Á sýningunni í torfbænum er stigið aftur í tímann þegar gengið er inn um bæjardyrnar. Áhersla er lögð á aðbúnað fólks við matargerð og daglegt líf. Í eldhúsinu eru hlóðir þar sem maturinn var soðinn. Hann var geymdur í tunnum og sám í búrunum og skammtaður í aska eða skálar og borinn til fólksins sem sat á rúmum sínum í baðstofunni á meðan það mataðist. Húsaskipan þessa aldna stórbýlis og hversdagsáhöldin í sínu eðlilega umhverfi bera glöggt vitni um horfna tíð og daglega iðju fólksins sem bjó í bænum.
- Nánari upplýsingar um sýninguna í bænum hér.
Það skipti sköpum fyrir varðveislu Glaumbæjar að breski Íslandsvinurinn Mark Watson (1906-1979) gaf 200 sterlingspund til varðveislu bæjarins árið 1938. Bærinn var friðlýstur árið 1947 og sama ár flutti síðasta fólkið úr bænum. Árið 1948 var Byggðasafn Skagfirðinga stofnað og fékk safnið bæinn fyrir starfsemi sína, samkvæmt samningi við Þjóðminjasafn Íslands en Glaumbær tilheyrir húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Megin sýning Byggðasafns Skagfirðinga Mannlíf í torfbæjum á 19. öld var opnuð þann 15. júní 1952 í Glaumbæ.
- Lestu nánar um Mark Watson og hans þátt í varðveislu bæjarins hér.
Sagnir herma að Snorri Þorfinnsson, sonur Þorfinns karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur, hafi byggt fyrstu kirkjuna í Glaumbæ í kringum árið 1000, staðsetning þeirrar kirkju er enn óþekkt. Árið 2002 fundust leifar húsa frá 11. öld í túninu austur af bæjarhólnum. Hugsanlega er þar um að ræða annað bæjarstæði Glaumbæjar og kannski liggja leifar kirkjunnar í grennd við það.
Glaumbær er gangnabær af stærstu gerð, samanstendur af þrettán húsum og er um 730 fermetrar. Sex húsanna snúa gafli/burstum fram á hlað og hægt er að ganga inn í þau af hlaðinu, þetta eru kölluð framhús. Níu húsanna eru svokölluð bakhús en þau tengjast öll bæjargöngunum sem liggja frá bæjardyrum og í gegnum alla þyrpinguna inn að baðstofunni sem er innst. Bakdyr bæjarins eru á einu bakhúsanna, þar gekk heimilisfólk vanalega um. Skammt suðvestur af bakdyrunum má sjá þónokkurn hól en það er öskuhaugurinn, þangað setti heimilisfólkið ruslið sem féll til í bænum.
Grjót í veggjahleðslur eru af skornum skammti í landi Glaumbæjar, en torfrista er góð. Það má sennilega fullyrða að hvergi í veröldinni sé torf notað í jafn miklum mæli í jafn stóra byggingu eins og í Glaumbæ. Veggirnir eru hlaðnir úr klömbrum, sniddu og streng. Rekaviður og innfluttur viður eru í grindum og þiljum.