Í síðustu viku hlaut Hjalti Pálsson ritstjóri Byggðasögu Skagafjarðar viðurkenningu Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, fyrir ritröðina Byggðasaga Skagafjarðar I-X. Við óskum Hjalta innilega til hamingju með viðurkenninguna sem hann er svo sannarlega vel að komin. Byggðasagan er einstök í sinni röð og eiga Hjalti og allt hans samstarfsfólk heiður skilið fyrir sín störf.
Starfsfólk Fornleifadeildar Byggðasafnsins hefur allt frá árinu 2004 verið í samstarfi við ritara Byggðasögunnar, fyrst Hjalta og síðar einnig Kára Gunnarsson. Á þeim árum höfum við víða komið við og saman rannsakað fjölda fornbýla, eyðibýla, selja og landnámsskála svo eitthvað sé nefnt. Niðurstöður þessara rannsókna hafa síðar ratað í Byggðasöguna og aukið vægi hennar. Að baki svona rannsóknum liggur fjöldi langra vinnudaga og ýmiskonar ævintýri og má sjá brot af því á meðfylgjandi myndum á Facebook.