Ásta Hermannsdóttir fornleifafræðingur hefur verið ráðin sem deildarstjóri fornleifadeildar Byggðasafns Skagfirðinga. Undanfarin ár hefur Ásta starfað sem verkefnastjóri stefnumótunar og miðlunar hjá Minjastofnun Íslands. Ásta bjó í eitt ár í Skagafirði, 2019-2020, og var þá með starfsstöð á skrifstofu Minjastofnunar í Villa Nova á Sauðárkróki, og kynntist því góða samfélagi sem í Skagafirði er.
Ásta er uppalin í Stykkishólmi og hefur reynslu af fornleifarannsóknum víðs vegar um landið, m.a. af störfum sínum hjá Fornleifafræðistofunni og Fornleifastofnun Íslands ses. Hún er með M.A. og B.A. próf í fornleifafræði frá Háskóla Íslands, og stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri. B.A. ritgerð Ástu fjallaði um fyrirbærafræði, fornleifaskráningu og menningarlandslag, og M.A. ritgerðin um seljabúskap, sér í lagi á norðanverðu Snæfellsnesi.
„Starf deildarstjóra fornleifadeildar Byggðasafns Skagafjarðar er gríðarlega spennandi og fyrir mig er það mjög öflugt næsta skref þar sem ég hef á síðustu árum komið mér upp mikilli reynslu í verkefnastýringu og utanumhaldi mála í stjórnsýslunni, en langar nú að komast aftur út í rannsóknir. Starfið býður upp á mikla möguleika til mótunar verkefna sem byggja á sterkum grunni fyrri rannsókna Byggðasafnsins. Ég, líkt og aðrir, hef fylgst með rannsóknum Byggðasafnsins á síðustu árum og áratugum með mikilli lotningu, enda frábært starf verið unnið þar fram að þessu. Markmið mitt í starfi sem deildarstjóri fornleifadeildar verður að halda áfram öflugu rannsóknastarfi í héraði sem og að styrkja enn frekar tengsl við nærsamfélagið og þekkingu almennings á þeim mikla menningararfi, sögu og minjum, sem á svæðinu er,“ segir Ásta sem mun taka til starfa þann 1. febrúar næstkomandi.
Við bjóðum Ástu hjartanlega velkomna til starfa!