Fara í efni

Áshúsið

Áshús er byggt á árinum 1883-1886 í Ási í Hegranesi og var flutt að Glaumbæ árið 1991.

Í Áshúsinu eru nokkrar smærri sýningar, þá á þetta hús sér magnaða sögu:

Íslenskir þjóðbúningar

Í sýningaskáp á miðhæðinni má sjá fimm glæsilega þjóðbúninga. Um er að ræða tvo skautbúninga, tvo upphluti og einn kyrtil en allir búningarnir eiga sér skemmtilega sögu sem lesa má við skápinn.

 

 

 

Bólu-Hjálmar: Kotbóndi, ljóðskáld og útskurðarmeistari
Sýning um Hjálmar Jónsson (1796-1875), betur þekktur sem Bólu-Hjálmar, er í norðurstofu á Áshúslofti. Á sýningunni eru útskornir gripir eftir Bólu-Hjálmar ásamt úrvali ljóða sem ýmist tengjast gripunum á einhvern hátt eða hafa skírskotun í lífshlaup hans og tilvist.
 
 
Monika á Merkigili

Munir úr búi Moniku Helgadóttur, átta barna móður og bónda á Merkigili, eru til sýnis í austara súðarherberginu á Áshúsloftinu. Varpað er ljósi á umhverfi og innastokksmuni á bændabýlum um miðja 20. öld um leið og sögð er saga atorkukonu og húsmóður á umbyltingatímum þar sem nýtni og útsjónarsemi skipti megin máli.

Monika varð þjóðkunn þegar hún var sæmd Fálkaorðunni árið 1953 fyrir búskaparafrek við erfiðar aðstæður og enn fremur ári síðar þegar út kom bók Guðmundar G. Hagalín, Konan í dalnum og dæturnar sjö, þar sem fjallað er um lífshlaup hennar og hafa mörg titlað hana táknmynd íslensku sveitakonunnar.

Vélvæðing handverks
Örsýningin á miðloftinu á Áshúslofti sem rekur í stuttu máli sögu ullarvinnslu, spuna og nokkurra aðferða textílgerðar á Íslandi frá landnámi og fram á 20. öld.
 
 
 
 
 
Hver var konan?
Sýningarröðin Hver var konan? er staðsett í vestara súðarherbergi, en þar eru sagðar sögur af einstökum skagfirskum konum frá 20. öld. Sýningaröðinni er ætlað að fjalla um líf og störf kvenna sem settu svip á samtíð sína, oft þó án þess að marka stór spor í ritaða menningarsögu svæðisins. Margar þeirra skildu eftir sig handverk sem safnið varðveitir. Fyrsta sýningin í röðinni er um Þóru Rósu Jóhannsdóttur (1903-1990) verslunarkonu. Til sýnis eru hlutir úr hennar eigu og handverk sem bera vott um hvoru tveggja í senn, listfengi og nýtni.
 

Sparistofan

Þessi stofa (einnig kölluð gestastofa eða stásstofa) veitir innsýn í húsbúnað betri stofu á fyrstu áratugum 20. aldar. Slíkar stofur voru sjaldan notaðar nema á tyllidögum og þegar gesti bar að garði.

 

 

Rafvæðing eldhússins á 20. öld

Hraðar breytingar áttu sér stað í húsnæðis- og tæknimálum á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar. Mörg höfðu flutt úr sveitum í þéttbýli á 19. öldinni, fólk flutti í síauknum mæli úr torfbæjum í timburhús og rafmagnið hóf innreið sína. Rafvæðingin leiddi af sér innflutning ýmissa nýrra heimilis- og raftækja sem léttu heimilisstörfin og matreiðslu. Á þessari örsýningu má sjá dæmi um tæki og tól eldhússins frá því um og eftir miðja 20. öld.

Saga hússins

Áshúsið var byggt á árunum 1883-1886 í Ási í Hegranesi. Hjónin Sigurlaug Gunnarsdóttir (1828-1905) og Ólafur Sigurðsson (1822-1908), sem byggðu húsið, stóðu oft fyrir námsskeiðum í Ási, bæði fyrir stúlkur og drengi og héldu skagfirska kvennaskólann á heimili sínu 1877, fyrsta árið sem hann starfaði. Markmiðið með byggingu hússins var einmitt að hýsa skólann þar, en af því varð þó ekki. Búið var í húsinu til 1977. Þá höfðu fjórar kynslóðir sömu fjölskyldu búið þar. Áshúsið var síðan flutt í heilu lagi á bíl að Glaumbæ árið 1991.

Frumkvöðlafólkið í Ási

Á tímabilinu 1870-1900 mátti rekja margs konar búbætur, sem menn höfðu ekki séð áður, til heimilisins í Ási. Sumt var innflutt og annað endurbætt eða fundið upp á staðnum. Fyrsta fótstigna saumavélin er talin hafa komið í Ás 1870, fyrsta prjónavélin 1874, fyrsta eldavélin stuttu seinna og fyrsta spunavélin 1882. Þar var hraðskyttuvefstóll og ýmsar nýjar vélar notaðar við vefnað og ullarvinnu. Sigurður Ólafsson fann upp handtöng til að klippa tennur í ullarkamba en sú töng sparaði mörg dagsverk. Í Ási var vindmylla til að mala korn og fótstiginn hverfisteinn til að brýna á ljái og önnur eggjárn.

Mörg komu í Ás til að læra á nýju tækin og fá gagnlegar leiðbeiningar, svo sem um að nota aktygi í stað reiðtygja til dráttar, trékjálka í staða dráttartauga á ísasleða og að nota rakstrarkonu, vírgrind sem fest var á ljái þannig að rakaðist úr ljáfarinu jafnóðum og slegið var. Margt fleira mætti telja.

Áshúsið, Ólafur Sigurðsson og Sigurlaug á tröppunum, Arnór Egilsson tók myndina.