Þökkum öllum gestum fyrir komuna í útgáfuhóf bókarinnar "Vetrardagur í Glaumbæ" og sýningaropnun samnefndrar sýningar sem var í Áshúsi í gær en fjöldi fólks kom og virti fyrir sér bókina og myndir Jérémy Pailler og festu jafnvel kaup á málverkum.
Þá var þjóðháttaáhugafólk frá Akureyri og félagar úr Kvæðamannafélaginu Gefjunni búið að koma sér vel fyrir í gamla bænum og héldu þar jólastarfsdag. Hópurinn fór með kveðskap og sýndi tóvinnu, kertagerð, laufabrauðsútskurð, jólaskrautsgerð og skreytingu á jólatré, þá fengu ungir gestir tækifæri til að spreyta sig á sumum þessara handverka. Margrét frá Ytri-Mælifellsá sýndi líka hvernig vinna má með hrosshár og prúðbúnar Pilsaþytskonur settust við handverk og samveru í Prestshúsi. Þá kom Stjörnukór Tónadans og söng nokkur jólalög fyrir utan Áshúsið og í Baðstofunni í Glaumbæ undir fimri stjórn Kristínar Höllu. Áshúsið var jafnframt opið og hægt að bragða þar á ýmsu bakkelsi og heitum drykkjum. Elínborg (Breiðargerði) og Sigrún (Rúnalist) voru fulltrúar smáframleiðenda á svæðinu og buðu upp á kynstrin öll af góðgæti og glæsilegu handverki á jólamarkaði í kjallara Áshússins.
Það var því sannur jólaandi sem sveif yfir safnsvæðinu og óhætt að segja að viðburðurinn hafi heppnast vel og öll hafi skemmt sér konunglega og mörg lært sitt hvað um jólaundirbúning í "gamla daga". Við þökkum smáframleiðendum, handverksfólkinu, Pilsaþyt og kórnum kærlega fyrir komuna, og hjálpina við að glæða gamla bæinn og safnsvæðið lífi, og sérstakar þakkir til Níelsar Ómarssonar fyrir glimrandi góða hugmynd og frábært samstarf!
Að lokum þökkum við Siggiphotography fyrir fallegar myndir en hægt er að skoða hluta af myndunum á Facebook síðu safnsins.