Fara í efni

Mark Watson dagurinn heppnaðist vel

Í tilefni af afmæli enska aðalsmannsins Mark Watson (1906-1979) stóð Byggðasafnið fyrir dagskrá í Glaumbæ í gær í miklu blíðskaparveðri. Watson var mikill Íslandsvinur og eigum við honum margt að þakka, þar með talið rausnarleg peningagjöf til viðgerða á gamla torfbænum í Glaumbæ árið 1938 sem átti sinn þátt í að bærinn hefur varðveist. Watson hefur jafnframt verið titlaður bjargvættur íslenska fjárhundsins og er afmælisdagur hans "Dagur íslenska fjárhundsins".
Af þessu tilefni heimsótti fjöldi íslenskra fjárhunda á öllum aldri safnið og Evelyn Ýr Kuhne fræddi gesti um íslenska fjárhundinn og sagði frá sýningu um íslenska fjárhundinn sem mun opna á næstunni á Lýtingsstöðum. Auk þess fengu börn að prófa að fara á bak hestum frá Syðra-Skörðugili. Þá kom RÚV í heimsókn og tók viðtöl við tví- og ferfætlinga á svæðinu.
Við viljum þakka öllum sem komu í heimsókn í gær í tilefni af afmæli Mark Watson og sérstakar þakkir til þeirra sem hjálpuðu okkur að gera daginn sem eftirminnilegastann!
 
Fleiri myndir frá viðburðinum má sjá á Facebook síðu safnsins.