Fara í efni

Ærsladraugur á Alþjóðlega safnadeginum?

Við þökkum öllum fyrir sem "mættu" á rafræna viðburðinn okkar þann 18. maí í tilefni af Alþjóðlega safnadeginum!
 
Gaman er að segja frá því að þemað í ár var "Framtíð safna – Uppbygging og nýjar áherslur" og voru söfn hvött til að skoða þá fjölbreyttu rafrænu möguleika sem í boði eru til að miðla, fræða og skemmta.
 
Af þessu tilefni ákváðum við hjá Byggðasafninu að spreyta okkur á "Facebook Live" og vera með viðburð þar sem yrði beint streymi frá leiðsögn um gamla bæinn.
 
Nema hvað, eins og margir eflaust vita er torf einstaklega einangrandi efni, og raunar svo einangrandi að ekkert farsímasamband næst inni í gamla bænum, og þar með heldur ekki netsamband.
 
Nú, þar sem þemað í ár snerist um nýsköpun létum við þetta ekki stöðva okkur og tókum í staðinn myndband af leiðsögn inni í gamla bænum. Stefndum þannig á að hafa fyrri part leiðsagnarinnar utan gamla bæjarins á "Facebook Live" en setja restina af leiðsögninni, inni í bænum, á myndbandi á viðburðinn. Þannig höfðum við fundið hina fullkomnu lausn á vandamálinu! Eða það héldum við...
 
Þegar að því kom að setja myndbandið inn að beinu útsendingunni okkar lokinni vildi svo til að allt internetsamband á svæðinu datt niður! Sama hvernig reynt var með ýmsum brögðum að lokka myndbandið inn á Facebook þá gekk það ekki. En allt hafðist þetta að lokum og eftir mikla þrautsegju og þolinmæði starfsmanna safnsins þá fór myndbandið loks í loftið en þó nokkrum klukkutímum seinna en áætlað var.
 
Það er ljóst að áskoranirnar liggja víða í safnastarfi framtíðarinnar!
 
Við hvetjum áhugasama til að horfa á leiðsagnirnar:
Fyrri partur íslensku leiðsagnarinnar: https://fb.watch/5AWYEtdRLl/
Síðari partur íslensku leiðsagnarinnar: https://fb.watch/5AW-cQ1qNZ/
The first part of the guided tour in english: https://fb.watch/5AX1Jm4ADh/
The second part of the guided tour in english: https://fb.watch/5AX39Qwwrl/
 
Leifur og Ylfa segja frá bænum.