Skoskir starfsmenn ýmissa menningarstofnana, listamenn og hleðslumenn eru þessa dagana (6.-10. júní) á námskeiði og í kynningarferð í Skagafirði og ætla að skoða hvernig við nýtum menningararf okkar og náttúru. Safnið hefur verið í samstarfi við Archnetwork og fleiri aðila í Skotlandi í gegnum Fornverkaskólann frá 2011. Í þetta sinn eru 10 manns í hópnum. Á mánudaginn var þeim kynnt hvernig við varðveitum og nýtum torfbyggingar, þá var stefnt á þriggja daga námskeið í torfhleðslu á Tyrfingsstöðum þannig að í lok vikunnar verða þau búin að læra sitthvað um torf, torfhleðslu og torfbyggingar. Þau munu einnig skoða Hegranesþingstað, bæjardyrahús á Reynistað, Nýjabæ og kirkjuna á Hólum, Grafarkirkju, Glaumbæ, Víðimýrarkirkju og sýningar í Minjahúsinu, Gestastofu sútarans og sútunarverksmiðjuna. Á leiðinni til Reykjavíkur, þar sem þau skoða landnámssýninguna og sýningar Þjóðminjasafnsins, koma þau við í Þingeyrakirkju. Leiðangursstjóri er Bryndís Zoëga og kennari á torfhleðslunámskeiðinu er Helgi Sigurðsson. Aðrir leiðbeinendur og fyrirlesarar eru Guðný Zoëga, Sigríður Sigurðardóttir og Þór Hjaltalín.
Á myndinni, sem tekin er á Tyrfingsstöðum, eru Bryndís, Sigurður á Tyrfingsstöðum og Helgi, með skoskum þátttakendum á torfhleðslunámskeiði.
08.06.2016