Við óskum landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þökkum gestum, samstarfsfólki og velunnurum fyrir árið sem var að líða. Starfsfólk Byggðasafns Skagfirðinga hefur haft í nógu að snúast en safnið tók á móti 61.252 manns árinu, þar af 56.627 í Glaumbæ og 4625 í Víðimýrarkirkju.
Ljóst er að um færri gesti er að ræða en í fyrra þegar safnið tók á móti rúmlega 69 þúsund gestum. Það ár sprengdi alla skala og í raun var það of mikill fjöldi með tilliti til innviða, s.s. stærð bílastæðisins og svo framvegis, þó svo okkur gengur betur að aðgangsstýra eftir að við lokuðum af safnsvæðið. Skýringuna á fækkun gesta er, líkt og annarsstaðar og hefur komið fram í fréttum, að erfiðara gengur að selja í hópferðir vegna hækkandi verðlags og fregna af eldgosum.
Svo stiklað sé á stóru um verkefni safnsins árið 2024 þá voru opnaðar nýjar sýningar í Áshúsi:
- Sýning um Hjálmar Jónsson frá Bólu (1796-1875), betur þekktur sem Bólu-Hjálmar, opnar í norðurstofu á Áshúslofti. Honum var margt til lista lagt, hann var listaskrifari, þjóðfræðasafnari, góður kvæðamaður og þótti hafa eftirtektarverða frásagnargáfu og var því eftirsóttur til ræðuhalda á mannamótum. Hann hafði afburða vald á íslenskri tungu, sem hann beitti óspart og aflaði sér með því bæði vini og andstæðinga. Á sýningunni eru útskornir gripir eftir Bólu-Hjálmar ásamt úrvali ljóða sem ýmist tengjast gripunum á einhvern hátt eða hafa skírskotun í lífshlaup hans og tilvist. Við tilefnið fór kvæðafólkið Hilma Eiðsdóttir Bakken og Níels Ómarsson með kveðskap eftir skáldið.
- Í sýningarröðinni Hver var konan? verða sagðar sögur af einstökum skagfirskum konum frá 20. öld. Sýningaröðinni er ætlað að fjalla um líf og störf kvenna sem settu svip á samtíð sína, oft þó án þess að marka stór spor í ritaða menningarsögu svæðisins. Margar þeirra skildu eftir sig handverk sem safnið varðveitir. Fyrsta sýningin í röðinni er um Þóru Rósu Jóhannsdóttur (1903-1990) verslunarkonu, en hún rak verslun á Sauðárkróki um áratuga skeið. Til sýnis eru hlutir úr hennar eigu og handverk sem ber vott um hvoru tveggja í senn, listfengi og nýtni.
- Þriðja nýjungin á Áshúslofti er örsýningin Vélvæðing handverks, sem rekur í stuttu máli sögu ullarvinnslu, spuna og nokkurra aðferða textílgerðar á Íslandi frá landnámi og fram á 20. öld. Fram að iðnbyltingu breyttist textílvinnsla afar lítið, framleiðsla fatnaðar fór alfarið fram innan veggja heimilisins. Á 19. öld fóru að berast til landsins ýmis verkfæri sem gjörbreyttu framleiðsluháttum. Spuna-, prjóna- og saumavélar urðu algengari á heimilum sem gerðu textílvinnslu hraðvirkari, en slíkar vélar voru notaðar á heimilum fram á 20. öld þegar framleiðslan færðist í síauknum mæli frá heimilum og inn í verksmiðjur.
Verkefnið „Viking Networks & Young Adults“ hélt áfram á árinu en um er að ræða samstarfsverkefni safnsins, Lofotr Viking Museum í Noregi, Kyle & Lochalsh Community Trust í Skotlandi og Kujataa UNESCO World Heritage, Norse and Inuit Farming at the Edge of the Ice Cap í Grænlandi. Verkefnið er styrkt af Norræna Atlantssamstarfinu (NORA) og byggir á sameiginlegri arfleifð landanna þriggja, sögu umræddra svæða og minja frá 11. öld. Sameiginlegt markmið safnanna er að finna lausnir við þeim áskorunum sem felast í sjálfbærri ferðamennsku og eflingu afskekktra svæða og byggða. Verkefnið hlaut áframhaldandi stuðning frá NORA og mun halda áfram á árinu 2025.
Fornverkaskólinn stóð fyrir tveimur vel heppnuðum námskeiðum í torfhleðslu um mánaðarmótin ágúst / september, annars vegar á Tyrfingsstöðum á Kjálka og á Minni-Ökrum í Blönduhlíð, auk þess að standa fyrir opnum degi á Syðstu-Grund þann 10. ágúst þar sem gestum og gangandi gafst tækifæri til að spreyta sig í að tyrfa yfir þak gömlu útihúsanna en veggir þess voru námskeiðsefni Fornverkaskólans á síðasta ári. Safnið stóð einnig fyrir málþingi í Kakalaskála í nóvember síðastliðnum. Umfjöllunarefnið var varðveisla byggingarhandverks þar sem torfarfurinn var í fyrirrúmi. Hér er hlekkur á streymið fyrir áhugasöm.
Þá fengum við einnig nemendur frá arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands í heimsókn. Hópurinn kom í Skagafjörð m.a. til að kynnast torfarfinum okkar en eins og mörg vita er af nógu að taka í þeim efnum í firðinum. Nemendurnir heimsóttu Víðimýrarkirkju og og Glaumbæ og fegnu kynningu á torfi, mismunandi hleðslugerðum og verkfærum svo fátt eitt sé nefnt, og gengið var um sýningarnar á safnsvæðinu. Hópurinn fór einnig í Tyrfingsstaði þar sem þeir kynntust Fornverkaskóla- og Tyrfingsstaðaverkefnunum, gripu í torftöku og -ristu með Helga Sigurðssyni, kennara á torfhleðslunámskeiðum Fornverkaskólans og spreyttu sig á uppmælingum og skissu-teikningum í gömlu húsunum. Kalt var og blautt þann daginn, en nemendur létu það ekki á sig fá og voru afar iðin og áhugasöm. Deginum lauk með heimsókn í gamla bæinn á Stóru-Ökrum, þar sem Sigríður Sigurðardóttir sagði frá sögu staðarins og spjallaði um mismunandi grindargerðir í timburhúsum frá fornu fari. Þá lagði Inga Katrín Magnúsdóttir verkefnastjóri Fornverkaskólans land undir fót í apríl mánuði og var með kynningu á torfarfinum fyrir nemendum LungA lýðskóla á Seyðisfirði, aftur í júní mánuði þegar Fornverkaskólinn, í samstarfi við Borgarsögusafn, og hélt í sameiningu stutt torf- og grjóthleðslunámskeið á Árbæjarsafni.
Að venju var í nógu að snúast hjá fornleifadeildinni, í skráningar- og rannsóknarverkefnum. Safnið tók þátt í tveimur samstarfsverkefnum sumarið 2024 sem fólu í sér fornleifauppgreftri. Í júnímánuði tók safnið þátt í fornleifarannsókn á verbúðarminjum á Höfnum á Skaga. Þar eru umfangsmiklar minjar um sjósókn, líklega allt frá elstu tíð en staðurinn á undir högg að sækja sökum mikils landbrots af völdum sjávar. Fljótlega í lok annarrar viku fornleifarannsóknarinnar á Höfnum á Skaga fór að glitta í merkilega uppgötvun. Í meintu nausti, sem er suðvestast á uppgraftarsvæðinu, fór að koma í ljós mikill fjöldi bátasauma. Þegar móta fór fyrir kjölfari innst í naustinu og viðarleifar fóru að sjást inn á milli bátasaumanna þótti ljóst að fundinn væri bátur sem skilinn hefði verið eftir í naustinu og grotnað þar niður. Er um mjög merkilegan fund að ræða þar sem þetta er í fyrsta sinn sem bátur, sem ekki er í kumli, er grafinn upp á landi hérlendis. Nokkrir bátar í kumli hafa hins vegar verið rannsakaðir. Ljóst er að öll lengd bátsins er ekki varðveitt þar sem sjávarrof hefur étið sig inn í framenda meints nausts. Þær leifar sem grafnar hafa verið fram eru 4,4m á lengd en líklegt að báturinn hafi verið nokkuð lengri en það. Um aldur bátsins verður lítið staðhæft að sinni, en hugsanlegt er að hann sé frá 16.-17. öld.
FLASH (Fornbýli Landscape and Archaeolocial Survey, Hegranes) sem er rannsókn á þremur smábýlum í Hegranesi fór fram í júlímánuði; í Kotinu í landi Hellulands, Þrælagerði í Keflavík og Grænagerði í Huldulandi. Verkefnið er unnið í samstarfi við bandarísku fornleifafræðingana dr. Kathryn A. Catlin og dr. Douglas J. Bolander, með styrk frá NSF (National Science Foundation).
Lokaskýrsla verkefnisins „Torfhús í Skagafirði“ kom út á árinu og má blaða í um 200 blaðsíðum hennar á hér heimasíðu safnsins. Fjöldi mynda prýðir skýrsluna og fylgir hverju húsi stutt söguágrip og lýsing. Bryndís Zoëga er höfundur skýrslunnar og á hún mikið lof skilið fyrir þessa glæsilegu skýrslu.
Tímamót voru hjá Byggðasafninu um síðustu mánaðamót þegar Bryndís Zoëga landfræðingur lét af störfum eftir rúmlega 19 ára farsælt starf hjá safninu. Bryndís hefur starfað við Fornleifadeild Byggðsafns Skagfirðinga frá árinu 2005 auk þess sem hún hefur verið verkefnastjóri Fornverkaskólans síðan árið 2008. Á þessum árum hefur hún unnið mikið og gott starf í þágu Byggðasafnsins. Hún hefur komið víða við og stundað öflugar og sérhæfðar rannsóknir við góðan orðstír, núna síðast torfhúsarannsóknina sem varpaði ljósi á stöðu torfhúsa í Skagafirði. Auk þess hefur hún staðið að fjölda námskeiða hjá Fornverkaskólanum og með því stuðlað að varðveislu mikilvægs byggingarhandverks. Störf Bryndísar hafa skipt verulegu máli fyrir fagleg störf safnsins og ímynd þess og áttu ríkan þátt í að safnið hlaut Íslensku safnaverðlaunin 2016. Framlag Bryndísar til safnsins, sem og þekkingarsköpunar svæðisins, verður seint fullþakkað. Við færum Bryndísi hjartans þakkir fyrir einstaklega ánægjulegt samstarf og óskum henni velfarnaðar.
Við buðum Völu Maríu Kristjánsdóttur hjartanlega velkomna til starfa en hún tók til starfa sem nýr verkefnastjóri matarupplifunar safnsins. Hún tók því við svuntunni í Áshúsi og sér um kræsingarnar þar á borðum.
Byggðasafninu hlotnuðust í ár verðlaunin Awards of Excellence 2023 frá ferðaskrifstofunni CIE Tours. Verðlaunin voru veitt vegna þess að heimsókn á safnið hafði hlotið 90+ í einkunn frá gestum CIE Tours en alls komu hátt í 500 manns frá CIE Tours árið 2023. Árið 2023 var jafnframt fyrsta árið sem hópar frá fyrirtækinu sóttu safnið heim en hóparnir heimsóttu bæði sýningar safnsins og gæddu sér á veitingum í Áshúsi. Við erum mjög glöð og þakklát fyrir þennan viðurkenningarvott og eins og alltaf stolt af okkar starfsfólki sem spilar stórt hlutverk í því að upplifun gesta af heimsókn á safnsvæðið sé sem best.
Auk ýmissa annarra verkefna sem ekki verður farið nánar út í hér stóð safnið einnig fyrir ellefu viðburðum, auk þess að taka þátt í fjölda annarra viðburða, s.s. Fjallkonuhátíð í Skagafirði, málþingum, ráðstefnum og tók á móti ríkisstjórn Íslands, svo dæmi séu tekin. Viðburðir safnsins fengu góðar undirtektir og voru að jafnaði vel sóttir.
Starfsfólk Byggðasafns Skagfirðinga hlakkar til viðburðaríks árs 2025 og færir samstarfsaðilum, velunnurum og gestum safnsins hjartans þakkir fyrir samfylgdina á liðnu ári!
Fréttin var uppfærð 7. janúar 2025.