Fara í efni

Við kveðjum árið 2017


Fyrir jólin var safnmunum pakkað á 180. brettið í safnmunageymslunni í Minjahúsinu. Inga Katrín og Berglind hafa staðið geymsluvaktina frá í vor og ljósmyndað alla safnmuni um leið og þær hafa haft hönd á þeim öllum, endurraðað þeim og samræmt og gengið frá þeim til flutninga og geymslu á brettum. Pökkunin er vandaverk sem krefst varfærni og ríkrar skipulagsgáfu. Hvern grip þarf að meðhöndla eftir kostum og kynjum, ástandi og gildi.

Bryndís og Guðný hafa lokið fjölda fornleifaskráninga og fornleifarannsókna svo sem rannsóknarskýrslur ársins 2017 gefa til kynna. Nokkrar skýrslur eru enn í vinnslu og verða kláraðar í byrjun næsta árs.

Ylfa hefur skráð mikinn fjölda ljósmynda á gagnagrunninn Sarp (sarpur.is) og prófarkarlesið safnmunatexta sem þar eru skráðir. Hún er stöðugt á gestavakt í Glaumbæ. Aðrir safn- og staðarverðir í Glaumbæ á árinu voru: Berglind R., Dagmar, Guðrún, Hrönn, Jóndís, Ísak, Philip, Sæþór, Þórhallur og Orri (Einar Örn) stóð vaktina á Víðimýri. Gestir á árinu voru alls 40010 í Glaumbæ og 6889 á Víðimýri,  talsvert færri en í fyrra.

Samstarfsfólk á árinu var með fjölmennasta móti. Mest bar á 20 manna hóp sérfræðinga og námsmanna frá Boston sem vann með okkur við fornleifarannsóknir í Hegranesi.