Það er gaman að segja frá því að safnið hlaut á dögunum viðurkenningu frá CIE Tours vegna ánægju gesta með heimsókn á safnið!
2024 var annað árið í röð sem hópar frá fyrirtækinu sóttu safnið heim og þetta er jafnframt í annað skiptið sem safninu hlotnast þessi viðurkenning.
Athöfnin "2024 CIE Tours Awards of Excellence" fór fram í Reykjavík þann 26. mars sl. og hlutu þar hátt í 20 fyrirtæki viðurkenningu. Framkvæmdastjóri CIE tours, Stephen Cotter, afhenti viðurkenningarnar en Ylfa Leifsdóttir, verkefnastjóri miðlunar, veitti viðurkenningunni viðtökur fyrir hönd safnsins.
Viðurkenningarnar byggja á umsögnum gesta og eru veittar þeim sem ná yfir 90% ánægju hjá gestum. Um þúsund gestir frá CIE Tours heimsækja Ísland ár hvert, aðallega frá Norður-Ameríku, og það er okkur sannur heiður að vera meðal þeirra sem hópar frá CIE tours sækja heim.
Við erum mjög glöð og þakklát fyrir þennan viðurkenningarvott og eins og alltaf stolt af okkar starfsfólki sem spilar stórt hlutverk í því að upplifun gesta af heimsókn á safnsvæðið sé sem best.