Mannskepnan getur verið ólíkindatól. Starfsfólk safnsins hefur af og til orðið vart við að munir hverfi úr sýningu, að þeir séu teknir ófrjálsri hendi. Á undanförnum árum hafa m.a. horfið reiðsokkar (háleistar) og tóbaksponta, svo eitthvað sé nefnt. Steininn tók þó úr á dögunum þegar vasaúri með úrfesti var stolið úr lokuðu sýningarborði, sem fram að þessu hefur þótt tryggur geymslustaður, en til að stela slíkum grip þarf einbeittan brotavilja.
Úrfestin var í eigu Björns Pálssonar (1906-1979) á Miðsitju, en festina fékk hann frá móður sinni í tvítugsafmælisgjöf árið 1926. Festin er búin til úr smápeningum úr silfri, en tölur hafa verið máðar af peningunum og í staðinn grafið: „Á afmælisdaginn - Frá mömmu“. Úrið sjálft er af gerðinni OMEGA.
Stuldur safngripa er geysilegur missir, ekki aðeins fyrir safnið og menningarsögu svæðisins, heldur líka fyrir eigendur og gefendur, sem tengjast oft gripum miklum tilfinningaböndum.
Við hvetjum þann sem tók gripinn að sjá sóma sinn og skila úrinu og festinni aftur til safnsins! Einnig viljum við biðja almenning að hafa samband ef einhver býr yfir upplýsingum um hvar úrið og festin eru niðurkomin.