Fara í efni

Sjöunda vikan á Höfnum að baki

Þá eru sjötta og sjöunda vikan á Höfnum að baki, en uppgreftri á Höfnum er lokið að sinni. Eftir stendur að hnýta lausa enda og ganga frá svæðinu og verður það gert seinna í sumar.
Búið er að fjarlægja leifar bátsins sem fannst í naustinu með tilheyrandi uppmælingum og teikningum á bátasaumum og viðarleifum. Þá voru sýni tekin úr viðnum til tegundagreininga. Með þessu má sjá í eftirvinnslu hvernig samspil viðarleifa og sauma gefur okkur einhverja mynd af stærð, breidd og lögun bátsins og úr hvaða viði hann hefur verið gerður. Á búðasvæðinu hefur hver búðin af annarri verið skrásett og grafin upp. Líkt og í fyrra kom mikið magn af unnum hvalbeinum í ljós. Minni gripir, þar sem ekki hefur þurft að vinna beinin mikið til að þau yrðu nothæf í til dæmis diska eða annað undirlag, sem og stærri gripir sem virðast hafa verið notaðir sem byggingarefni, t.a.m. gólfborð. Þá voru viðarleifar áberandi síðustu vikurnar, en varðveisla viðarins er einstaklega góð. Margar gryfjur komu í ljós og bendir ýmislegt til að þær séu sáför, þ.e. gryfjur til að geyma í matvæli, oftast í viðartunnum þótt það sé ekki algilt. Þá hafa komið upp ýmsir gripir t.a.m. nálar, brýni, textíll og skreytt koparþynna svo eitthvað sé nefnt.
Á Höfnum er einnig hópur nema og sérfræðinga frá UMASS Boston og Háskólanum á Hólum með styrk frá Bandaríska rannsóknarsjóðnum (NSF) og eru þau enn við rannsóknir á svæðinu. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna þróun byggðar í landi Hafna; hvenær byggð hefst þar og einnig hvenær byggð hefur hafist á afbýlum jarðarinnar og mögulegum þurrabúðum við stöndina. Teknir hafa verið borkjarnar og könnunarskurðir á fjölmörgum stöðum og benda fyrstu niðurstöður til að öll þrjú afbýlin: Rif, Kaldrani og Hvalgarður, séu komin í notkun nokkru fyrir 1104. Það sama má segja um býli eða þurrabúð sem stendur við Rekavatnsós. Aðrar minjar hafa flestar reynst vera frá því eftir gjóskufallið 1104. Áfram verður unnið við rannsóknirnar í sumar og munu ítarlegri niðurstöður líta dagsins ljós á haustmánuðum.
 
Fleiri myndir frá uppgreftrinum og umfjöllun um hverja viku má finna á Facebook og Instagram safnsins.