Fljótlega í lok annarrar viku fornleifarannsóknarinnar á Höfnum á Skaga fór að glitta í merkilega uppgötvun.
Í meintu nausti, sem er suðvestast á uppgraftarsvæðinu, fór að koma í ljós mikill fjöldi bátasauma. Þegar móta fór fyrir kjölfari innst í naustinu og viðarleifar fóru að sjást inn á milli bátasaumanna þótti ljóst að fundinn væri bátur sem skilinn hefði verið eftir í naustinu og grotnað þar niður.
Er um mjög merkilegan fund að ræða þar sem þetta er í fyrsta sinn sem bátur, sem ekki er í kumli, er grafinn upp á landi hérlendis. Nokkrir bátar í kumli hafa hins vegar verið rannsakaðir. Ljóst er að öll lengd bátsins er ekki varðveitt þar sem sjávarrof hefur étið sig inn í framenda meints nausts. Þær leifar sem grafnar hafa verið fram eru 4,4m á lengd en líklegt að báturinn hafi verið nokkuð lengri en það. Um aldur bátsins verður lítið staðhæft að sinni, en hugsanlegt er að hann sé frá 16.-17. öld.