Fara í efni

Monika á Merkigili

Munir úr búi Moniku Helgadóttur, átta barna móður og bónda á Merkigili, eru til sýnis í austara súðarherberginu á Áshúsloftinu. Varpað er ljósi á umhverfi og innastokksmuni á bændabýlum um miðja 20. öld um leið og sögð er saga atorkukonu og húsmóður á umbyltingatímum þar sem nýtni og útsjónarsemi skipti megin máli.

Monika varð þjóðkunn þegar hún var sæmd Fálkaorðunni árið 1953 fyrir búskaparafrek við erfiðar aðstæður og enn fremur ári síðar þegar út kom bók Guðmundar G. Hagalín, Konan í dalnum og dæturnar sjö, þar sem fjallað er um lífshlaup hennar og hafa mörg titlað hana táknmynd íslensku sveitakonunnar.