Í gær fór hluti starfsfólks Byggðasafnsins á námskeiðið "Þjóðbúningafræðsla fyrir safnafólk; fatnaður, skart og uppsetning" ásamt starfsfólki frá Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum, Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi og Safnasafninu á Akureyri. Leiðbeinendur voru Guðrún Hildur Rosenkjær, klæðskeri og sagnfræðingur, og Ásmundur Kristjánsson, gullsmiður, frá Annríki.
Námskeiðið fór fram á Heimilisiðnaðarsafninu og var afar fróðlegt og skemmtilegt. Hildur og Ási búa yfir óhemjumikilli reynslu auk þess að hafa viðað að sér gríðarlegri þekkingu m.a. með rannsóknum á gömlu handverki. Það er ómetanlegt að geta notið fræðslu frá fólki með slíka reynslu og þekkingu en lærdómur námskeiðsins mun reynast vel bæði í sýningarhaldi og við varðveislu fatnaðar og skarts safnanna.
Við þökkum Safnasjóði kærlega fyrir styrkinn sem gerði þetta námskeið mögulegt.