Nú þegar daginn er tekið að stytta er ekki lengur opið á föstum opnunartíma í safninu. Við færum gestum okkar hjartans þakkir fyrir komuna í Glaumbæ og Víðimýri í sumar. Það sem af er ári hafa alls 42.128 manns lagt leið sína á báða viðkomustaði, 37.933 í Glaumbæ og 4.195 í Víðimýri.
Við safnið störfuðu tólf safn- og staðarverðir við safngæslu og móttöku gesta í sumar. Sýning safnsins í gamla torfbænum í Glaumbæ var opin frá 1. apríl til 20. október, þar af alla daga frá kl. 9 til 18 frá 20. maí til 20. september. Yfir vetrartímann er opið eftir samkomulagi fram á vor. Víðimýrarkirkja var opin frá kl. 9 til 18 alla daga frá 1. júní til 31. ágúst. Utan þess tíma er opið samkvæmt samkomulagi við staðarvörð.
Færri gestir heimsóttu Glaumbæ og Víðimýri í ár en í fyrra en þá voru þeir 46.899, þar af 40.010 í Glaumbæ og 6.899 talsins í Víðimýrarkirkju. Talsverð fækkun á gestakomum var í Víðimýrarkirkju á milli ára en um helmingi fleiri gestir heimsóttu kirkjuna árið 2016, en þá voru gestir 8308.
Meðfylgjandi gröf sýna dreifingu gesta á milli mánaða og ára í Glaumbæ og í Víðimýrakirkju. Grafið fyrir gestakomur í Glaumbæ sýnir hvernig gestakomur hafa verið að dreifast sífellt meira yfir tímabilið en vert er að taka fram að tímabilinu október til desember er að sjálfsögðu ekki lokið og einhverjir gestir eiga eftir að bætast við þá samtölu þar sem opið er eftir samkomulagi, samanber fyrri ár þar sem samtalan er til ársloka. Grafið fyrir Víðimýrarkirkju sýnir hvernig gestum hefur farið fækkandi.
Þess má geta að umtalsvert fleiri kaupa sig ekki inn í bæ og kirkju en vilja taka myndir og njóta aðstöðunnar og fallegs umhverfis á safnasvæðinu.