Undanfarna daga hefur Fornleifadeild Byggðasafnsins í samstarfi við Fornleifastofnun Íslands unnið að rannsóknum á verbúðarminjum á Höfnum á Skaga. Þarna eru umfangsmiklar minjar um sjósókn, líklega allt frá elstu tíð en staðurinn á undir högg að sækja sökum mikils landbrots af völdum sjávar. Þegar hafa verið skoðuð og skráð nokkur snið í rofnar minjar og stefnt er að því að taka nokkra könnunarskurði á næstu dögum. Fjölmargir gripir hafa komið í ljós, s.s. naglar, bátasaumur, brýni, sökka og gripir úr hvalbeini sem að líkindum hafa verið unnir á staðnum. Verkefnið er styrkt af Fornminjasjóði.
Fyrir áhugasama má skoða fleiri myndir á Facebook.