Byggðasafninu hlotnuðust í ár verðlaunin Awards of Excellence 2023 frá ferðaskrifstofunni CIE Tours. Verðlaunin voru veitt vegna þess að heimsókn á safnið hafði hlotið 90+ í einkunn frá gestum CIE Tours en alls komu hátt í 500 manns frá CIE Tours árið 2023. Árið 2023 var jafnframt fyrsta árið sem hópar frá fyrirtækinu sóttu safnið heim en hóparnir heimsóttu bæði sýningar safnsins og gæddu sér á veitingum í Áshúsi.
Safninu hlotnuðust verðlaunin í febrúar á verðlaunahátíð í Dublin en þau rötuðu fyrst til safnsins á dögunum með Robert Young og Emma Tancred frá CIE Tours sem afhentu Berglindi Þorsteinsdóttur safnstjóra loks formlega verðlaunin.
Við erum mjög glöð og þakklát fyrir þennan viðurkenningarvott og eins og alltaf stolt af okkar starfsfólki sem spilar stórt hlutverk í því að upplifun gesta af heimsókn á safnsvæðið sé sem best.