Undanfarna tvo daga hefur torf verið rist á Glaumbæjareyjum í frostlausri jörðu í blíðskaparveðri (dagana 12.-14. febrúar). Torfið verður sett ofan á safnlóðarvegginn, frá bílastæði að kirkjuplani, til að hækka hann. Veggurinn, sem var hlaðinn árið 2003, er mjög siginn og fólk er farið að ganga yfir hann næstum hvar sem það kemur að honum. Sem er skaði bæði fyrir hann og safnlóðina, sem hann afmarkar. Veggurinn verður nú hlaðinn í sömu hæð og nýi Glaumbæjarkirkjugarðsveggurinn, sem hlaðinn var í fyrra. Með því er vonast til að hægt verði að stöðva „yfirganginn“ og samræmi verður á veggjunum og fallegt heim að líta. Torfhleðslumenn eru Helgi Sigurðsson og Þorgils Sigurðsson.
Myndirnar hér fyrir neðan tala sínu máli. Ótrúlegt en satt.