Skráning, kennsla og rannsóknir á starfssviði safnsins hafa enn frekar víkkað út starfssvið safnsins og birtast m.a. í gegnum Fornverkaskólann og byggingarsögurannsóknir. Gefnar eru út rannsóknaskýrslur og sýningaskrár sem eru jafnframt aðgengilegar í gagnabanka á vefsíðu safnsins.
Starfsemi safnsins nær langt út fyrir eiginlega staðsetningu þess. Sýningar þess eru víðar um héraðið en í höfuðstöðvunum að Glaumbæ, s.s. sýningin í Minjahúsinu á Sauðárkróki og aðalsýning í Vesturfarasetrinu á Hofsósi, sem einnig er dæmi um samstarfsverkefni undir undir faglegri handleiðslu byggðasafnsins. Samstarf við skóla, uppeldisstofnanir og fyrirtæki í ferðaþjónustu, sem og samstarf í miðlun og sýningagerð sýnir hvernig safn getur aukið fagmennsku í sýningagerð, ferðaþjónustu og miðlun menningararfs.
Safnið hefur á að skipa hæfu starfsfólki sem með vökulum áhuga og metnaði hefur tekist að skipa safninu í flokk með þeim fremstu sinnar tegundar á Íslandi.
Listasafn Reykjavíkur – Ásmundarsafn
Ásmundur Sveinsson var einn frumkvöðla höggmyndalistar á Íslandi. Honum auðnaðist löng og starfssöm ævi og eftir hann eru listaverk, sem hann tryggði örugga framtíð með því að ánafna þeim Reykjavíkurborg eftir lát sitt, ásamt eintöku húsi sínu við Sigtún í Reykjavík.
Við stofnun safnsins árið 1983 var strax ákveðið að stefna þess yrði að leggja áherslu á að halda á lofti verkum listamannsins og gildum. Það er gert með því að tengja þau strauma og stefnum líðandi stundar í samspili við verk valinna, ungra listamanna.
Í Ásmundarsafni hefur síðustu misseri tekist einkar vel að halda uppi lifandi samræðu bæði við listasöguna jafnt og samtímann með vel skipulagðri sýningarstefnu. Valin eru til sýningar verk starfandi listamanna eða þeim boðið að gera ný verk og þau sett í samhengi við safnkostinn og vinnuaðferðir Ásmundar með vel útfærðri sýn sýningarstjóranna. Þannig er sýn okkar á verk þessa mikla meistara endurnýjuð með reglulegu millibili, sem um leið varpar nýju ljósi á íslenska listasögu og túlkun okkar á henni. Þannig sýnir safnið hvernig mögulegt er halda safnkosti í stöðugri endurskoðun með því að velta upp nýjum flötum og skoðunum frá ólíkum sjónarhornum virkra listamanna í samtímanum. Þá hafa verið gefin út rit og bækur um list og persónusögu Ásmundar og lögð er áhersla á útgáfu fræðsluefnis, sem tryggir miðlun á stórmerkum arfi listamannsins
Ásmundarsafn er einmenningssafn, sem skarar fram úr á landsvísu. Aðferðir sem hafðar eru að leiðarljósi í starfi safnsins sýna að vel hefur tekist að glæða safnið og halda markvisst á lofti minningu og listsköpun merks myndhöggvara, sem markaði spor með listsköpun sinni og mun áfram gera það í gegnum metnaðarfulla starfsemi safnsins.
Sjónarhorn
Sýningin Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Þjóðskjalasafns Íslands. Samstarfið markar tímamót í safnastarfi á Íslandi, en afar vel hefur tekist að leiða saman þessar ólíku stofnanir í því markmiði að miðla sjónrænum menningararfi þjóðarinnar. Þá heiðrar sýningin Safnahúsið sjálft á viðeigandi hátt, sem upphaflega var byggt til að varðveita og miðla menningarminjum úr ólíkum áttum.
Sjónarhorn býður gestum í leiðangur um íslenskan myndheim frá fortíð til nútíðar. Sýningin státar af forngripum, handverki, náttúruminjum, listaverkum, handritum, hönnun og ýmiss konar skjölum, sem saman mynda marglaga sýn. Þessi nálgun hvetur áhorfandann til að velja sér sitt sjónarhorn um leið og honum er ljóst að ekki er til neitt eitt réttmætt sjónahorn. Þá eru það nýmæli hér á landi að menningararfur á svo á víðtæku tímabili sé skoðaður með sjóngleri listasögunnar og hins fagurfræðilega, en í því tilliti er sýningin endurskoðun á þröngri túlkun muna af því tagi sem á henni er til sýnis. Þannig færir sýningin okkur nýjar menningarlegar víddir og viðmið sem beitir annarskonar lestri á sögunni og skilar jafnvel nýjum skilningi á menningarsögu okkar.
Sýningarstjórnun er afar vönduð og byggir á heildstæðri og ígrundaðri afstöðu til safnkostar allra hlutaðeigandi stofnana. Unnið út fyrir hefðbundin flokkunarkerfi safna, sem brotin eru niður og gripir látnir tala sínu máli í krafti sjónrænna áhrifa fremur en eðliseiginleikum eða tegundum. Þá ríkir skýr meðvitund um að sú nálgun sem hér er beitt taki mið af því áður hefur verið gert á safnasviðinu, og að á sama tíma sé hún lituð af þeim samtíma sem sýningin sprettur úr. Sýningin er þannig í áhugaverðu samtali við sögu og hlutverk safna í samtímanum, sem gerir áhorfandann um leið meðvitaðan um vald safnastofnana og sýningastjórans sjálfs til að hafa áhrif á sjálfsímynd þjóða. Þá fellur hönnun sýningarinnar fullkomlega að þessu markmiði og minnir á furðustofur endurreisnarinnar (e. cabinets of curiosity), þar sem ólíkum gripum ægir saman og ekki er gerður stigveldismunur á náttúruminjum, menningarminjum og listaverkum.
Mjög ítarleg leiðsögn fylgir sýningunni, hvort sem er á vef, í hljóðleiðsögn eða smáforriti fyrir síma, og þannig er nútíma safnatækni vel nýtt. Upplýsingar á vef er auðvelt að finna og hægt er að kafa á dýptina í efni um einstaka gripi. Prentuð sýningarskrá er sömuleiðis vönduð og fagurlega hönnuð.